Lýsing

Nei, ég er ekki að fara að skrifa um mafíósa með opinbert starfsleyfi. Fannst bara skondið að hafa fyrirsögnina í eintölu. Ætla að fjalla um íþróttalýsingar.

Mér hefur alltaf fundist það broslegt þegar íþróttaleikjum er sjónvarpað, að í sjónvarpssalnum sitji menn, ýmist einn eða tveir og lýsi því sem fyrir augu ber. Þess lags lýsingar eiga fullan rétt á sér í útvarpi, hvar hlustendur sjá ekki leikinn. Hins vegar finnst mér það frekar asnalegt þegar kemur að sjónvarpi. Nema tilgangurinn sé að gera blindum kleift að fylgjast með, sem er virðingarvert ef rétt reynist. Hins vegar efast ég um að tilgangurinn sé sá.

Ég sit og horfi á fótboltaleik. Ég sé þegar einhver tekur skot á mark. Skorar eða skýtur framhjá. Ég sé líka vel þegar einhver tæklar annann. Mér gengur bara bærilega að fylgjast með. Samt eru einhverjir njólar að segja mér hvað ég sé. Kannski ég og aðrir áhorfendur séum svo mikil fífl að þekkja ekki mun á tæklingu og skoti á mark, eða muninn á innkasti og markspyrnu. Það hlýtur bara að vera svo.

Jú, þeir hafa nöfn leikmanna á hreinu. Hafa yfir þá lista. Ég held að þeir áhorfendur sem lifa og hrærast í fótboltaheiminum viti það líka, svo nafngreiningar lýsendanna skipta varla máli fyrir þá. Er þá málið að geta nafngreint leikmennina fyrir okkur hin, sem hvorki lifum né hrærumst í fótboltaheiminum? Kannski.

Á móti, er okkur sem eigum líf utan íþróttaheimsins en höfum þó gaman að horfa á kappleiki annað slagið, nokk sama hvað leikmennirnir heita. Sjái ég leikmann tækla annan, eða skora mark, er mér nákvæmlega sama hvað hann heitir. Nafn hans hvorki breytir tæklingunni né markinu.

Það er ekki eins og það sé; „Glæsilegt mark! Ha, heitir hann Guðmundur? Þetta var rangstaða!“ eða „Þetta var ekki gróf tækling. Hann fór klárlega í boltann, en ekki manninn. Ha, heitir hann Pétur? Rautt spjald á kvikindið!“

Því sé ég ekki nokkurn tilgang í að hafa einhverja lýsendur, sem segja mér hvað ég sé.

Réttara væri að útvarpa lýsingunni en leyfa fólki að horfa á ómengaða sjónvarpsútsendingu. Lausa við mis djúpa speki lýsendanna. Þeir sem vita ekki hvað þeir sjá geti þá bara haft útvarpslýsinguna í eyrunum meðan þeir horfa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband