Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 5. júlí 2008
Pallaball
Nú er vinur minn mættur á svæðið. Ætlum að skella okkur á Pallaball á eftir. Páll Óskar DJ á Nasa. Maðurinn sá kann sko að smíða stuð og stemmningu.
Auðvitað tilheyrir að koma sér í gírinn og spila kallinn á youtube. Finnst við hæfi að skella inn link á besta júróvisjón performans ever.
Gangið hægt um gleðinnar dyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 4. júlí 2008
Góð vika
Nú er góð vika á enda. Búinn að dytta að gamla skrjóðnum mínum, sem hefur þjónað mér vel og dyggilega í næstum fjögur ár og mikið verið keyrður.
Allt í lukkunnar velstandi hjá elsku vinkonu minni og fyrrum kærustu. Hún að deita gæja og með fiðring og alles. Ég samgleðst henni svo innilega og óska henni einskis nema óendanlegrar hamingju. Vona þetta sé góður strákur sem á hana skilið.
Átti góðan dag í vinnunni í dag. Lagðist yfir smá betrumbætur á kóða í kerfinu okkar og náði að stytta vinnslutíma ákveðins verks úr 15 mínútum í tæpa sekúndu. Ekki slæmt
Eigið góða helgi, hvort sem þið ætlið að hírast í tjöldum eða bara ylja hvoru öðru undir sæng.
Bóbó biður að heilsa.
bæ ðe vei, hvað er þetta mál með Ramses?
Bloggar | Breytt 5.7.2008 kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 1. júlí 2008
Hugleiðing um ástina
Tilfinningarnar sem ég upplifði voru vitanlega gífurleg hrifning/spenna/losti, en einnig óendanleg væntumþykja. Eins að þrátt fyrir að ég þekkti þessa konu lítið sem ekkert í upphafi, fannst mér eins og og hefði þekkt hana alla tíð og þótt við ættum fá sameiginleg áhugamál var einhver einstakur samhljómur milli okkar. Það var alveg sama hvað við gerðum saman. Jafnvel þegar við gerðum eitthvað sem ég hefði alla jafna ekki haft einasta áhuga á, fannst mér það alltaf gaman. Það skipti engu hvað var gert. Það var nándin sem skipti máli.
Ég er gífurlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að upplifa ástina. Ég er alls ekki viss um að það sé algilt að fólk upplifi hana á lífsleiðinni.
Reyndar reyndist þessi ást ekki eilíf, í þeirri mynd sem hún var í upphafi. Fyrir því liggja ýmsar ástæður og eitrandi tilfinningar. Henni varð ekki við haldið. Þó ríkir gagnkvæm væntumþykja og vinskapur milli okkar enn.
Ég minnist þessa dags og þessa tíma hvorki með söknuði né eftirsjá, heldur með þakklæti. Ég er betri maður í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Föstudagur, 27. júní 2008
Bóbó-blæti
Ég hleypti Bóbó, niðursetningi, úr búrinu sínu áðan. Hann þarf að fá reglulega hreyfingu til að halda sér í formi.
Sjálfur sat ég við tölvuna og grúskaði í lagi. Setti á mig heddfón. Bóbó settist á heddfóninn (spöngina) og hóf sitt nag.
Ég rak hann burt. Þá settist hann á hátalara og hóf að naga hann.
Bóbó er haldinn hljómtækjablæti. Ég er alveg búinn að sjá það.
Þegar hann settist á skjáinn við hina tölvuna og hóf að naga mynd af elsku dóttur minni, sagði ég við hann að hér yrði staðar numið.
Bóbó er haldinn tækniblæti, 'in general'
Bóbó er nú í búrinu sínu, að naga spegil og allt annað naghæft. Það fer best á því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 27. júní 2008
Típískt
Ég verð seint talinn bílaáhugamaður. Hef reyndar bloggað um bílaáhuga minn áður. Þrátt fyrir það geri ég sjálfur við bílinn minn. A.m.k. svo lengi sem ekki þarf að rífa sundur vélina. Hef sett mörkin þar. Fyrir 21 ári vann ég sem léttadrengur hjá bróður mínum, sumarlangt, sem þá rak bifreiðaverkstæði. Þar lærði ég sitt lítið af hverju sem ég bý enn að. Því er það þannig að þurfi að gera við bremsudælu, skipta um bremsuklossa eða borða. Skipta um dempara, stýrisenda eða spindla, eða annað smálegt, þá geri ég það sjálfur. Einfaldlega vegna þess ég kann það og get. Yfirleitt er málið einungis spurning um hyggjuvit, rétt verkfæri og aðstöðu.
Bílinn minn fagnar 10 ára afmæli sínu um þessar mundir. Ég hef átt hann í tæp fjögur ár og hefur hann þjónað mér vel og dyggilega. Eins og með öll önnur mannanna verk, þarf að halda honum við. Nú er svona eitt og annað smálegt sem þarf að gera fyrir hann áður en ég fer með hann í skoðun. Pínulítið gat komið á olíupönnuna, sem vinur minn ætlar að sjóða í. Svo er löngu kominn tími á að gefa honum nýja afturdempara. Ég fór í umboðið áðan og keypti handa honum nýja dempara, olíusíu og nýtt númersljós.
Í gær fór ég í verkfærabúð að kaupa smáræði sem mig vantaði til að geta unnið verkin. Gormaþvingur fyrir demparaskiptin, búkka og ljósahund. Já ég sé ekki nógu vel til við olíupönnuna nema hafa ljósahund.
Svo kom ég heim, renndi skrjóðnum í skúrinn og ætlaði að hefja verkið.
Nei! Eru þá ekki Ticino innstungur allsstaðar í skúrnum og ég kem ekki ljósahundinum í samband!
Ég mundi eftir að hafa átt millistykki einhverntíma, en fann það ekki.
Semsagt. Varð að slútta öllu í kvöld út af innstungum! Er það ekki týpískt?
Á morgun þarf ég s.s. að græja millistykki. Þá fyrst er hægt að gera eitthvað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 26. júní 2008
Að
Ég verð að viðurkenna að það er fátt sem ég læt fara í taugarnar á mér. Oft þarf ég að hafa mig allan við að koma mér í fjasgírinn. Þó er eitt sem mér tekst, með lítilli fyrirhöfn, að láta fara í taugarnar á mér.
Lélegt málfar.
Það er eitt að tala/hlusta á fólk og annað að lesa skrif þess. Í töluðu máli kemur t.d. ekki fram munurinn á y og i, þótt annað komi þar fram, eins og að segja aðrari í stað annari.
Eitt er það sem ég tek eftir í bloggskrifum, en heyri sjaldan notað í töluðu máli, er þegar fólk er að nota að í tíma og ótíma. þegar að hann sagði..., þegar að ég gerði, og svo framvegis. Þetta stuðar mig. Aldeilis óþolandi.
Ok, allir geta gert einstaka ritvillur og svoleiðis, en kommon. Þegar maður les heilu bloggin, uppfull af óþarfa að hér og þar, svo ég tali ekki um röng y á víð og dreif. Þá á ég erfitt með að halda aftur af mér og lesa til enda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Miðvikudagur, 25. júní 2008
Bóbó bloggari
Hef lítið bloggað undanfarna daga. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Ég hef í bland við letina, verið upptekinn á námskeiði á daginn og ekki komist í tölvu og svo á kvöldin hefur verið barátta um tölvuna. Bóbó hefur nefnilega uppgötvað bloggið. Ég gruna hann um að hafa opnað eigin bloggsíðu, þótt ég viti ekki hvar hún er. Hann hefur líklega opnað hana annarsstaðar en á moggablogginu þ.e. bobo.blog.is er frátekin. Hann hefur þó verið duglegur að lesa og e.t.v. kommenta líka. Þeir sem hafa fengið komment frá Bóbó mega láta mig vita.
Hann hefur hertekið tölvuna og hefur baráttan verið ansi erfið. Ég tók myndir í miðju stríðinu í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 17. júní 2008
Bóbó er tekkari
Alveg búinn að sjá það. Tók af honum tvær klippur. Verst að á annarri þeirra sést ekki hvernig hann hreyfði á sér bakið í takt við tónlistina, en hin er betri og ég hendin henni því hér inn.
Jenný þú verður að gefa mér ítarlega skýrslu um þín vídeómál. Skil ekkert hvers vegna þú ert ekki að sjá vídeóin. Ákvað að nota elstu útgáfuna af MPEG4 codecinu. Reyndar frá Microsoft, svo ef þú ert að nota Makka máttu láta mig vita. Kannski verð ég að nota sultukrukku til að Makkafólk sjái þetta. Hljóðið eð svo bara MP3.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Laugardagur, 14. júní 2008
Af Bóbó og föðurbetrungum
Við Bóbó sitjum og horfum á leikinn með öðru og bloggum með hinu. Bóbó er með spegil hangandi í búrinu sínu og virðist leggja sig allan fram um að snúa honum við þannig að spegillinn snúi út, úr búrinu. Ekki veit ég hvort hann sé haldinn minnimáttarkennd og þoli ekki að sjá spegilmynd sína, eða hvort hann vilji fá 'hinn páfagaukinn' út úr búrinu. Ég á eftir að ræða þetta við Bóbó.
Var að kíkja á Florida blogg föðurbetrunganna. Þau eru komin heilu og höldnu þangað. Búin að fá blæjubíl og skella sér í sund. Allt eins og það á að vera
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 14. júní 2008
Einu sinni var
Já, Franskir þættir sem Sjónvarpið er að sýna. þessir þættir voru áður sýndir kring um 1980.
Þá var ég stráklingur og hafði mjög gaman að þessum þáttum, sem og allir vinir mínir. Flott hjá Sjónvarpinu að endursýna þá. Hvers vegna er samt búið að endurtalsetja þá? Hvar er Guðni Kolbeins, sem snilldarlega las inn á þættina áður? Ég er ekki að setja út á nýju talsetninguna, sem slíka. Hún er ágæt, en hvers vegna var endurtalsett?
Svo var líka miklu flottara þegar litli skrattinn sagði 'já foringi' heldur en 'já stjóri'
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)