Færsluflokkur: Íþróttir

Lýsing

Nei, ég er ekki að fara að skrifa um mafíósa með opinbert starfsleyfi. Fannst bara skondið að hafa fyrirsögnina í eintölu. Ætla að fjalla um íþróttalýsingar.

Mér hefur alltaf fundist það broslegt þegar íþróttaleikjum er sjónvarpað, að í sjónvarpssalnum sitji menn, ýmist einn eða tveir og lýsi því sem fyrir augu ber. Þess lags lýsingar eiga fullan rétt á sér í útvarpi, hvar hlustendur sjá ekki leikinn. Hins vegar finnst mér það frekar asnalegt þegar kemur að sjónvarpi. Nema tilgangurinn sé að gera blindum kleift að fylgjast með, sem er virðingarvert ef rétt reynist. Hins vegar efast ég um að tilgangurinn sé sá.

Ég sit og horfi á fótboltaleik. Ég sé þegar einhver tekur skot á mark. Skorar eða skýtur framhjá. Ég sé líka vel þegar einhver tæklar annann. Mér gengur bara bærilega að fylgjast með. Samt eru einhverjir njólar að segja mér hvað ég sé. Kannski ég og aðrir áhorfendur séum svo mikil fífl að þekkja ekki mun á tæklingu og skoti á mark, eða muninn á innkasti og markspyrnu. Það hlýtur bara að vera svo.

Jú, þeir hafa nöfn leikmanna á hreinu. Hafa yfir þá lista. Ég held að þeir áhorfendur sem lifa og hrærast í fótboltaheiminum viti það líka, svo nafngreiningar lýsendanna skipta varla máli fyrir þá. Er þá málið að geta nafngreint leikmennina fyrir okkur hin, sem hvorki lifum né hrærumst í fótboltaheiminum? Kannski.

Á móti, er okkur sem eigum líf utan íþróttaheimsins en höfum þó gaman að horfa á kappleiki annað slagið, nokk sama hvað leikmennirnir heita. Sjái ég leikmann tækla annan, eða skora mark, er mér nákvæmlega sama hvað hann heitir. Nafn hans hvorki breytir tæklingunni né markinu.

Það er ekki eins og það sé; „Glæsilegt mark! Ha, heitir hann Guðmundur? Þetta var rangstaða!“ eða „Þetta var ekki gróf tækling. Hann fór klárlega í boltann, en ekki manninn. Ha, heitir hann Pétur? Rautt spjald á kvikindið!“

Því sé ég ekki nokkurn tilgang í að hafa einhverja lýsendur, sem segja mér hvað ég sé.

Réttara væri að útvarpa lýsingunni en leyfa fólki að horfa á ómengaða sjónvarpsútsendingu. Lausa við mis djúpa speki lýsendanna. Þeir sem vita ekki hvað þeir sjá geti þá bara haft útvarpslýsinguna í eyrunum meðan þeir horfa.

 


Vuvuzele lúðrasveitin

Margir hafa tuðað yfir lúðraþyt S-Afríkubúa á HM. Blásandi endalaust í einhverja lúðra sem hljóma sem býflugnager.

En ekkert vandamál er án lausnar.

Ég rakst á link á síðu þar sem ein hver þýðverji var búinn að greina vandamáið. Búinn að tíðnigreina lúðrana. Samkvæmt niðurstöðum hans hafa lúðrarnir grunntíðnina 235 rið ca. Málið þá að draga niður í þeirri tíðni ásamt heyranlegu yfirtíðnanna. 465, 930 og 1860 rið.

 Á síðunni má heyra dæmi. Fyrir og eftir síun, sem lofa góðu.

Ég ákvað að sannreyna þetta. Tók klippu af lýsingu RÚV og sía hana á sama hátt. Reyndar nota ég ekki sama tól og Þýskarinn. Mér sýnist hann ná betri filteringu en mitt tól býður upp á. Þrengri bandbreidd (hærra Q). En hvað um það. Mínar tilraunir staðfesta að mínu mati að það sem þýðverjinn heldur fram, stendur.

Vitanlega hefur sían áhrif á rödd þess er lýsir, í dæminu sem ég birti, en ef tæknimenn RÚV sía hljóðið frá gervitunglinu áður en rödd lýsandans er sett inn mun enginn verða var við neitt, nema hvað lúðraþyturinn svo að segja hverfur.


Mínar niðurstöður.

Án síunar



Með síun



Svo getum við rætt hversu flott er að heita Alkarass, en það er önnur umræða


Flippness

Hugguleg svo sem, ég held og vona.
Enda húðin brúnni en mold,
en svo ferlega skorin fittnesskona
fengi tæpast reist mitt hold.
mbl.is Rannveig og Gauti Íslandsmeistarar í fitness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotið í slána

Nokkuð hefur borið á því, í leikjum íslenska handknattleikslandsliðsins, að þeir hafi skotið í slána.

Ekki er bara að slíkt komi niður á markatölum liðsins, heldur hafa evrópusamtök slána mótmælt framferðinu harðlega með eftirfarandi yfirlýsingu:

Sultan Kosen„Evrópusamtök slána mótmæla hér með þeirri meðferð sem austurrískir slánar hafa mátt sæta af hálfu íslendinga á evrópumótinu í handknattleik. Farið er fram á að þessari niðurlægjandi meðferð verði hætt nú þegar. Slánar hljóti að eiga jafnan rétt og aðrir til að horfa á handbolta.

 
Virðingarfyllst“

 


Aftur á stórmót

Vitanlega er það súrt að stelpurnar okkar hafi ekki náð upp úr riðlinum. Þó hafa þær náð stærri áfanga en hinir yfirborguðu atvinnumenn karlalandsliðsins sem hafa ekki náð stærri áfanga en jafntefli á heimavelli gegn þáverandi heimsmeisturum, fyrir áratug eða svo.

Stelpurnar eru á heimsmælikvarða. Hafa staðið sig vel. Bæði gegn ellefu manna liði norsara sem og tólf manna liði frakka, um daginn. Hvar hinn rússneski liðsmaður frakka fór á kostum.

Hvað segja annars stelpurnar um málið?

Margrét Lára, framherji íslenska kvennalandsliðsins var heldur súr í bragði er blaðamaður hitti hana á Hiitolippiona hótelinu í Laathi eftir leikinn.

„Þetta var algert fargan, en þó gaman. Reynsla í sarpinn. Við stefnum bara á næsta stórmót. HM eftir tvö ár. Mætum reynslunni ríkari.“

Svona til jafnvægis hafði blaðamaður samband við liðsmann A-landsliðs karla og spurði hann hver plönin væru þar á bæ. „Við stefnum klárlega á EM 2068.“


mbl.is EM: Við ætlum aftur á stórmót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Get ekki sagt að ég sé góður“

Í framhaldi af nýlegri frétt af James Bond - heilkenninu svokallaða, leituðu Bergmálstíðindi álits þeirra Eiðs Smára Guðjohnsen og Jóns Arnórs Stefánssonar á málinu og hvort þeir könnuðust við það.

Jón sagðist lítið hafa kynnt sér málið. Ónefndur vinur hans tjáði þó Bergmálstíðindum að Jón væri drengur góður og dagfarsprúður.

Eiður sagðist aðeins kannast við málið, en svaraði svo með semingi, „Get ekki sagt að ég sé góður.“


mbl.is „Get ekki sagt að ég sé góður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dónagolf

Hmmm, var ekki einhver klámstjarna sem kallaði sig Rocco? Finnst allavega skondið að lesa fyrirsagnirnar af þessari golfkeppni. Svo gæti nafnið Tiger örugglega virkað í klámbransanum. Rocco hlakkar til að takast á við Tiger.


mbl.is Tiger og Rocco í 18 holu umspil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Knattspyrnuleg alsæla

Svei mér þá. Ef þetta Hollenska lið vinnur ekki þessa keppni skal ég hundur heita.

Það er bara eitt orð til yfir frammistöðu Hollendinga. Snilld. Unun á að horfa. Bóbó, niðursetningur, er mér hjartanlega sammála. Þegar ég spurði hann, hverjir ynnu setti hann sig í þessa stellingu.

Bóbó Niðurlönd

 

 

 

 

 

 

Hann snéri sér á hvolf, ergó Niðurlönd. Semsagt Holland. Bóbó veit sínu viti.


Knattspyrnuleg fryggð

Ég hef verið að fylgjast með leik Frakka og Hollendinga. Með árunum hefur fótboltaáhugi minn dvínað og helst ég nenni að kíkja á leiki á stórmótum, ss. HM og EM. Best takist mér að halda með öðru hvoru liðinu. Annars nenni ég ekki að horfa á menn tuðrast í einn og hálfan tíma. Nenni td. ekki að fylgjast með ensku firmakeppninni á veturna.

En aftur að leik Frakka og Hollendinga. Ég hef nú ekki séð alla leiki á EM, en af þeim sem ég hef séð finnst mér þessi skemmtilegastur. Þó er hann bara hálfnaður. Mér finnst verst að Hollendingar virðast haldnir þessum sömu hvötum og algengar eru meðal liða, að draga sig til baka komist þeir yfir. Að horfa á spil Hollendinga veitir knattspyrnulega fryggð. Alveg frábært samspil. Frakkarnir hafa sýnt ágæta takta en ekki eins sexy bolti samt.

Bóbó, niðursetningur, sýnir þessu ekki sama áhuga. Bíbmundur, eins og ég ávarpa hann gjarnan í bland við hans rétta nafn. Hann hefur meira einbeitt sér að naga hitt og þetta í búrinu sínu. Þó lætur hann í sér heyra þegar ég stend upp og hverf úr augsýn. Þá kalla ég til hans og læt hann vita af mér. Ég hafi ekki yfirgefið pleisið.

Svo er spurningin hvernig síðari hálfleikur fer. Hvort Bóbó nái að naga meira en íþróttafréttamennirnir. Þar liggur spennan.


Málning þornar

Nú er Ríkisútvarpið Sjónvarp ohf að sýna frá viðureign Kanadamanna og Rússa í íshokký. Ég verð að segja að leiðinlegri íþrótt hef ég ekki séð. Það er engin leið að fylgjast með hvað er að gerast eða hver er með pökkinn.

Þá vil ég heldur fylgjast með málningu þorna.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband