Þetta er nú öll skjaldborgin

Þegar menn reisa múra, til að halda öðrum úti, múra þeir sjálfa sig um leið inni.

Nú hefur ríkisstjórnin hafið byggingu hinnar margumtöluðu og margeftirlýstu skjaldborgar. Nú sér fólk loksins hvers eðlis sú skjaldborg er.

Múr umhverfis þjóðina.

Múr sem lokar úti; áhyggjuleysi, lífsgæði og velsæld. Múr sem lokar landsmenn inni, í fangelsi hækkandi skulda og hækkandi vöruverðs. Kaupmátturinn rýrður tvöfalt. Frá báðum áttum.

 

Vissulega er það rétt, að þegar að kreppir, fjárhagslega, þarf fólk að gera a.m.k. annað af tvennu. Draga úr útgjöldum og auka tekjur. Reyndar er yfirleitt auðveldara að draga úr útgjöldunum en auka tekjurnar, því tekjuaukningin felst í að búa eitthvað nýtt til. Hér er engin raunveruleg tekjuaukning á ferðinni. Reyndar fær ríkið fleiri krónur í ríkiskassann, en íslenska þjóðin er ekki að auka tekjur sínar því þessar tekjur eru jafnframt útgjöld fólksins sem myndar þjóðina sem á ríkið.

Fjármunir eru færðir úr hægri vasanum í þann vinstri (græna).

Standi ég frammi fyrir að þurfa að gera skurk í fjármálum mínum, byrja ég á að líta á útgjaldahliðina. Skoða hvort og hvar ég geti skorið niður. Ég byrja ekki á að seilast í vasa barnanna minna og skikka þau til að borga (meira) til heimilisins.

Þessi aðgerð er svolítið þannig, að mér finnst. Hví var ekki byrjað á niðurskurði?

T.d. á 600 milljóna króna sendiráðinu í Japan. Einhver hundruð milljóna mætti spara til viðbótar með fækkun (sameiningu) annarra sendiráða.

Þessi hækkun álaga er tíkallabissness. Hverju mun 10% hækkun vörugjalda á bifreiðar skila þegar bílasala er við alkul?

 

Ég var fyrr í dag að ræða við mann um lífsins gagn og nauðsynjar. Hann sagði eitthvað á þessa leið; Fyrst við höfum þessa ríkisstjórn, er ég hræddur um að aðgerðir verði ekki nógu markvissar. Ég svaraði; Þú meinar að þetta verði bara tíkallabissness?

Svei mér þá. Dagurinn ekki liðinn og maðurinn kominn á stall með Nortradamusi í mínum huga.

 

Í viðtengdu fréttinni segir; „Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessu eru áætlaðar samtals 4,4 milljarðar króna á ársgrundvelli, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum.“

Skilji ég málið rétt eru brúttótekjurnar 4,4 milljarðar, en nettótekjurnar ekki nema 2,7 milljarðar. Væntanlega vegna einhvers kostnaðar sem þeim fylgir, í formi aukinna endurgreiðsna úr ríkissjóði.

Það þarf ekki mörg sendiráð til að ná þessarri upphæð. Sér í lagi ef útgjöld til varnarmála eru tekin með, ásamt mörgum öðrum óþarfa útgjöldum.

Síðast en ekki síst munu hækkanirnar hækka vísitölu neysluverðs um 0,5%. Sem munu auka skuldir heimilanna að sama skapi.

Þetta er nú öll skjaldborgin.

 

Minnir mig á það, að trommusettið í skúrnum myndi sóma sér vel á Austurvelli.


mbl.is Mælt fyrir hækkun gjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími ákvarðana er kominn

Sagði Jóhanna af Örk eitt sinn.

Hún fundaði stíft með ráðgjöfum sínum síðdegis. Á fundinum voru, auk hennar;

Lord Joð.
Baron Gylfi der Barber.
Þór von Atwinnung.

Herráðið sem nú plottar um hvar skuli ráðast fram og hvernig skuli varist.


mbl.is Kominn tími ákvarðana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin endanlega lausn á kreppunni!

Jóhanna okkar forsætis segir róttækar aðgerðir þurfa til að ná íslensku samfélagi úr því harðlífi sem það býr nú við.

Eins og allir vita hafa vinstri menn oft verið kallaðir róttækir. Því ætti ekki að vera stórmál fyrir hana að koma róttækum aðgerðum í gegn. Svo ég tali ekki um Joð, sem er róttækari en hvaða rótarýklúbbur.

Jóhanna segist þó standa frammi fyrir erfiðustu ákvörðum ferils síns. Þá erum við að tala um tímabil sem nær allt aftur að Bee Gees, Boney M og Grease.

Vandi Jóhönnu liggur ekki í því að framkvæma, heldur að komast að hvað skuli framkvæma.

 

Þar kem ég með lausnina. Hina endanlegu lausn.

 

Í dag búa landsmenn við gjaldeyrishöft. Það er engin nýlunda. Íslendingar bjuggu við gjaldeyrishöft áratugum saman, allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Við ættum ekki að láta eins og þau séu endir alls. Íslendingar höfðu það ekki svo slæmt alla þessa áratugi þrátt fyrir þau.

Reyndar eru Kolkrabbinn og SÍS dáin drottni sínum, en en maður kemur í manns stað.

 

Lausnin er þessi:

1) Tökum aftur bankastjóra í guðatölu. Látum engan komast upp með óráðsíu og óþarfa lántökur nema þurfa að klæðast upp og lúta í gras. Kyssa skósóla bankastjórans.

2) Endurvekjum Sovétríkin og komum Bjössa aftur í blaðamannastarf á Mogganum. Íslendingar stórgræddu á kalda stríðinu. Göngum til samninga við þjóðverja um endurreisn Berlínarmúrsins.

3) Bönnum áfengisdrykkju á miðvikudögum, sem og sjónvarp á fimmtudögum og í júlí. Þórskaffi skuli jafnframt endurreist.

4) Síðast, en ekki síst. Hvað sem hver segir, móta auglýsingar tíðarandann ekki síður en þær endurspegla hann. Bönnum nýmóðins auglýsingar. Sér í lagi tölvugerðar. Tökum aftur upp svart/hvítar, illa leiknar auglýsingar.

Íslendingar er enn rosalega 2007 í hugsun. Við þurfum að gera íslendinga meira 1967-1977 í hugsun. Innleiðum að nýju auglýsingar með lélegum hljóð og myndgæðum. Það er meira 2009.

Hér eru nokkrar tillögur:

 

 

 

 


mbl.is Róttækar og erfiðar ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullvaxta komment um vaxtaruglið

Póstaði þessu sem athugasemd en ákvað síðan að henda þessu inn hér, með lagfæringum og viðbótum. Skondið að í morgun, hlustandi á útvarpsþátt, varð mér hugsað um einmitt þessi mál. Vaxtaruglið.


Í siðmenntuðum löndum skrúfa menn vexti niður úr öllu til að hvetja til aukinnar neyslu og efla þar með markaðinn og atvinnulífið.

Hér halda menn háu vaxtastigi til að koma í veg fyrir útstreymi fjármagns frá landinu. Verja gengi krónunnar.

En halló! Hér eru gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir það útsreymi. Það þarf varla vaxtaþumalskrúfuna líka?

Í hinu verðtryggða umhverfi hafa háir vextir hinsvegar áhrif þrefalds kyrkingataks á bæði heimili og fyrirtæki.

Beinu áhrif vaxtanna á lán þrengja að heimilum og fyrirtækjum, í formi aukinnar greiðslubyrðar lána og þar með minni kaupmáttar. Eins valda þeir hærra vöruverði, því vitanlega velta fyrirtækin auknum fjármagnskostnaði beint út í verðlagið, sem hækkar vöruverð. Því er það tvennt sem minnkar kaupmáttinn beint, rétt eins og annars staðar.

Óbeinu áhrifin er þau, að fyrir tilstillitilstilli verðtryggingarinnar leiðir hækkandi verðlag, sem afleiðing aukins fjármagnskostnaðar, til hækkunar verðbólgu, sem aftur hækkar lánin, sem aftur hafa áhrif á verðlagið, sem aftur hefur áhrif á verðbólguna, sem aftur hefur áhrif á lánin, sem aftur hefa áhrif á verðlagið, sem aftur...

Tóm tjara!

Í rafeindafræðunum kallast þetta „positive feedback.“ Það er ástand sem eflir sjálft sig út í hið óendanlega og endar ekki vel. Endar með að rásin fer í mettun og verður óstarfhæf. Í rafeindarásum, svo sem magnararásum, þarf „negative feedback“ þar sem hluti útgangsmerkis er settur aftur inn á inngang, í mótfasa (upphefur inngangsmerkið að hluta). Þetta er gert til að halda rásinni í jafnvægi. Rafeindafræðin eru ekki flókin. Þau byggja á lögmálum eðlisfræðinnar. Þótt hagfræðin séu kannski meira fuzzy logic, hljóta samt að gilda þar reglur um jafnvægi.

Eina ástæðan fyrir að verðbólgan er ekki meiri en hún er nú, er að fólk hefur varla efni á öðru en að borga lánin og kannski að kaupa sér smá kjötfars, on the side. Því laun hafa lækkað. Ekki bara að raunvirði, heldur að nafnvirði. Væri ekki svo ríkti hér óðaverðbólga. Fólk hefur einfaldlega ekki efni á neyslu. Svo ég líki aftur við rafeindafræðin. Styrkur inngangsmerkisins fer sífellt dvínandi og því nær rásin ekki mettun.

Hér stefnir allt í stöðnun. Stöðnun sem kallast verðhjöðnum.

Erlendis lækka menn vexti niður úr öllu einmitt til að koma í veg fyrir hana því heilbrigð hagkerfi þarfnast rennsli fjármagns og einhverrar, en þó lágrar, verðbólgu.

Það þarf engin doktorspróf til að sjá þetta.

Ísland er á leið í mettun og þegar það gerist þarf að endurræsa.

Kannski væri réttast að skikka spekingana í grunnkúrsa í rafeindafræðum.


„Þetta er rangur misskilningur“

Sagði svíinn í kvikmyndinni „Stella í orlofi.“

Ég geri orð hans að mínum.

Vitanlega er með þennan titil eins og staðbundna bandaríska heimsmeistaratitla.

Ég gæti alveg haldið heimsmeistaramót í Minesweeper, heima hjá mér. Tekið einn þátt og lýst mig heimsmeistara. Efast þó um að það gerði mig að raunverulegum heimsmeistara. Eins er með fegurðarsamkeppnir eins og þessa.

Víst er hún snotur, snótin sem vann. Þó veit ég um aðra sem ber af öllum öðrum. Bæði í innri og ytri fegurð. Kærleika og klárleika.

Já og hún situr hér rétt hjá mér, þessi elska.

Auðvitað er ég að tala um dóttur mína. Efaðist nokkur um það?


mbl.is Guðrún Dögg valin Ungfrú Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunir

Ég sem hélt að Samtök hagsmunaaðila að eiginhagsmunum væru komin út í kuldann, eftir kosningarnar.

Svo virðist þó ekki vera. Nýi forsætisráðherrann virðist ætla að standa vörð um sérhagsmuni hinna fáu.

Eða hvað heyrist ykkur?


Stefnuræðuna, í heild, má heyra hér.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090518T195247


Sjávarútvegsráðherrann

Já, þessi sem hefur bloggað á blog.is um langt skeið og leyfir ekki athugasemdir. Vill heldur gaspra úr sínum fílebeinsturni, án athugasemda.

Í fréttum Ríkisútvarpsins var hann spurður um viðbrögð við grein Joe Borg, fiskveiðimálastjóra ESB, í Fréttablaðinu. Joe Borg talar þar um að Íslendingar gætu spilað lykilhlutverk í endurskipulagningu fiskveiðistjórnunarmála sambandsins.

Í stað þess að taka málinu fagnandi og koma auga á tækifæri fyrir Ísland, ákvað hann að skella sér í þröngsýna Heimssýnargírinn og blammera.

Í stað þess að taka erindinu fagnandi valdi hann þann kost að kasta þröngsýnisslettu á málið. Íslendingar eigi sko ekkert erindi í svona lagað.

Ég tel að hann hafi bara verið hræddur um að aðalmál þröngsýnissinna, fiskveiðistjórnunarmálið, gæti þarna runnið þeim úr greipum. Því hafi hann ákveðið að vera á móti, til að vera á móti. Því takmark forpokaðra er jú að vera forpokaðir. Sama hvað.


Stórhausar bloggsins

Hef stundum velt því fyrir mér, hvað þurfi til að verða stórhaus á blogginu.

Mitt mat er þetta:
Að vera pólitíkus garanterar stórhausinn
Að vera frægur garanterar stórhausinn.
Að vera „málsmetandi maður“ hjálpar.
Að vera langtíma maraþon bloggari hjálpar líklega.
Að vera sæmilegur maraþonbloggari og undirlægja stjórnmálaflokks virkar vel.
Að heita Vilhjálmur og búa í Köben virkar vel.
Að vera í réttum flokki virkar vel.

Ég hef reynt þetta:
Að blogga bara eitthvað af viti, en hefur ekkert að segja.
Að blogga bara tóma steypu, en hefur ekkert að segja.
Að blogga nógu oft, en hefur ekkert að segja.
Að blogga nógu krassandi, en hefur ekkert að segja.
Að blogga siðprútt, en hefur ekkert að segja.
Að blogga alls ekki neitt, en hefur ekkert að segja.

Líklegar skýringar:
Ég er ekki pólitíkus.
Ég er ekki frægur.
Ég er líklega ekki  „málsmetandi maður.“
Ég hef prófað að gerast maraþonbloggari. Það dugði ekki.
Ég heiti ekki Vilhjálmur.
Ég er óflokksbundinn.

Ég á bara eftir að prófa að heita Vilhjálmur og/eða að skrá mig í réttan flokk. 

Gaman væri að vita hvað ræður.


Herpingur Kópahrepps

OddvitiMikið er nú rætt um mál oddvita Kópahrepps. Bæði úti í þjóðfélaginu sem og meðal innmúraðra. Innmúrarafundur var haldinn um málið í dag og þurftu jafnvel margir innmúraðra að slaufa frímúrarafundi vegna þess. Telja margir að um allsherjar pólitískan herping sé að ræða.

Mál manna er að oddvitinn hafi dælt fúlgum fjár í fyrirtæki dóttur sinnar, Sjálfsmiðlunar, úr hreppssjóðnum, án tilefnis.

En er það allskostar rétt?

Fyrir liggur að umrætt fyrirtæki dótturinnar hafi fengið u.þ.b. fimmtíu milljónir hruninna króna á tíu ára tímabili. Það gera u.þ.b. fimm milljónir verðlausra Matadorpeninga á ári, að jafnaði. Upphæðirnar eru sagðar hafa verið greiddar fyrir ýmis verk sem farið var í án útboða. Jafnvel fyrir einkafyrirtækið Klæðskiptinga, sem er í eigu oddvitans sjálfs.

Þegar oddvitinn var spurður út í málið sagði hann þetta misskilning. Hann hafi talið að ekki þyrfti útboð, heldur einungis framboð. Hann hafi margoft farið í framboð og hefði því talið sig í rétti að ganga frá samningum.

Hverjir eru svo hinir umdeildu samningar?

Árið 2007 var samið um að ljósrita bækling í þremur eintökum. Kostnaður 380.403 þorskígildi.

Árið 2003 var samið um að semja samning um samkomulag samningsaðila. Kostnaður við túlkun orðalags var 12.456.107 ríkisdalir.

Árið 2000 var samið um skipulagningu útboða sem aldrei áttu að fara fram. Kostnaður, 31.627.001 spesíur.

Samanlagt gera þetta u.þ.b. 50.103.400 verðlitlar krónur miðað við gengisskrá Bjargræðasjóðs klukkan 15:41, að staðartíma, dagsins 20.05.2009.

Af ljósritunum þremur er skila átti árið 2007 bárust einungis tvö. Skýringuna segir oddvitinn vera þá að tónerinn hafi klárast hjá þeim hjá Sjálfsmiðlun og ekkert hægt að gera, enda hafi það gerst á laugardagskvöldi.

Varðandi verkefni frá árinu 2003 vill oddvitinn taka fram að ekkert samkomulag hafi náðst meðal samstarfsaðila um samningsdrögin og því einsýnt að samkomulag um samningsgerð við Sjálfsmiðlun yrði samkvæmt samkomulagi.

Hvað varðar útboðin frá 2000 segir oddvitinn að þar hafi allt farið fram samkvæmt áætlun. Aldrei hafi staðið til að bjóða út eitt eða neitt og leggur hann áherslu á að einmitt þannig hafi náðst gífurleg hagræðing varðandi útboðið. Gerð útboðsgagna hafi þó, lögum samkvæmt, verið skilyrði.

Sjálfhildur

Sjálfhildur Oddvitadóttir, framkvæmdastjóri Sjálfsmiðlunar, vildi ekki veita Bergmálstíðindum viðtal vegna málsins.


Smáuglýsingar - Einkamál

Karlmaður um þrítugt óskar eftir kynnum við konu á svipuðum aldri. Hefur gaman að ferðalögum og útivist. Er barnlaus. Munnmök engin fyrirstaða. Áhugasamar sendi bréf til afgreiðslu Bergmálstíðinda, merkt „Blástur-2009“
mbl.is Munnmök engin fyrirstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband