Sunnudagur, 27. september 2009
Sýndarpeningar og mannlegur máttur
Í fréttum fyrir stuttu sagði félagsmálaráðherra, Árni Páll Árnason, að ekki væri í mannlegum mætti að lækka skuldir heimilanna.
Stór orð það.
Hér ætla ég að einbeita mér að verðtryggðum lánum.
Verðtrygging hækkar höfuðstól lána. Hækki verð á rakspíra, tannkremi og píputóbaki, hækka verðtryggð lán.
Láni ég vini mínum viskíflösku ætlast ég til þess eins að fá borgað í sama. Fá eins flösku til baka eða andvirði hennar í peningum, á því verði sem gildir við endurgreiðslu. Þetta er verðtrygging. Þarna er um eðlilega verðtrygginu að ræða. Þ.e. að einungis verðgildi viskíflöskunnar er notað til grundvallar verðtryggingarinnar. Okkur vinunum finndist báðum óeðlilegt að binda verðgildi viskíflöskunnar við verð á svitaspreyi.
Því væri eðlilegast, vilji menn nota verðtryggingu, að verðtryggja húsnæðislán með vísitölu húsnæðisverðs og bílalán með einhverskonar vísitölu bifreiðaverðs. Veit ekki til þess að hún sé til. En að verðtryggja með svitaspreyi og tannstönglum er úr kortinu.
En allt í lagi. Við búum við vísitölu neysluverðs. Þessa með tanntönglunum og dömubindunum. Vísitölu sem notuð er til verðtryggingar á allihoopa. Burt séð frá hvort það tengist bleium og dömubindum eður ei.
Hvað er það sem gerir það mannlegum mætti ófært að færa niður lán handvirkt?
Það gengur mér illa að sjá. verðbætur á lán, af völdum verðtryggingar, eru nefnilega í senn sýndarpeningar og mannanna verk. Því ætti auðveldlega að vera hægt fyrir mannskepnuna að hafa áhrif á eigin gjörðir. Það er ekki eins og um sé að ræða einhver óviðráðanleg náttúrulögmál.
Sýndarpeningar segi ég. Já og ég skal útskýra það.
Tökum dæmi.
Ég kaupi hlutabréf á 1 krónu. Stuttu síðar hækkar það á markaði í 10 krónur. Hef ég þá grætt 9 krónur? Nei, ekki nema ég selji hlutabréfið. Haldi ég hlutabréfinu og það lækkar aftur í verði niður í 5 krónur, hef ég þá tapað eða grætt? Meðan ég á enn bréfið hef ég hvorki tapað né grætt. Ég hef misst af þeim 9 króna gróða miðað við að ég hefði selt bréfið þegar verð þess voru 10 krónur, en ég hef ekki orðið fyrir neinu raunverulegu tapi. Gæti enn selt það og grætt 4 krónur.
Meðan bréfið er ekki innleyst verður enginn fyrir tapi né hlýtur gróða. Svo er eins með verðbætur.
Verðbætur eru sýndarpeningar sem ákveðnir er með manngerðri vísitölu. Hækkun höfuðstóls án þess að neinir peningar liggi að baki. Því kostar engin fjárútlát að skera niður verðbætur. Það er bara gert með pennastriki. Niðurskornar verðbætur yrðu þá í mesta lagi missir af gróða, en aldrei fjárhagslegt tap.
Svona eins og þegar ég hef útfyllt lottóseðilinn en gleymi að kaupa hann. Sé svo að ég hefði fengið 5 rétta. Væri ég þá kominn milljónir í mínus?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Athugasemdir
Frábær færsla Brjánsi !
Þú skýrir fyrir mörgum illskiljanlega hluti á einfaldan hátt, ekki er vanþörf á, fyrst öll hagfræðiumræða fer fram á nokkurs konar hebresku.
Bestu kv. þinn gamli skólafélagi, Fúsi.
Sigfús Austfjörð (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 01:26
takk fyrir það, Fúsi minn
Brjánn Guðjónsson, 28.9.2009 kl. 10:15
Vel útskýrt frændi.
Veraldarálfurinn (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 10:39
Vandin lyggur í því að að ríkið og bankarnir er búið að veðsetja verðbæturnar. Við niðurfellingu verðbóta þá hverfur þetta veð.
Trixið hjá stjórnvöldum er að fella niður verðbætur lána núna og láta landsmenn breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Við erum á góðri leið í bullandi verðhjöðnun sem mun éta upp verðtryggð lán á ógnahraða en óverðtryggð munu standa í stað. Þannig lágmarka þeir tapið á verðtryggðu lánunum.
jon eggert (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 11:14
Fínn pistill Brjánn.
Þráinn Jökull Elísson, 28.9.2009 kl. 17:39
Góð færsla
Eva , 28.9.2009 kl. 23:32
Brjánzabrill á barnamáli...
Steingrímur Helgason, 29.9.2009 kl. 21:54
Mér finnst færsla sem þessi, sé fyrirmynd og skólabókadæmi um tilgang bloggs, hvernig ástandið er sett í auðskyljanlega myndlíkingu.....Bravo......
Fimm stjörnu blogg-færsla........
Gunnar Þórbergur Harðarson (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 01:51
ég þakka
bara hugsanir venjulegs almúgamanns.
Brjánn Guðjónsson, 3.10.2009 kl. 21:40
Skeleggur að vanda kæri vinur...
Mói Hallfreðs (IP-tala skráð) 5.10.2009 kl. 15:54
vel útskýrt - takk
Sigrún Óskars, 8.10.2009 kl. 21:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.