Færsluflokkur: Dægurmál

Lausn í kjaradeilu flugfreyja?

Nú er kjaradeila flugfreyja og Icelandair í algjörum hnút og greinilegt að eitthvað stórkostlegt þarf til að koma svo hún leysist. 

Rétt í þessu bárust Bergmálstíðindum fregnir af að ríkissáttasemjari hafi boðað fulltrúa Icelandair og samninganefnd flugfreyja til fundar, síðar í dag. Ekkert hefur verið gefið út um fundinn en Bergmálstíðindi hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir að ríkissáttasemjari muni á fundinum leggja fram tímamótatillögur.

Munu helstu atriðin vera þau að flugfreyjum skuli frjálst að velja milli 38 og 40 den sokkabuxna, sem og að meira frelsi verði í litavali þegar kemur að varalitum og naglalökkum. Eins þurfi táneglur ekki að vera í sama lit og fingurneglur.


Bush and the brownie Brit

Eftirfarandi frétt fann blaðamaður Bergmálstíðinda í Herald Tribune. Teitur Margrétarson snaraði á íslensku.

„You Brits are the good brownie nose of europe to us“ sagði Bush, forseti bananalýðveldis norður Ameríku, við formlega móttökuathöfn á flugvellinum í Tampa í dag. George W. Bush og Gordon Brown, eða The brownie Brit, eins og hann er kallaður í heimalandinu, áttu saman fund á búgarði forsetans bananíska, í Forth Laderdale. Bush vatnaði músum er hann lýsti yfir söknuði sínum með fráhvarf Toni Blairs. „He was my dear puppy“ sagði Bush. Gordon Brown sagði við það tilefni að bretum stæði fyllilega fyrir aftan bak... að bretar stæðu fyllilega við bakið á bananamönnum.


mbl.is Bush og Brown segja samband landanna traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samferðamenn í 100 ár

Ingi Ingason, fv vitavörður, hélt upp á 100 ára afmæli sitt nýverið. Þar voru saman komnir afkomendur Inga, aðrir ættingjar hans, samferðarmenn og vinir.

Aðspurður segist Ingi vera þakklátastur fyrir samferðamenn sína, að öðrum ólöstuðum.

„Ég man alltaf vel eftir honum Sigurpáli, sem var samferða mér frá Húsavík til Akureyrar vorið 1941. Einnig er samferðamaður minn, hann Gunnar, á ferðalagi mínu frá Vík að Kirkjubæjarklaustri, minnisstæður“ segir Ingi með sæluglampa í augum. „Sumarnóttin í Skaftafelli er eftirminnileg. Ekki síst vegna Helgu, sem heimsótti okkur Gunnar í tjaldið“ bætir Ingi við.


mbl.is Haldið upp á aldarafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagaskóli Hreystursmeistarar 2008

Í kvöld lauk hinni árlegu hreysturskeppni grunnskólanna. Sigurvegarar í ár er lið Hagaskóla, Hreystursmenn.

Hörð barátta var um sigurinn og áttust þar við Hreystursmenn Hagaskóla, Síldarstofn Seljaskóla og Kolmunnafélag Korpuskóla.

Keppt var í fjórum greinum; línubeitningu, netagerð, flökun og löndun fram hjá vikt.

Hreystursmenn höfðu sigur í öllum greinum nema í löndun utan viktar, þar sem Slorfélag grunnskólans á Siglufirði hafði afgerandi sigur.

Rögnvaldur Þorvaldsson, liðsstjóri Hreystursfólks Hagaskóla var að vonum kátur í leikslok. „Þetta er eins og blautur draumur“ sagði Rögnvaldur, sem enn var í skýjunum „Blautur og slímugur, eins og nýflökuð ýsa“ sagði Rögnvaldur að lokum.


mbl.is Hagaskólanemar hraustastir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggþema, nú og næst

Nú hef ég sinnst starfi ritstjóra Bergmálstíðinda sl. viku. Mér hefur hugnast starfið vel. Í upphafi var ætlunin að bergmála einungis á grámyglulegan hátt atburði líðandi stundar, eins og fyrsta færslan ber með sér. Merkilegt nokk, þá fékk ég eitt komment á þá færslu og það meira að segja málefnalegt. Reyndar stóðst ég ekki mátið að blása smá lífi í bergmálið og birta nýjar hliðar málanna.

Nú hef ég ælt úr mér færslum tengdum hinum og þessum fréttum. Fyndið að þrátt fyrir að lítið (ekkert) hafi verið kommentað hjá mér þessa vikuna sé ég að flettingar hafa stóraukist. Talandi um vinsæl blogg. Magnið tekið yfir gæðin.

Ég hef nú þegar ákveðið þema næstu viku. Yfir helgina get ég andað og fjasað. Síðan hefst næsta törn. Næstu viku ætla ég að keppa við ofurbloggara eins og þann sem hlýtur að vera bróðir Stebba Fr. Stefánssonar, Herbert Fr. Stefánsson. Látum vera hvort sá bloggari er raunveruleg persóna eður ei. Téður Herbert bloggar um flestar fréttir sem birtast á mbl.is. Mín keppni mun felast í því að ég mun blogga um allar fréttir sem birtast munu á mbl.is.

Ekki auðvelt og ég mun kannski ekki alltaf segja mikið, en allar fréttir skuli það vera.

 

p.s. samfara bergmálsbloggi þessa vikuna hef ég haft í frammi alhliða tónlistarlegan hommaskap sem finna má nú í spilaranum.


Samtök hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum, stofnuð í kvöld

Bergmálað úr borunni #22

Nú í kvöld var haldinn stofnfundur Samtaka hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum.

Um 80 manns sóttu fundinn. Á fundinum voru m.a. rædd álög Ríkisnorna á vöru- og steypubílstjóra. Eins og mönnum er enn í fersku minni lögðu Álaganornir ríkisins ohf þau álög á vöru- og steypubílstjóra, sl. haust, að þeim skyldu „eigi koma dúr á auga“ eins og það var orðað í álagayfirlýsingu Ríkisnorna.

Samkvæmt nýlegri evróputilskipun mega nornir nú leggja álög á nýju og hálfu tungli, sem og á fullu tungli, en ekki eingöngu á fullu tungli eins og áður tíðkaðist.

Stofnfundur samtakanna ályktaði um áskorun til ríkisstjórnarinnar og Alþingis, þess efnis að sótt verði um undantekningu frá þessu nýja ákvæði evrópsku nornalaganna.

Mikil öryggisgæsla var á fundinum og var ma. leitað á öllum er gengu í salinn. Allir hálmstrákústar voru bannaðir með öllu, sem og keilulaga höfuðföt.


mbl.is Vel sóttur stofnfundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð reynsla af Grímseyjarferjunni

Bergmálað úr borunni #20

Í morgun voru opnuð, hjá Ríkiskauðum, tilboð í nýja Vestmannaeyjaferju. Tvö tilboð bárust. Frá Samskeytum hf og Vinnubúðum Vestmannaeyja. Tilboði Samskeyta var hins vegar vísað frá. Ekki hefur fengist uppgefið hver ástæða frávísunarinnar er, en heimildir Bergmálstíðinda herma að Samskeyti hafi verið alltof lágir og framkvæmdin þótt of praktísk og einföld.

Tilboð Samskeyta hljóðaði upp á splunkunýtt skip með öllum nýjustu og flottustu græjum og þægindum. Kostnaðurinn hljóðaði upp á fimm og hálfan milljarð.

Tilboð Vinnubúða Vestmannaeyja hljóðar upp á tólf milljarða. Þar er gert ráð fyrir að keypt verði 40 ára gamalt skip frá Úsbekistan, sem sett var í úreldingu þar ytra fyrir tveimur árum. Þá sé fyrirhugað að flytja það til Malaví og gera upp. Síðan verði því siglt hingað þar sem unnið verði við endurvinnu og breytingum á fyrri lagfæringu.

Bergmálstíðindi náðu tali af Bóasi Hallfreðssyni, talsmanni Vinnubúða Vestmannaeyja.

„Það er ekki nokkur spurning að okkar tilboð var mun betra“ segir Bóas. „Við erum að fá þetta fína Sovéska skip. Það að skipið er nú þegar í úreldingu gefur okkur færi á að fá það á mun betri kjörum en ella. Svo mun vinnan við það hér heima skapa fjölmörg störf. Við viljum byggja á góðri reynslu með Grímseyjarferjuna.“ segir Bóas að lokum.

Ekki náðist í forstjóra Ríkiskauða.


mbl.is Tilboð upp á tólf til sextán milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Greinileg vísbending

Bergmálað úr borunni #19

Eins og flestir hafa orðið varir við, hefur skæður flensufaraldur geysað hérlendis um nokkurra vikna skeið. Um er að ræða þrjá stofna inflúensu; influensus standardis sem er sú sem kemur á hverju ári, influensus stundumis kemur ekki árlega en af og til, að lokum er það hin skæða influensus terribilis. Sú síðastnefnda stakk sér niður hér um miðjan febrúar.

Landlæknir segir erfitt að segja til með nákvæmni um útbreiðslu og þróun flensufaraldra. Helst megi styðjast við fjölda sjúkrahúsainnlagna til að mæla þróunina og síðan á hvaða sjúkrahús innlagnir verða, til að sjá útbreiðsluna. Eins geri embættið út 'agenta' hér og þar í atvinnulífinu sem afli upplýsinga um fjölda veikindatilkynninga starfsfólks. Þó séu þær tölur ekki nægilega nákvæmar. Sérstaklega ekki á mánudögum.

„Þó er ein greinileg vísbending um að flensan sé nú í rénun“ segir landlæknir. „Hún Ragnheiður Ragnarsdóttir, húsfreyja á Ytri Brekku, verður eiginlega aldrei veik. Nú hinsvegar fékk hún flensuna, en er búin að ná sér. Það er greinilegt merki þegar Ranka gamla hefur náð sér.“ segir landlæknir að lokum.


mbl.is Flensufaraldur hefur náð hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúfenfundur um mistæk gatnamót

Bergmálað úr borunni #17

Fyrr í kvöld var haldinn íbúfenfundur um mistæk gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar.

Á fundinum töluðu þeir Gísli Marteinn Baldursson, Hilmar Sigurðsson og Baldvin Einarsson.

Þeir voru sammála um að íbúfenneysla og akstur um téð gatnamót ættu litla samleið. Hilmar áréttaði vilja íbúa hlíða, holta og norðurmýrar þess efnis að íbúfenneysla yrði bönnuð með öllu milli Lönguhlíðar og Háaleitisbrautar annarsvegar og Bústaðavegs og Háaleitisbrautar/Skipholts hinsvegar. Ennfremur áréttaði Gísli að borgin myndi leggjast alfarið á móti dreyfingu íbúfens við umrædd gatnamót. Baldvin, sem kemur að málinu sem fagaðili, segist telja árangursríkara að beina neyslunni í ríkari mæli í magnyl.

Um gatnamótin sjálf segir Gísli þau vera mistök frá A til Ö. „Það væri miklu frekar að grafa þar síki og notast við gondóla en að standa í þessu bílastappi alltaf hreint.“ sagði Gísli að lokum.


mbl.is Fjölmenni á íbúafundi um mislæg gatnamót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarrusl

Bergmálað úr borunni #16

Það gerðist í morgun að Landgelgisgæslunni barst tilkynning um að neyðarsendir gæfi frá sér merki á Snæfellsnesi. Þrátt fyrir að þekkja þá staðreynd að nesið sjálft, Snæfellsnes, tilheyrði landssvæði fremur en sjó var þó ákveðið að kalla út þyrlu og hefja leit. Enda gæti verið um að ræða sjómenn í neyð uppi á jökli. Eftir um tveggja tíma leit fannst sendirinn við ruslagám á Rifi.

Guðbrandur Greipsson, bóndi á Þúfu, rétt utan Rifs, segist hafa staðið að veðurrannsóknum undanfarið og sendirinn hafi verið hluti þess.

„Já ég er svona að dedúa við veðurrannsónkir. Það er mitt hobbý“ sagði Guðbrandur í samtali við blaðamann Bergmálstíðinda. „Ég fékk þennan sendi gefins úr aflóga gúmmíbát úr Herborgu GK 50“ bætir hann við. „Þetta er sendir af Sarbe tegund og ég hafði ekki græna glóru um að hann myndi drífa svona langt. Enda er hann Franskur, sjáðu“ segir Guðbrandur.

Guðbrandur hefur unnið að veðurathugunum á Rifi og hefur m.a. komið sér upp eigin veðurathugunarstöð.

„Mér þykir leitt að hafa staðið að öllu þessu veseni, en sendirinn hefur bara allt í einu farið að virka eftir að hafa ekki virkað hjá mér í tvo mánuði. Ég henti honum í ruslið fyrir um viku síðan“

Bergmálstíðindi vilja, í ljósi þessa, koma á framfæri við sauðsvartan almúgann að vera ekki að standa í einhverju sem hann hefur ekki hundsvit á. Hann kaupi bara lottó og horfi á Bandið hans Bubba.


mbl.is Neyðarsendir á ruslahaugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband