Jólaþras 2009

Í sjö ár hefur mágur minn ritstýrt árlegu Jólaþrasi. Jólaþrasið er sent vinum og vandamönnum, þeim að kostnaðarlausu, í aðdraganda jóla ár hvert. Í gær beið mín í póstkassanum sjöunda tölublað/árgangur Jólaþrasins.

Jólaþrasið er einnar síðu fréttabréf (toppar Alþýðublaðið gamla í mínímalisma) þar sem tíunduð eru, í máli og myndum, afrek og aðstæður heimilisfólks á þeim bænum ásamt jólakveðjum. 

Í ár gerðust þau stórmerki að heimiliskettirnir tveir, þær Asía og Dísa, blönduðu sér í málið og báðu kærlega að mjálma. Megi þær eiga gott mal um jólin, enda hefðarlæður hinar mestu, báðar tvær.

Fyrir mér, sem hættur er að halda jól, er Jólaþrasið ásamt hádegissúpupartýi systur minnar, það sem gerir þennan tíma ársins hátíðlegan.

 

En. Ég ætla að hafa í frammmi mitt eigið jólaþras. Réttara sagt jólafjas. Enda hef ég tröllatrú á heilsusamlegu fjasi.

 

Banki einn býður til sölu svokölluð gjafakort. Þetta eru, samkvæmt upplýsingum bankans, kort sem virka nákvæmlega eins og venjuleg greiðslukort. Með tveimur undantekningum.

Hvorki er hægt að taka út fé í hraðbanka, né í banka. Hins vegar má nota þau til kaupa á vöru og þjónustu, rétt eins og með öðrum greiðslukortum. Eða eins og segir í skilmálunum; „Kortið veitir rétt til úttektar á vöru og þjónustu hvar sem er í heiminum hjá þeim sölu- og þjónustuaðilum sem taka við greiðslukortum frá VISA Einnig má nota það á vefnum.“

Ég fór í eitt útibúa bankans og spurði hvort ég gæti keypt slíkt gjafakort og greitt með öðru gjafakorti. Þar sem með slíku er ég að kaupa vöru, en ekki að taka út pening, ætti ég að geta það samkvæmt útgefnum upplýsingum bankans.

Svarið var nei.

„Hvers vegna ekki?“ Spurði ég. 
„Vegna þess að ég þarf að taka út pening.“ Svaraði gjaldkerinn.
„Já, en ég er ekki að taka út pening heldur einfaldlega að kaupa vöru.“ Sagði ég.

Sem sagt. Gjaldkerinn þarf að framkvæma aðgerð, sem fyrir honum er peningaúttekt og því er ekki hægt að nota kortið. Hins vegar, fyrir viðskiptavininum (mér) er ekki um neina peningaúttekt að ræða þar eð ég fæ enga peninga afhenta. Fyrir viðskiptavininum er einfaldlega um vörukaup að ræða.

Því er mér spurn hvort bankanum sé stætt á að auglýsa eins og hann gerir? Hvað bankinn segir að hægt er, eða ekki, að gera við kortið hlýtur að þurfa að orðast út frá sjónarhóli þess sem á kortið og notar. Ekki út frá því hvaða aðgerðir gjaldkerinn þarf að framkvæma eða ekki.

 

Annars óska ég ykkur öllum gæfu og gengis, hvort heldur þið eruð á fullu í jólaruglinu eður ei.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló

Ég kýs þá að segja, gleðilega sól... smám saman.

Var þetta dæmisaga eða áttirðu gjafakort?
Eru gjafakortin á nafni?

Ég vil alltaf helst skilja góðar sögur, sérstaklega rökþras.

Eygló, 23.12.2009 kl. 23:23

2 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sagan er raunveruleg. gjafakortin eru ekki gefin út á nafn. sá sem fær gjafakort til notkunar skrifar nafn sitt aftan á það.

Brjánn Guðjónsson, 24.12.2009 kl. 16:49

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sjaldan er jólafjas til fagnaðar, eins og máltækið segir.

Gleðileg jól!

Þorsteinn Briem, 24.12.2009 kl. 21:11

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

gleðileg jólin steini, jú jól eru til fjass og framdráttar

Brjánn Guðjónsson, 25.12.2009 kl. 06:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband