Mánudagur, 28. júní 2010
Um fótboltatuð
Í dag og í gær hef ég dottið inn á nokkur blogg, þar sem viðkomandi tuða um fótboltafárið á RÚV. Einhver vildi fá afslátt af útvarpsskatti. Aðrir eitthvað annað.
Ég get svo sem alveg skilið gremjuna, við að fá þetta yfir sig í einni holskeflu.
Vissulega eru margir sem hafa ekki gaman að fótbolta, handbolta, eða öðrum íþróttum. Sjálfur nenni ég ekki að fylgjast með enska boltanum, sem dæmi. Hef bara engan áhuga á að fylgjast með einhverju ókunnungu fólki í vinnunni sinni. Reyndar er enski boltinn ekki sýndur á RÚV.
Þó hef ég gaman að HM og EM. Hvort heldur er í fótbolta eða handbolta. Læt stórmótin duga mér. Horfi kannski á Ólympíuleikana. Svona stund og stund. Þá er það upp talið.
Stórmót í íþróttum koma í holskeflum. HM í fótbolta stendur yfir í mánuð, á fjögurra ára fresti. Önnur mót eitthvað skemur. Ólympíuleikarnir í hálfan mánuð, á fjögurra ára fresti, t.d.
Væri útsendingartíma allra þessarra stórmóta dreift yfir árin, hversu mikill yrði hann á viku? Ég hef engar tölur yfir það en tel þann tíma vart lengri en þann tíma sem fer í útsendingar innihaldslausra sápuafþreyginga s.s; Lífsháska, Berlínaraspanna, Taggart, Framtíðarleifturs, Að duga eða drepast, Bræðisvaktina, Níðþröngra eiginkona, eða hvað svo allir þessir þættir heita. Nú eða bíómyndanna um helgar og heimsóknaþáttarins Norður og niður.
Ekki nenni ég fyrir mitt litla líf að sólunda tíma mínum að horfa á slíkt. Mér dettur þó ekki í hug að fara að hafa í frammi sérlegt nöldur yfir því. Ég er vel meðvitaður um að til er fólk með allt annan smekk en ég, sem kýs Níðþröngu eiginkonurnar fram yfir fréttir, Kastljós, Silfur Egils eða Popppunkt, sem ég horfi gjarnan á.
Bara allt í lagi með það og engin ástæða til nöldurs. RÚV er miðill allra landsmanna og ber að bera á borð allskonar fyrir alla. Þó er ekki hægt að bjóða upp á allskonar handa öllum í einu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 24. júní 2010
Eiginhagsmunagæsla?
Í gær og í dag hafa Seðlabankastjóri og viðskiptaráðherra stigið fram og tjáð þá skoðun sína að upprunalegir umsamdir vextir gjaldeyrislána gangi bara alls ekki.
Hvernig stendur á því að þessir tveir menn eru svo harðir á því? Sér í lagi viðskiptaráðherrann. Gæti það haft eitthvað með þeirra eigin hagsmuni að gera?
Nú eru þeir báðir embættismenn. Seðlabankastjórinn ráðinn til fimm ára og viðskiptaráðgerrann til fjörurra ára, að hámarki.
Báðir hafa þeir áður starfað í fjármálageiranum. Eins og segir hér hefur Seðlabankastjóri gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra peningamála- og hagfræðisviðs Alþjóðagreiðslubankans í Basel í Sviss. Hann starfaði áður í Seðlabanka Íslands í um tvo áratugi og þar af sem aðalhagfræðingur í rúm tíu ár. Samkvæmt þessari upptalningu hefur viðskiptaráðherra m.a. setið í stjórnum Eignarhaldsfélagsins Verðbréfaþings, Kauphallar Íslands og Verðbréfaskráningar Íslands.
Báðir hljóta að gera sér grein fyrir að eftir núverandi störf hlýtur annað að taka við og ekki ólíklegt að þeir gætu hugsað sér að starfa áfram fyrir peningaöflin. Getur verið að þess vegna gæti þeir sín að styggja þau ekki? Getur verið að styggi þeir peningaöflin eigi þeir líklega ekki aftirkvæmt þangað og því vissara að taka stöðu með þeim en skuldurum?
Fyrir hverja starfa þessir menn og hverra hagsmuna gæta þeir?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 24. júní 2010
Fulltrúi fjármagnseigenda
Fulltrúi fjármagnseigenda í ríkisstjórn. Gylfi Magnússon. Sá hinn sami og hélt ræðu á einum laugardagsfundinum á Austurvelli og klæddist þar greinilega sauðagæru, vill ekki að lög skuli standa. Hann vill verja vini sína og félaga í fjármálageiranum og alls ekki láta umsamda vexti gilda. Mér þætti þó fróðlegt að sjá því hnekkt fyrir dómi.
Hér vísa ég í lagagrein sem segir skýrt að Seðlabankavextir skulu gilda af lánum sem skulu bera vexti ef ekki liggi fyrir ákvæði um vaxtaprósentu eða viðmið. Í gjaldeyrislánunum, flestum ef ekki öllum, liggja fyrir viðmið. Liborvextir ákveðinna mynta plús álag bankans.
Því er allt tal vindhanans í viðskiptaráðuneytinu út í hött. Hann ætti að mæta næst þegar upp úr sýður og fundir verða haldnir á Vellinum og halda ræðu.
Þó er hætt við að sjóði upp úr aftur mæti fólk með eitthvað annað en sakleysisleg eldhúsáhöld.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 23. júní 2010
Eignarrétturinn og verðtrygging
72. grein stjórnarskrárinnar hljóðar þannig:
Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Svo ég taki dæmi af sjálfum mér. Ég keypti mér íbúð haustið 2007. Hún kostaði 20,8 milljónir. Ég tók lán hjá Íbúðalánasjóði upp á 16,4 milljónir og greiddi mismuninn í peningum sem ég átti. 4,4 milljónir. Í dag stendur lánið í rúmum 20 milljónum. Er ekki með nákvæma tölu á takteinum. Alla vega. Um það bil 4 milljóna eign mín hefur brunnið upp.
Ástæða brunans er svokölluð verðtrygging. Þ.e.a.s. að teknar eru neysluvörur, s.s. snyrtivörur, áfengi og ávextir og verðbreytingar þeirra látnar hafa áhrif á húsnæðislán mitt.
Það er réttlætt á þann hátt að hækkun almenns vöruverðs þýði minnkandi verðgildi krónunnar og því þurfi að hækka lánið til þess það haldi raunverðgildi sínu.
Í þessu dæmi sé ég tvo galla.
Annars vegar er absúrd að miða verðgildi húsnæðis við verðgildi snyrtivara, áfengis og grænmetis. Þar eð engin fylgni er milli verðgildis húsnæðis og appelsína.
Hins vegar tel ég vafa á að þótt einhverjar vörur hækki í verði þýði það að gjaldmiðillinn Króna lækki í verði. Tilteknar vörur geta einfaldlega hækkað vegna minnkandi framboðs þeirra á heimsmarkaði eða annarra þátta. Því er ekki hægt að segja almennt, að hækkandi vöruverð tákni minnkandi verðgildi krónu.
Þannig er ekki hægt að færa fyrir því rök að hækkað vöruverð tákni minnkandi verðgildi krónu.
Þar af leiðir að verðtrygging, sem miðuð er við vöruverð, getur ekki verið mælikvarði á verðgildi krónunnar og af því leiðir að ekki sé hægt að réttlæta eignaupptöku, í skjóli minnkandi verðgildis krónunnar, á verðlagi einu saman.
Niðurstaðan er því að verðtryggingin í þeirri mynd sem hún er nú, sé hrein eignaupptaka byggð á sandi og brjóti því í bága við 72. grein stjórnarskrárinnar.
Miðvikudagur, 23. júní 2010
Fjámagnseigendamálaráðherrann þarf að læra að reikna
Gylfi talar um 2-3 % samningsvexti þegar raunin er sú að bankarnir lögðu ávallt álag ofan á Libor vextina. Kannski þetta 2-3% álag. Er hann að tala um það?
2-3% álag ofan á 2-3% Libor vextina gera 4-6% vexti á lánunum.
En kannski lánveitendur tapi eitthvað. Það vegur þá bara upp stórgróða þeirra af verðtryggðu lánunum, sem eru mesta eignaupptaka síðari tíma.
Ætli Gylfi, eða hans samstarfskónar, að koma fjármagnseigendum til bjargar eina ferðina enn meðan almenningur fær að snapa gams er ég hræddur um að það verði eitthvað annað en sakleysisleg eldhússáhöld sem fólk taki með sér á Austurvöllinn.
Almenningur fengi reikninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 22. júní 2010
Vaxtavangaveltur
Fram á þennan dag hef ég verið á þeirri skoðun að með dómi Hæstaréttar í gjaldeyrislánamálinu falli einungis gjaldeyristryggingin niður, en aðrir þættir samninga standi óbreyttir. Reyndar snerist dómurinn eingöngu um gjaldeyristrygginguna og því ekki fjallað um aðra þætti samningsins.
Nú eru uppi ýmsar skoðanir um hvað taki við. Sumir vilja að gjaldeyrislánum verði breytt í verðtryggð lán. Aðrir að vextir Seðlabankans skuli gilda og síðan þeir sem telja að umsamdir vextir (LIBOR + álag) gildi áfram. Ég þar með talinn. Líklega þarf að skera úr um þetta fyrir dómstólum.
Ég hef reyndar farið nokkra hringi í skoðunum mínum í dag. Algjör Ragnar Reykás. Held ég hafi hins vegar komist að niðurstöðu.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar eru umrædd lán íslensk krónulán og því hljóta að gilda um þau lög um vexti og verðtryggingu. Þar segir ma:
II. kafli. Almennir vextir.
3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.
Það er ekkert sem bannar að semja um lægri vexti en Seðlabankans. Aðeins talað um að séu vextir ekki tilgreindir, annað hvort í tölum eða vísun í vaxtaviðmið, skulu Seðlabankavextir gilda.
Sumir vilja meina að breyting vaxta úr umsömdum LIBOR vöxtum í vexti Seðlabankans brjóti gegn samningslögum (nr. 7/1937). Líklega rétt. Mér tókst ekki að finna þau í lagasafninu en gef mér að það sem ég fékk lánað hér sé satt og rétt.
36. gr. b. Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.
[Regla 2. málsl. 1. mgr. gildir ekki þegar aðilar eða stofnanir sem hafa það hlutverk að vernda neytendur geta gripið til aðgerða samkvæmt landslögum til að fá úr því skorið hvort samningsskilmálar sem ætlaðir eru til almennrar notkunar séu ósanngjarnir.]1)]2)
1)L. 151/2001, 1. gr. 2)L. 14/1995, 3. gr.
Ég tel að í flestum, ef ekki öllum gjaldeyrislánasamningum sé talað um LIBOR vexti umræddra mynta (plús álag). Að því gefnu hljóta þeir vextir að gilda, þar sem 4. grein 2. kafla laganna segir til um að Seðlabankavextir skulu [aðeins] gilda séu hundraðshluti eða vaxtaviðmiðun EKKI tiltekin. Sé talað um LIBOR vexti ákveðinna mynta eru klárlega vaxtaviðmið fyrir hendi. Að öðrum kosti skulu Seðlabankavextir gilda. Í þeim tilvikum þar sem LIBOR vextir ákveðinna mynta eru tilgreindir sé ég tæplega að þeim verði breytt.
Svo er málið hvort lánin skulu standa eftir sem óverðtryggð eða verðtryggð. Þá dettur mér í hug meðalhófsreglan, sem segir að aðeins skuli tekin íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Vextir Seðlabankans af veðlánum eru nú 8,5% og verðbólgan 7,5%. LIBOR vextir (CHF & JPY) mun lægri. Hinsvegar felur verðtryggingin í sér verðbætur á höfuðstól, þannig að prósentutalan segir ekki endilega allt. Því myndi ég telja að verðtryggt lán á 7,5% vöxtum, plús álag, verri kost en óverðtryggt á 8,5% vöxtum, plús álag og enn verri en óverðtryggt lán á LIBOR vöxtum. Ég geri ráð fyrir að álagið sé hið sama. Það álag sem kveðið er um í lánssamningi. Það hlýtur að standa óbreytt.
Meðalhófsreglan fjallar um íþyngjandi ákvörðun. Miðað við að valið standi milli verðtryggðs og óverðtryggðs hlýtur verðtryggt að vera meira íþyngjandi fyrir lántakendur en óverðtryggt. Að sama skapi á hinn veginn fyrir lánveitendur. Þá komum við að 36. gr. b. samningslaganna.
Því tel ég rétta niðurstöðu vera þá að lánin muni verða óverðtryggð og bera upprunalega tilteknu LOBOR viðmiðunarvexti, eða vexti Seðlabankans hafi vaxtaviðmið ekki verið tiltekin, að bættu upprunalega umsamda álaginu.
Hins vegar vakti eftirfarandi athygli mína við garfið í lagasafninu:
VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.
1)L. 51/2007, 1. gr.
VII. kafli. Viðurlög og málsmeðferð.
17. gr. Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.
Nú er óumdeilt að gjaldeyristryggingin var ekkert annað en ólögleg verðtrygging. Á þá ekki 17. grein 7. kaflans við?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þriðjudagur, 22. júní 2010
Réttlæti Marðar
Bræðurnir Jón og Gunnar eiga sameiginlegan kvalara. Reglulega mætir kvalarinn til þeirra og flengir Jón en lemur Gunnar í buff með hornaboltakylfu.
Gunnar leitar til dómstóla, sem úrskurða að bannað sé að berja menn með hornaboltakylfu.
Gunnar er því laus við kvalara sinn en Jón fær áfram sínar flengingar.
Þá stígur fram Mörður nokkur og segir það ranglátt að Gunnar sé stikkfrí meðan Jón þurfi áfram að þola flengingar. Honum þykir það réttlætismál mikið að Gunnar verði einnig flengdur, svona til að gæta samræmis. Heldur en að Jón sleppi við sínar flengingar.
Vill verðtryggingu á lánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Laugardagur, 19. júní 2010
Gengistrygging og hvað?
Ég er ánægður með Hæstaréttardóminn um gengistrtyggðu lánin.
Það er samt skondið að fylgjast með viðbrögðum hinna og þessa. Sumir virðast halda að dómurinn eigi aðeins við um bílalán, en ekki húsnæðislán, þar eð tilfellin fyrir dómnum voru bílalán.
Afneitunin er yndisleg og bankastjóri Landsbankans (enn einn gráhærði gaurinn sem dreginn er í stjórn bankanna) sagði að allt allt væri í gúddí.
Sumir er enn í afeitun. Arion, Landsninn og sjálfsagt freiri.
Þeirra samningar um lán til íbúðakaupa eru jafn ólöglegir. málið snýst ekki um hvort var lánað fyrir bíl, íbúð eða reiðhjóli. málið snýst um að veitt voru lán, greidd í krónum, en verðtryggð í erlendum mytum.
Einfalt lán gæti hafa verið veit á eftirfarandi veg.
Lán að upphæð X Evra greitt út í krónum. (þar eð engrar evrur skiptu um hendur er um lán í íslenskum krónum að ræða)
Lánið vaxtað með Libor Vöxtum Evru (plús álagi bankans). Gengistengt
Nú hefur gengistryggingin verið dæmd ólögmæt.
Þá standa eftir önnur atriði samningins. Upprunalegur höfuðstóll og áreiknaðir Libor vextir Evru. Þeim skilmálum verður ekki breytt. Breyti Alþingi þeim einhliða, afturvirkt, gerir Alþingi sig segt um eignaupptöku.
Því þarf að reikna lánið frá upphafi, í krónum og Libor vöxtum Evra. Simple as that. allt stendur nema hinn ólöglegi þáttur. Gengistryggingin.
Tek það fram að ég hef engin gjaldeyrislán, en finnst að þeir sem hafa verið terrorisaðir fái sitt til baka. þeir sem þegar hafa tekið líf sitt af áhyggjum munu ekki fá neitt.
Loksins er eitthvert ljós til handa fólki gegn afætunum.
Dægurmál | Breytt 20.6.2010 kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 15. júní 2010
Pólitísk gleraugu
Það má skoða þjóðmálin og pólitíkina gegn um mismunandi gleraugu.
Hólmsteinn skoðar til að mynda allt gegn um sömu sólgleraugun og kemst því ávallt að sömu niðurstöðu. Davíð þetta og Davíð hitt. Sama hvert inntakið er.
Um daginn buðu Besti flokkurinn og Samfylkingin Hönnu Birnu, oddvita sjálfstæðismanna í Reykjavík, embætti forseta borgarstjórnar.
Ég hef skoðað það mál með nokkrum mismunandi gleraugum.
Ein eru gleraugu Davíðs, sem sér djobbið sem fyllibyttuembætti. Kannski Bermúdaskálin spili þar inn í? Hann varar Hönnu Birnu við að taka að sér slíkt húsvarðarembætti.
Merkilegt reyndar að Hólmsteinninn hafi ekki séð ástæðu til að skrifa um þetta mál. Kannski hann viti betur.
Setji ég á mig gleraugu alþýðunnar, sé ég þarna boð stærsta flokksins að bjóða hinum minni að vera memm. Tækifæri á að hafa áhrif.
Setji ég á mig gleraugu pólitíkusans sé ég hreina snilld.
Eftir að Besti og Samfó hafa stofnað til meirihlutasamstarfs finnst sjöllum það kannski líta út eins og dúsa að þiggja þetta embætti og geta því ekki þáð það. Hins vegar hefur Hanna Birna ítrekað talað fyrir samstarfi allra flokka og í því ljósi getur hún ekki hafnað embættinu, liggi einhver meining bak við orð hennar. Því er hún milli steins og sleggju.
Mánudagur, 14. júní 2010
Vuvuzele lúðrasveitin
Margir hafa tuðað yfir lúðraþyt S-Afríkubúa á HM. Blásandi endalaust í einhverja lúðra sem hljóma sem býflugnager.
En ekkert vandamál er án lausnar.
Ég rakst á link á síðu þar sem ein hver þýðverji var búinn að greina vandamáið. Búinn að tíðnigreina lúðrana. Samkvæmt niðurstöðum hans hafa lúðrarnir grunntíðnina 235 rið ca. Málið þá að draga niður í þeirri tíðni ásamt heyranlegu yfirtíðnanna. 465, 930 og 1860 rið.
Á síðunni má heyra dæmi. Fyrir og eftir síun, sem lofa góðu.
Ég ákvað að sannreyna þetta. Tók klippu af lýsingu RÚV og sía hana á sama hátt. Reyndar nota ég ekki sama tól og Þýskarinn. Mér sýnist hann ná betri filteringu en mitt tól býður upp á. Þrengri bandbreidd (hærra Q). En hvað um það. Mínar tilraunir staðfesta að mínu mati að það sem þýðverjinn heldur fram, stendur.
Vitanlega hefur sían áhrif á rödd þess er lýsir, í dæminu sem ég birti, en ef tæknimenn RÚV sía hljóðið frá gervitunglinu áður en rödd lýsandans er sett inn mun enginn verða var við neitt, nema hvað lúðraþyturinn svo að segja hverfur.
Mínar niðurstöður.
Án síunar
Með síun
Svo getum við rætt hversu flott er að heita Alkarass, en það er önnur umræða
Íþróttir | Breytt 15.6.2010 kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)