Laugardagur, 10. október 2009
íslenskufasismi
Ég gerist iðulega íslenskufasisti.
Þó er ég mjög á móti íslenskun alls kyns orða sem unnið hafa sér sess í málinu. svo sem þegar menn ætla að íslenska orð eins og internet og kalla það alnet eða lýðnet. Þannig fasisma aðhyllist ég ekki.
Hins vegar vil ég að menn fylgi reglum um fallbeygingar þegar farið er með góð og gild íslensk orð.
Ég er svo mikill þverhaus að sjái ég eða heyri auglýsingu þar sem íslensk orð eru svívirt eflist ég allur í andstöðu minni við fyrirtækið sem auglýsir.
Því mun ég ekki geta átt viðskipti við verslunina Betra bak.
verslunin selur rúm og hefur auglýst annað slagið. Í auglýsingunum talar Arnar Björnsson og talar um Betra bak í hvaða falli sem er. Ég botna ekkert í manninum að taka í mál að tala svona rangt gegn greiðslu.
Nú er útsala í Betra bak.
Rúm frá Betra bak.
....
Fæ hroll við að heyra þetta.
Hví má ekki tala um rúm frá Betra baki?
Þar sem ég var að smella á Vista hnappinn mætti Arnar í sjónvarpinu að hnykkja á óskapnaðinum.
Athugasemdir
Vont er að vera illt í baki
Vor boðar lóukvak
Ugla á kvisti og upp á þaki
Er útsala í Betra bak ?
Brattur, 10.10.2009 kl. 20:43
Þylur Brjánn sitt bænakvak
í bloggi þessu fína.
Allir þjóta í "Betra bak",
að bæta líðan sína.
Sæmundur Bjarnason, 10.10.2009 kl. 20:55
Já, það eru nokkrar svona svipaðar. Maður tekur kannski mest eftir Betra baki af því þeir auglýsa svo oft að þeir geti gert slæm bök að betri bökum.
Ég veit svo aldrei hvort ég eigi að beygja "Byggt og búið", "Séð og heyrt". Finnst fáránlegt að reyna það, en hef einhverja fasistaþörf fyrir það : )
Eygló, 11.10.2009 kl. 02:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.