Er þetta ekki dæmigert?

Viðskiptaráðherra lætur að því liggja að, enn og aftur, muni ríkið koma bönkum og lánastofnunum til aðstoðar fari svo að dómur falli um ólögmæti gengistryggðra lána.

Sumsé, það þykir meira en sjálfsagt að púkka undir peningaliðið meðan almenningur er tekinn í þurrt. Það er ekki í bígerð að aðstoða almenning, nema með þeim hætti að gera honum kleift að borga meira, en bara með minni greiðslubyrði. Allt gert til að passa upp á að peningaliðið haldi sínu. Meira aðstoð við peningaliðið, að fá allt sitt með vöxtum og vaxtavöxtum, en nokkurn tíma aðstoð við almenning.

Reist hefur verið skjaldborg. Vissulega. Skjaldborgin er ekki reyst um heimilin, heldur peningaliðið. Banka og lánastofnanir. Úrræði ríkisstjórnarinnar til handa almenningi eru í besta falli sleipiefni til að aftanítakan verði þolanlegri.

Nú er þessi ráðherra ekki týpískur flokksgæðingur og utan þings. Ég spyr mig þó, hvort einhver myglusveppur sé viðvarandi í þinghúsinu. Er það lögmál að þeir sem tylli þjóhnöppum sínum á ráðherrastól gerist rotnir?


Fúll fretur

Í vikunni hleypti gapuxinn í félagsmálaráðuneytinu af fúlum fret, þegar hann lýsti yfir að frysta þyrfti laun opinberra starfsmanna í fimm ár. Kallar svo eftir þjóðarsátt um það (!)

Kaupmáttur almennings hefur hrapað á tveimur árum. Fyrst með stöðutöku bankanna gegn krónunni fyrri hluta ársins 2008, sem lækkaði gengi krónunnar og þar með hækkaði verð á innfluttum vörum. Síðan með launalækkunum á vinnumarkaði, eftir hrun. Síðan með skattablæti Joðs, sem lítið virðist skila öðru en minnkandi neyslu og varla svo mikilli tekjuaukningu ríkisins í ljósi þess. Stalínhagfræðin á útopnu þegar fólk horfir ekki á heildarmyndina.

Gapuxinn vill frysta laun opinberra starfsmanna í fimm ár.

Gefum okkur að svo yrði og að kaupmáttur starfsmanna í einkageiranum batnaði á næsta eða þarnæsta ári. Jafn vel árið þar á eftir. Þá sætu opinberir starfsmenn eftir í frosti.

Er þetta skjaldborgin? 

Þessar hugleiðingar gapuxans ætti að setja á safn, sem viðvörun fyrir kjósendur framtíðarinnar.

Hér þarf að efla hagkerfið og auka veltu. Það gerist ekki með skattahækkunum eða öðru sem dregur úr kaupmætti og neyslu. Þau mistök voru gerð að lækka skatta meðan allt var í gúddí og menn hefðu frekar átt að safna í sjóði til mögru áranna. Í góðæri ætti ekki að lækka skatta, en lækka þá í hallæri, að því gefnu að menn hafi safnað sér í sjóði. Nú eru mögru árin og engir sjóðir, heldur er almenningur skattpíndur út í hið óendanlega. Sem skilar sér í enn minni neyslu, sem setur fyrirtæki í vanda, sem og minni skatttekjum. Það þarf engan stjarneðlisfræðing til að sjá það.

Vitanlega veit enginn neitt um hvernig ástandið verður eftir ár, hvað þá tvö. Þótt einhverjir spekingar gefi út spár sem hafa ekki sterkari grundvöll en að byggja á kaffibollaskán eða heimsókn til spákonu. Bara eldgosið í jöklinum sem útlendingar kunna ekki að nefna sýnir að ekkert er öruggt eða fyrirséð í þessum heimi. Eins gæti eitthvað jákvætt gerst þannig að dagatalið verði fært aftur til 2007.

Fólk er enn, eftir heilt ár, að bíða eftir alvöru aðgerðum. Að lama þjóðfélagið enn meira en orðið er, er ekki lausn á vandanum. Þvert á móti.

Bankarnir tóku stöðu gegn viðsemjendum sínum. Samt ganga allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar út á að vernda hagsmuni bankanna, í stað þess að standa með almenningi. Ríkisstjórnin hafði tækifæri til leiðréttinga stökkbreyttra lána, meðan ríkið átti allt gumsið.


Niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin stendur ekki með skjólstæðingum sínum. Fólkinu í landinu. Heldur peningaliðinu. Líka Joð og félagar, sem vilja gefa sig út fyrir að standa fyrir annað.


Fleiri en gapuxinn eru að freta fúlu.

 


Hið háa og virðulega Alþingi

Eftir að hafa fylgst með uppákomunni í þingsal í dag, fór ég að velta því fyrir mér hví Alþingismenn tali sí og æ um hið „háa og virðulega“ Alþingi.

Alþingi er stofnun og það sem gerir Alþingi að því sem það er, er hvorki Alþingishúsið, ræðupúltið, mötuneytið né stólaáklæðin.

Það sem gerir Alþingi að því sem það er, er fólkið sem þar starfar. Rétt eins og fyrirtæki verður aldrei traustara en stefna þess og starfsfólk. Eins að skóli verður ekki góður nema hafa góða námsskrá og góða kennara.

Hvað er það sem gerir Alþingi svo „hátt og virðulegt?“

Við að horfa á uppákomurnar þar og þrasgirnina, er „virðing“ ekki fyrsta hugtakið sem kemur upp í hugann.

Reyndar er starfsfólk þar innan veggja sem sjálfsagt er ágætt. Það er að segja þingverðir og þess konar. Jafnvel þótt þeir telji það ógnun við þingið að detta á ofna við það að einhver hrasi og detti á þá.


Hvað er svo „hátt og virðulegt“ við fólk sem sóar tíma sínum í Morfísræður og orðhengilshátt? Svona einskonar „pabbi minn er sterkari en pabbi þinn“ samræður og keppikeflið að eiga síðasta orðið. Fyrir mér er Alþingi frekar lágkúruleg samkunda gapuxa og argaþrasara, upp til hópa, en að vera „há og virðuleg.“

Í stað þess að gera gagn og hefjast handa við að reisa hina frægu skjaldborg, sem væri ágætis byrjun, er tímanum sóað í þras og sandkassaslag.

Margt fólk á í neyð, eða stendur frammi fyrir að eiga í neyð innan skamms. Er hið „háa og virðulega“ Alþingi að hjálpa því? Það er jú Alþingis að setja lögin. Svo situr þarna fólk sem hefur skitið svo stórt á sig, að fnykurinn kæfir nærstadda, en vilja ekki yfirgefa salinn svo lofta megi út.


Ég er bara ekki að sjá hvað er svona „hátt og virðulegt“ við þessa samkundu.
Eins mætti tala um fagran lort eða virðulegan útikamar.


Munurinn á Alþingi og kamrinum er þó sá að kamarinn gæti orðið mörgum til gagns, í neyð.


Lýðræði?

Ég hef lúmskt gaman að umræðunni í bloggheimum um meirihlutasamstarf Besta flokksins og Samfylkingarinnar. Umræðan er helst drifin áfram af spældu sjálfstæðisfólki.

Ýmsar raddir. Sumar einfaldlega fúlar allsherjar. Margar enn í gömlu rullunni að Besti flokkurinn sé ekki „alvöru“ og að atvinnupólitíkusar eigi að stjórna. Það er að segja fólk sem alið hefur verið upp, frá blautu barnsbeini, á uppeldisstofnunum flokkanna. Fólk sem klifið hefur hina hefðbundnu og grútmygluðu metorðastiga. Fólk sem hefur enga praktíska reynslu af neinu.

Heldur bara;

Morfís -> ungliðahreyfingarnar -> vinna á RÚV -> aðstoðarmenn -> borgarfulltrúar -> Alþingismenn -> sendiherrar eða Seðlabankafólk, áður en það á endanum fer sömu leið og allir aðrir. Undir græna torfu.

Allir eiga það þó sameiginlegt að vera bitrir yfir að Besti flokkurinn hafi valið að ganga til samstarfs við Samfylkingu, í stað þess að hafa kosið að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Minnir á viðbrögð afbrýðissams einstakling sem horfir á eftir þeim sem hann er hrifinn af í faðm einhvers annars.

Fyrir utan allar beinagrindurnar sem Sjálfstæðismenn þurfa væntanlega tíma og næði til að losa úr sínum skápum og ég geri ráð fyrir að Besti flokkurinn vilji ekki snerta með priki, hvað þá meir, finnst mér sú ástæða að Besti flokkurinn telji sig hugmyndafræðilega standa næst Samfylkingu nægjanleg.

Hinir bitru tala gjarnan um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði átt að vera fyrsta val, sem næst stærsti flokkurinn. Kannski það. Ef við lítum framhjá hugmyndafræðinni og segjum sem svo að menn ættu að horfa til fylgisins eingöngu þegar kemur til þess að skoða væntanlega samstarfsaðila, hvað þá?

Ættu menn að horfa á fylgið eingöngu eða taka jafnframt tillit til fylgisbreytinga frá seinustu kosningum og lesa í skilaboðin?

Það má svo sem endalaust leika sér með tölur og fá úr „rétta“ niðurstöðu ef maður vill. Bara spurning hvaða gildi maður kýs að setja í jöfnuna til að fá þá niðurstöðu sem maður vill.

Ég hef kosningatölur frá 2006 ekki á reiðum höndum, en miðað við fulltrúafjölda hefur Framsóknarflokkurinn tapað 100%, Frjálslyndi flokkurinn 100%, VG 50%, Sjálfstæðisflokkurinn tæpum 29% og Samfylking 25%.

Auðvitað segja hlutfallstölur ekki allt, en samkvæmt þeim er Samfylkingin sá flokkur sem tapar minnst hlutfallslega. sjálfstæðismenn hafa vísað í tölur úr Alþingiskosningunum í fyrra, en það er eins og að bera saman epli og appelsínur. Þá og nú var fólk ekki að kjósa um sömu hlutina, þótt einhverra áhrifa gæti þó.


Skemmtilegast af öllu þykir mér þó að ramba fram á blogg eins og þetta. Óborganlegt.

Þegar sjálfstæðisfólk sakar Besta flokkinn um vanvirðingu á lýðræðinu, fyrir að velja Samfylkinguna, á forsendum kjörfylgis hennar. Þeir hefðu átt að velja Sjálfstæðisflokkinn, sem réttilega hafði meira fylgi.

Á sama tíma gleymir sama fólkið að á síðasta kjörtímabili myndaði Sjálfstæðisflokkurinn þrjá meirihluta. Alla með minnstu flokkunum. Framsókn, Frjálslyndum og svo aftur Framsókn. Hvoru tveggja flokkar sem rétt náðu að slefa inn sínum fulltrúanum hvor.


Heitir þetta ekki að vera í mótsögn við sjálfan sig?


Deitbransinn í Reykjavík

Eftir atburði dagsins og Kastljóssviðtal kvöldsins, við Dag B. og Jón Gnarr, hafa margir gagnrýnt að Besti flokkurinn hafi valið einn flokk, Samfylkinguna og einbeitt sér að viðræðum við hann í stað þess að hafa alla anga úti og tala við alla í einu. Þórhallur Kastljóssins gerði það m.a. að umtalsefni.

Fyrir mér er ástæðan skýr. Ekki síst í ljósi ummælanna í þessari frétt, þar sem talað er um að „hoppa ekki í óðagoti upp í rúm með neinum.“

Ég man, að þegar ég las téða frétt á dv.is, fyrr í vikunni, sá ég fyrir mér að Besti flokkurinn vildi tækla málið eins og einskonar tilhugalíf. Þar sem fólk er ekki síst að byggja upp gagnkvæmt traust, hvort hjá öðru.

Í Kastljósi kvöldsins talar Jón síðan um að þessi leið hafi verið farin til að byggja upp traust. Í mínum huga og miðað við orðalagið í DV-fréttinni, er þessi skýring rökrétt.

Eins og flestu fullorðnu fólki ætti að vera kunnugt kann ekki góðri lukku að stýra að deita fleiri en einn í einu. Að vera með alla anga úti og elta allt sem hreyfist er ekki til þess fallið að byggja upp traust.


Því vekur furðu mína viðbrögð sumra og eins upp þá spurningu hvert siðferðismat þeirra er.


Fríkað, fyndið, fáránlegt!

Fríkað, fyndið, fáránlegt!

Allt á þetta við um viðbrögð þeirra sem hingað til hafa talið sig hafa einkarétt á stjórnmálum, eftir niðurstöður kosninganna í Reykjavíkurhreppi.

Þeir hinir sömu gerðust taugaveiklaðir löngu fyrir kosningar, þegar ljóst var í hvað stefndi. Grófu skotgrafir í gríð og erg, að hætti Dabba. Með glerþaki auðvitað. Annars hefði ekki verið eins gaman að kasta steinum.

Nú liggur niðurstaðan fyrir og hinir sömu kasta fleiri steinum. Grútspældir yfir að venjulegir borgarar skyldu dirfast að mæta í elítupartýið þeirra og stela athyglinni.

Auðvitað hlýtur að vera spælandi að hafa soðið upp eðal froðu til að mata oní svartan almúgann. Mæta svo til veislunnar, þegar einhver almúgi mætir óboðinn og bendir viðstöddum á nekt sína.

Sumir taka svo djúpt í árinni að tala um fasisma (!) Merkilegt hve sumir geta tapað öllu veruleikaskyni í bræði sinni.


Það hefur verið regla að stjórnmálamenn oti sjálfum sér og sínum í áhrifastöður þeirra stofnana sem þeir eiga síðan að hafa umsjón og eftirlit með. Hversu trúverðugt er það, að sama fólk víli og díli í stjórnun stofnana og eigi síðan að hafa eftirlit með þeim, sem borgarfulltrúar?

Eigum við að ræða Orkuveituna?


Ég get með engu trúað eða tekið mark á fólki sem bölvar þessarri stefnu Besta flokksins og vill síðan gefa sig út fyrir að vilja opna og gegnsæja stjórnsýslu.

Meðvitað ætla ég ekki að nefna nöfn. Það vita allir um hverja er átt.

Þeir sem hafa allt á hornum sér út af sigri Besta flokksins og tala um fasisma og að það stríði gegn lýðræðinu, hljóta að stjórnast af annarlegum hvötum eða eiginhagsmunum.

Ég sé ekkert annað sem réttlætt gæti slíkan málflutning. So Sorry.


Hvað er Best?

Nú eru aðeins tveir dagar til kosninga. Samkvæmt könnunum er útlit fyrir að ríkjandi meirihlutar munu falla víða. Ss. á Ísafirði, Akureyri og í Reykjavík.

bestiSamkvæmt könnunum mun Besti flokkurinn verða sá stærsti í Reykjavík og hugsanlega ná hreinum meirihluta. Þó verður að taka tillit til þess að um 40% virðast enn vera óákveðin og hætt við að einhverjir muni guggna í kjörklefanum og kjósa ekki eftir sannfæringu sinni, heldur af gömlum vana. Af því pabbi vildi það.


Eftir því sem fylgi Besta flokksins hefur mælst meira í könnunum hefur örvænting þeirra sem telja sig eiga einkarétt á stjórnmálum aukist.

Hafa þeir, ásamt skósveinum sínum, keppst við að reyna að gera Besta flokkinn ótrúverðugan. Hafa sagt hann ekki vera „alvöru“ stjórnmálaflokk. Hvað er „alvöru“ stjórnmálaflokkur? Varðandi þá spurningu vísa ég á síðasta pistil minn.


Ég ætla ekki að velta frekar fyrir mér hvað er alvöru og hvað ekki. Fólk er alvöru. Svo einfalt er það.

En er allt fólk trúanlegt og traustsins vert?

Sumir hafa vísað í kosningamál Besta flokksins sem merki um alvöruleysi og ótrúverðugleika. Ísbirni og íkorna, sem dæmi. Fólk sem líður greinilega betur með að vera svikið um loforð sem hljómuðu trúverðug og vöktu hjá þeim væntingar, heldur en loforð sem hver heilvita maður gerir engar væntingar til og er slétt sama hvort verða svikin eða ekki. Í því liggur háð Besta flokksins, að gefa loforð sem vitanlega verða svikin en allir vita hvort eð er að verða svikin, nema hinir últraferköntuðu. Trúum við og treystum þeim gapuxum sem hafa hagað sér eins og raun ber vitni, síðustu fjögur ár? Ekki ég. Mér þykir heldur ekki froðusnakk þeirra nú sérlega trúverðugt. Só sorrý.

Reyndar nefndi oddviti framsóknarmanna í þætti Sölva Tryggvasonar að jafn mikið kosti að búa til gervisnjó í Bláfjöllum og að útbúa aðstöðu fyrir ísbjörn. Kannski bara málið að sjóða báðar hugmyndirnar saman. Búa til gervisnjó í Bláfjöllum og sleppa ísbirninum þar? Enda kjöraðstæður fyrir ísbirni að spóka sig um í snjó.

allskonar

Þegar öllu er á botninn hvolft er liðsfólk Besta flokksins fólk eins og ég og þú og ekki síður til þess bært að stjórna borginni en áskriftapólitíkusarnir, nema síður sé. Besti flokkurinn hefur birt aðgerðaráætlun sem felur í sér allskonar nýjungar. Sem er nákvæmlega það sem við þurfum. Nýjungar í hugsun og gjörðum.


Ég vil gera lokaorð Sigurjóns M. Egilssonar, í pistli hans Besta leiðin, að mínum;

„Nei, fólk virðist vilja Besta flokkinn frekar en hina. Þykir hann betri kostur. Þrátt fyrir djókið, en ekki vegna þess.“

Hugsum út fyrir kassann. Stígum út úr þægindahringnum og þorum að breyta til! 

Þá mun Reykjavík Æ vera Best.


Gerum Reykjavík ekki betri. Gerum hana Besta!

Hvað eru alvöru stjórnmál? Eru alvöru stjórnmál þegar uppaldir flokksgæðingar sjá um að klúðra málum? Fólk sem aldrei hefur migið í hinn salta sjó lífsins. Aðallega í að míga yfir alþýðuna.

Svo virðast sumir halda.

Nægir hér að nefna strigakjaftana Jónas Kristjánsson og Agnesi Bragadóttur. Eins Hallgrím Helgason og Baldur Þórhallsson. Kom mér reyndar á óvart að lesa Baldur tala þannig.

Fyrir mér snúast stjórnmál um að hafa áhrif á samfélag sitt og hvernig það þróast. Simple as that.

Því er hver samfélagsþegn bær sem stjórnmálamaður. Hvort heldur hann er fyndinn eða fúll. Heiðarlegur eða ekki. Það er svo fjöldans að samþykkja hann eða hafna honum.

 

Í fyrsta sinn kemur fram „örframboð“ sem fáir tóku alvarlega í fyrstu. Þangað til að fólk gerði sér ljóst að bak við „djókið“ bjó alvara. Þá fór fylgi við það að vaxa svo ört að þeir sem hingað til hafa talið stjórnmálin sína einkaeign fengu taugaáfall. Í miðju áfallinu og án þess að ná sér niður fyrst, sem mun viturlegra hefði verið, var tekið til við að reyna að varpa rýrð á framboðið og oddvita þess. Aðferð sem reynd hefur verið oft áður og alltaf með sama árangri. Þeim að gagnast einungis þeim sem reynt er að varpa rýrð á.

Framboðið sagt „ekki alvöru“ vegna þess að á listanum séu tómir grínarar. Eins og grínarar séu ekki jafn bærir sem stjórnmálamenn og lögfræðingar, jarðfræðingar eða flugfreyjur.

Lítum aðeins á þennan svokallaða lista af grínurum. Topp átta, sem myndu ná kjöri samkvæmt síðustu skoðanakönnun.

Jón Gnarr
Einar Örn Benediktsson

Óttar Proppé
Elsa Hrafnhildur Yeoman

Karl Sigurðsson
Eva Einarsdóttir
Páll Hjaltason
Margrét Kristín Blöndal

Hve margir grínarar eru þarna?

Jú, við getum verið sammála að Jón Gnarr sé spéfugl. Karl hefur aldrei gefið sig út fyrir að vera grínari, þótt Baggalútssamsteypan sem hann á aðild að sé oft á tíðum fyndin. Óttar er best þekktur sem músíkant. Elsu þekki ég ekki, en er eflaust skemmtileg kona. Einar Örn er ekki sérlega fyndinn. Ég hef heyrt hann reyna að grínast en minnir að það hafi ekki gefist sérlega vel. Eva er tómstundafræðingur. Páll er arkitekt og Margrét titlar sig húsmóðir, þótt allir viti að hún hafi grúskað við tónlist.

Svo eftir stendur að á listanum er einn grínari. Einn! Það var þá allt grínliðið.

Þeir sem hvað harðast hafa drullað yfir Besta flokkinn hafa talað um að það væri aðeins tímaspursmál hvenær brandarinn súrni og spyrja hvað taki þá við? Svarið við því er einfalt. Alvaran. Besti flokkurinn hefur með hæðni sinni í aðdraganda kosninga gert fólki ljósan fáránleika stjórnmálanna til þessa. Sorglegt hve margir eru ferkantaðir og sjá það ekki. Hins vegar er ekkert grín að bæta borgina okkar og það vita þau alveg. Borginni gæti varla verið mikið ver stjórnað en sl. fjögur ár. Þessum almennu borgurum í Besta flokknum treysti ég fyllilega til að gera Reykjavík að betri borg.

En hvað er að því að hafa svolítið gaman að því líka?

 


Örvæntingin eykst

Um daginn skrifaði ég um örvæntingu fjórflokksins vegna fylgis Besta flokksins.

Nú virðist örvæntingin hafa náð nýjum hæðum og herferðin er hafin. Herferð til þess fallin að reyna að draga fram allt slæmt sem finnast má um formann besta flokksins og aðra meðlimi. Menn farnir að skrifa um víða netheim. Vinstri menn þó helst. Talandi tungum nöðrunnar.

Ein lágkúrulegasta og subbulegasta leið sem menn geta farið. Að upphefja sjálfa sig með að tala niður til annarra. Það væri nær að menn reyndi að finna eigin kosti og tala um þá.

En það sorglegasta, fyrir þá sem að svona herferðum standa, er þó að ævinlega koma þær í bakið á þeim sjálfum. Eigum við að rifja upp herferðina gegn Ólafi Ragnari árið 1996, eða gegn Hrannari og Helga Hjörvar árið 1994? Herferðirnar gerðu það eitt að auka heldur stuðning fólks við þá sem ráðist var gegn, en hitt. Menn virðast ekki læra af reynslunni.

Það verður fróðlegt að sjá fylgi Besta flokksins, versus fjórflokksins, í næstu könnunum.


Finnur finnur til

Í fréttum RÚV kom fram að Finnur Arionstjóri finni til með aumingja fólkinu sem verður að borga lán sem það fékk til kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi. Lán sem landsfundur Samtaka gírugra ákvað að afskrifa.

Já. Finnur er mikill mannvinur. Finnur til með hákörlunum, en finnur Finnur jafn mikið til með sótsvartri alþýðunni, sem án gírugheita og í góðri trú tók lán hjá þessum sama banka til að eiga sér þak yfir höfuðið?

Fólk sem tók sér lán til kaupa á fasteign, sem líklega hefur lækkað í verði um tugi prósenta á sama tíma og lánin hafa hækkað að sama skapi um tugi prósenta.

Ég er ekki að finna á mér að Finnur finni eins til með því fólki. Enda það ekki hluti af spillingarelítunni.

Vona þó að Finnur finni frið í hjarta sínu. Þótt það sé rotið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband