Færsluflokkur: Bloggar
Laugardagur, 31. janúar 2009
Kerfisstjóra-syndrome
Nei, ég ætla hvorki að skrifa um kreppu né stjórnmál. Er eiginlega kominn með hálfgerða þjóðmálaeitrun og þarf að hafa mig allan við að logga mig inn á bloggið, þessa dagana.
Ætla að hugleiða um kerfisstjóra. Réttara sagt um öryggisparanoju þeirra og lykilorðareglur.
Án tilefnis varð mér hugsað til kerfisstjóra. Þ.e.a.s. um lykilorðareglurnar þeirra. Kerfisstjórar eru einn paranojaðasti þjóðfélagshópur sem til er. Þeir nota gjarnan bæði belti og axlabönd.
Sumt fólk velur sér fáránleg lykilorð að tölvunum sínum. Kannski nafnið sitt, eða afa síns. Aðrir velja sér aðeins flóknari lykilorð, en til að muna þau skrifa þeir þau á gulan miða sem settur er undir lyklaborðið eða límdur á skjáinn.
Svo eru aðrir sem leggja þau einfaldlega á minnið.
Kerfisstjórarnir horfa á fyrrnefnda hópinn.
Einhverjum snillingnum, í hópi kerfisstjóra, datt í hug að setja notendum reglur. Lykilorð verður að hafa lágmarkslengd og verður að innihalda a.m.k. einn stóran staf, einn lítinn staf og einn tölustaf.
Tillagan líklega borin fram á sameiginlegu alþjóðaþingi kerfisstjóra og axlabandaframleiðenda í Jönköping.
Samþykkt með rússneskri kosningu.
Það er þannig með okkur mannfólkið að við notum einhverskonar kerfi til að muna. Hvert okkar á sinn hátt. Sjálfur nota ég mitt kerfi til að semja og muna lykilorð. Þau geta vel innihaldið allar gerðir af stöfum, en til að muna verður að vera einhverskonar lógík í lykilorðinu. Ég myndi t.d. aldrei muna lykilorðið H8gt5av0MQ1, svo dæmi sé tekið.
En tískan hjá kerfisstjórunum er ekki bara að neyða notendur til að nota allar stafagerðir. Ó nei. Á tveggja mánaða fresti er ég t.d. neyddur til að skipta um lykilorð, í vinnunni. Tilgangurinn er vitanlega að auka öryggi og er það vel. Hinsvegar er lykilorðasagan skráð og get ég ekki endurnýtt gamalt lykilorð. Því verð ég að alltaf að semja nýtt. Eftir því sem lykilorðunum fjölgar gerist tvennt. Mér reynist erfiðara að semja ný lykilorð sem ég treysti mér til að muna og hitt, að ég ruglast gjarnan á gildandi lykilorði og eldri lykilorðum. Svo ég tali ekki um þegar ég þarf að logga mig inn í kerfi sem ég hef ekki loggað mig inn í lengi. Þá man ég kannski ekki lykilorðið, því það er alltaf að breytast.
Eins og áður sagði þá nota ég, eins og aðrir, eitthvert kerfi til að muna lykilorð. Minni mitt hefur þó takmörk, þótt ég eigi auðveldara að muna slíkt en margir aðrir.
Á endanum verður maður uppiskroppa og verður að semja lykilorð í stíl við H8gt5av0MQ1.
Þá grípur maður bara til gula miðans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 25. janúar 2009
Bankið laust á gleðinnar dyr
Fékk góðan vin minn í heimsókn í gær. Eftir gott spjall ákváðum við að kanna statusinn í bænum. Ákváðum að heilsa upp á vin okkar sem býr nálægt miðbænum.
Læddumst að húsi hans. Sáum inn um gluggann hvar hann sat við eldhúsborðið og las.
Komum að dyrunum og bönkuðum hressilega. Hurðin er með frönskum gluggum. Einföldum. Ekki tókst betur en svo að mér tókst að mölva rúðuna sem ég bankaði á. Guði sé lof, já og Ésú, páfanum og biskupnum, að hann hafði sett öryggisfilmu á gluggana. Annars væri ég stórslasaður og hann líklega einnig.
Vitanlega baðst ég afsökunar á ódæðinu og sagðist skyldu gjalda fyrir. Týpískt fyrir þennan vin minn að segja að ég eigi ekki að borga neitt. Hann hafi lengi ætlað að endurnýja þessa hurð og nú væri tíminn til að gera það.
Hann áskildi sér þó rétt á að koma í kaffi og fá að mölva svona eins og einn bolla.
Stend nú í ströngu við að líma öryggisfilmu á bollastellið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Hólmsteins syndrome
Mér varð hugsað til Hannesar Hólmsteins. Manns sem mikið hefur haft sig í frammi um áraraðir, en virðist nú hafa gufað upp. Hann er þó enn að blogga.
Maðurinn hefur dásamað frjálhyggjuna og útrásina. Alla tíð hefur hann dásamað Seðlabankastjóra, Davíð nokkurn Oddson. Hrifning hans á þeim manni virðist engum takmörkum háð. Bara á fyrstu síðu bloggs hans má finna Davíð Oddsson átta sinnum og Davíð sextán sinnum.
Hólmsteinn hefur gasprað um áraraðir. Hann dásamaði G. W. Bush árið 2000, hann dásamaði Davíð alla tíð, hann dásamaði útrásina.
Einhvernveginn finnst mér að allt sem HHG dásamar sé rusl og það sem hann dásami í framtíðinni sé ávísun á rusl. Eiginlega er það þannig, að ef HHG lofsamar eitthvað, hljóti það að vera rusl.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
20. janúar 2009
Er dagurinn sem lögreglan stimplaði sig endanlega inn sem óvin fólksins.
Fólk safnaðist saman til að mótmæla og framkalla hávaða. Varla telst nokkuð ofbeldisfullt við það?
Lögreglan gerði sig seka um að handtaka börn og meisa fólk að ósekju. Svo sem ljósmyndara sem einungis voru að taka myndir.
Friði mætt með ofbeldi.
Meðan ekkert breytist þarf engan eldflaugavísindamann til að sjá að mótmælin munu halda áfram.
Fólki er ofboðið. Fólk hefur fengið upp í kok.
Það eru engin ný sanninndi að þegar lögregla vopnast, vopnast einnig þeir sem þurfa við hana að eiga.
Ég tel það því aðeins tímaspursmál að lögreglan þurfi að eiga við vopnað fólk. Held þeir hafi kúkað á bakið í dag.
Mér fannst við hæfi að hafa fyrirsögnina í anda dómsmálaráðherra.
PS. Sama hvaða viðtengd blogg maður skoðar, við fréttir dagsins. Það virðast allir vera komnir með upp í háls. Engir já-menn ríkisstjórnarinnar voga sér að blogga. Þeir virðast allir húka í grenjum sínum og bíða betri dags.
Ekki einu sinni Hannes Hólmsteinn. kannski hann hafi verið beðinn að halda kjafti. Gott ef satt er.Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. janúar 2009
IRC í dauðateygjunum?
Þegar ég fyrst tengdist internetinu, árið 1994, tengdist ég inn á spjallsvæðið IRC (Internet Relay Chat).
Allskyns rásir sem hægt var að fara inn á, þar sem mismunandi atriði voru til umfjöllunar.
Á IRC voru (og eru kannski enn) svokallaðar Warez rásir. Þar sem hægt var að nálgast allskyns hugbúnað, ef maður vildi.
Svo voru líka íslenskar rásir, þar sem íslendingar komu saman og spjölluðu.
#iceland, #iceland18+, #iceland20+, #iceland30+, #iceland40+, ásamt mörgum öðrum rásum.
Fyrir 10 árum var líf þarna. Fólk að spjalla saman.
Í dag er eins og það sé keppikefli allra að segja ekkert. Fari maður inn á þessar rásir nú, eru allir meira og minna away tímum og dögum saman.
Nú safnast fólk saman á IRC til að þegja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Reykjavík í eigu þjóðverja
Nú stefnir allt í að þýski bankinn Commerzbank eignist megnið af miðbæ Reykjavíkur. Um er að ræða þann hluta sem kollsteypan Samson Properties hefur átt.
Um er að ræða stóran hluta Laugavegs, Frakkastígs, Hverfisgötu, Skúlagötu og Barónstígs. Fregnir herma að við eignaskiptin munu þýskir velja ný nöfn á umræddar götur.
Badpfad, Mantelsteig, Stadtteilpfad, Schultzstraße und Baronsteig.
Nánar um málið hér.
Samson er að þrotum kominn, með fjárhagslegan niðurgang. Því læt ég hér fylgja vísu sem ég lærði sem ynglingur.
Samson hefur saddan kvið.
Sínar garnir fullar.
Ropar, hóstar, ræskir sig.
Rekur við og drullar.
Bloggar | Breytt 15.1.2009 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 13. janúar 2009
Ólafur Darri, hinn sértæki hagsmunaaðili sumra
Í speglinum, á Rás 1 Ríkisútvarpsins, var viðtal við Ólaf Darra. Er hann ekki hagfræðingur? Allavega einhver fræðingur. NB. á launum hjá ASÍ.
Honum fannst ekki vænlegt að fikta í vísitölunni, varðandi húsnæðislán. Enda er vísitalan heilög fyrir verkalýðs- og lífeyrisliðinu.
Það væri ekki nógu gott. Það kæmi eins niður á öllum(!!). Já, hann sagði það.
Betra væri að fara í sértækar aðgerðir þar sem ungu fólki væri hyglað á kost þeirra eldri. Vitanlega burtséð frá skuldastöðu. (Er ekki íslenska jafnræðið yndislegt?)
Nei. Það er ekki nógu gott að hafa hreinar línur og láta jafnt yfir alla ganga. Betra að hafa sérhagsmunareglur og slatta af undantekningum. Reglu- og undantekningafrumskóg.
Tarzan. King of the jungle.
Búið.
Ætla að gæða mér á banana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 12. janúar 2009
Heilbrigðisfroða
Gulli heilbriggðs var í Kastljórinu í kvöld.
Hann froðufelldi ekki, en úr honum vall þó froða, sem ég man ekki helminginn af.
Hann vill ekki einkavæðingu, en hann vill einkarekstur (!?!!?)
Hvað er einkavæðing og hvað einkarekstur. Jú, einkavæðing er þegar ALLT er í einkarekstri. Einkarekstur þegar eitthvað er í einkarekstri. 99,9% einkarekstur er þá ekki einkavæðing, strangt til tekið.
Svona eins og í BNA. Þar eru til ríkisspítalar. Ætlar samt einhver að reyna að halda fram að kerfið þar sé ekki einkavætt?
Þetta heitir orðhengilsháttur í mínum kokkabókum. Sérfræðisvið löffa.
Maðurinn er að einkaVÆÐA.
Punktur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 10. janúar 2009
Júragarðurinn og Jóhanna Guðrún
Nú er Júragarðurinn í fullum gangi á RÚV.
Reyndar finnast mér lög kvöldsins einhvernvegin virka eins á mig, þótt ólík séu. Mér finnst vanta einhvern grípanda í þau, án þess ég ætli að dissa þau eitthvað. Öll vel flutt.
Síðasta lagið söng hún Jóhanna Guðrún, hvers föðurnafn ég man ekki. Alveg ótrúlega mögnuð söngrödd.
Ég man, fyrir átta árum eða svo. Þá átti dóttir mín disk þar sem Jóhanna Guðrún söng. Þá var Jóhanna kannski 12 ára eða svo. Samt með alveg ótrúlegt vald á sinni þroskuðu rödd. Mér fannst það magnað. Óaðfinnanlegur söngur fannst mér þá.
Nú hefur hún elst um jafnmörg ár og við hin. Orðin fullorðin kona og með enn þroskaðri rödd.
Klárlega ein af okkar allra bestu söngkonum.
.......
Og auðvitað komst hún áfram. Klárlega röddin frekar en lagið sem gerði það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 10. janúar 2009
Nafnlausir bloggarar eru ekki alveg ósýnilegir. Gott mál
Um áramót breyttust reglur Moggabloggsins á þann veg að svokallaðir nafnlausir bloggarar fá ekki að að tengja bloggfærslur við fréttir á mbl.is. Eins var þeir ekki að birtast á forsíðu blog.is.
Líklega var það misskilningur hjá mér og mörgum öðrum, að halda forsíðu blog.is vera alla síðuna sem birtist, sé farið inn á blog.is (mbl.is/mm/blog/). Líklega er einungis átt við stórhausana átta sem birtir eru efst og flipann Nýjustu færslur fyrir neðan, því undir flipunum Heitar umræður og Úr bloggflokknum birtast nafnlaus blogg.
Sumir birta engar upplýsingar. Aðrir aðeins netfang og enn aðrir birta nafn. Þó ekki á hinn staðlaða hátt sem blog.is gerir kröfu um.
Hinir nafnlausu þurfa því ekki alveg að örvænta. Þeir eru ekki alveg gufaðir upp, þótt vissulega séu þeir ekki eins sýnilegir.
Sjálfur birtist ég einungis undir flipunum. Þó hef ég nafn. Ég hef aldrei birst sem staurhaus. Þar birtist einungis málsmetandi fólk sem er í vínarbrauðselítunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)