Færsluflokkur: Bloggar

Hávaðablogg

Ég hef áður bloggað um hávaðasaman nágranna. Þennan sem sem fer í bílskúrinn sinn annað slagið til að þenja bíldrusluna sem hann á þar. Einhver voða fínn gamall kaggi sem aldrei er notaður, en þaninn öðru hverju í skúrnum og fyrir utan hann, til hátíðabrigða.

Hann býr á hæðinni fyrir ofan. Þ.e. nágranninn. Kagginn býr í skúrnum.

Téður nágranni á líka hund. Pínulítið kvikindi. Hundurinn dundar sér við að hlaupa um íbúðina á kvöldin. Allt í lagi með það, væri ekki fyrir klærnar á honum. Greinilega stafaparkett þar, límt á gólfið.

Það er kvöldviss viðburður hér á bæ að bölva hundskvikindinu. Þó dettur mér ekki í hug að vera með nánari leiðindi vegna þess og mun ekki vera með neitt vesen til að koma hundinum burt. Hann á sinn tilverurétt. Læt mér fjasið duga.

 

Nú er greinilega barnaafmæli í næstu íbúð. Ærandi hávaðinn mætti mér á ganginum við heimkomuna áðan. Rétt í þessu voru u.þ.b. 20 indíánar að góla úti á svölum, svo hátt að ég hefði ekki heyrt í mér hefði ég reynt að tala við sjálfan mig.

Hið besta mál. Mér finnast börn eiga að hafa stundum hátt. Það er til merkis um að þau eru lifandi og full af orku.


Kreppan

NeytendablaðiðÁ forsíðu nýjasta heftis Neytendablaðsins er mynd af hinum ýmsu skömmtunarseðlum, fá 1917 - 18. Skömmtunarseðlar tíðkuðust einnig eftir það. T.d. í og eftir heimstyrjöldina síðari.

Skyldum við sjá skömmtunarseðla aftur á næstunni?


Skattur.is

Áður en ég hef blammeringar um skattmann og félaga vil ég að það komi fram að frá því rafræn framtöl komu fram (1997 eða 1998) hefur margt batnað. Reyndar fær skattmann alveg sérsmíðað eðalprik fyrir að hafa boðið upp á rafræn framtöl í öll þessi ár. Ég hef frá fyrsta degi nýtt mér þá leið.

Núorðið þarf maður varla að fylla út neitt, nema maður hafi sýslað með fasteignir, hlutabréf eða annað.

Alla jafna er ég ekki að sýsla með slíkt. Þó kom til að smá hlutabréfafargan og fasteignafargan átti sér stað í fyrra. Nú þarf ég að telja það fram.

Fasteignafarganið er tiltölulega blátt áfram. Hinsvegar tókst mér ekki að sjá, á blaði 3.19, hvernig ég setti upp sölu hlutabréfa. Virtist bara að hægt væri að skrá kaup þeirra.

Því hringdi ég í aðstoðarsímann, sem gefinn er upp á síðunni. 511 2250. Átti svo sem ekki von á að einhver væri við, svona á föstudagskvöldi. Átti samt ekki von á þessu:

Ég náði ekki ad taka upp fyrstu sekúnduna, en það skiptir ekki öllu.
Skondið að maðurinn vísar á síðuna. Sömu síðu og ég fann enga hjálp á og ákvað því að hringja.

En hlustið á röddina.

Annað hvort hefur maðurinn enga nennu í að tala í símann og/eða grafinn hafi verið upp leiðinlegasti maðurinn innanhúss.

Mér rétt tókst að halda mér vakandi, þessar tíu sekúndur sem símtalið tók.


Olíuverðmæti

Goami NDip

Goami NDip 

 

 

 

Þannig er það hér í Gambíu, að ólíuverð er í hærri kantinum. Við kaupum olíu aðallega frá Kuwait. Þegar olíuverð hækkar, hækkar lítrinn sem ég þarf að setja á Land Roverinn. Þegar verðið lækkar, lækkar lítraverðið. Svona eins og maður gerir ráð fyrir.

Mér skilst að þessu sé öðruvísi farið norður á Íslandi. Þar hækkar bensínlítrinn með hækkandi olíuverði, en lækkar aldrei. Mér skilst að þá grafi menn upp eitthvað sem kallast íslenskar aðstæður.

Hér í Gambíu er þó vatnsskortur að hrjá okkur meira en olíuskortur. Kannski umhugunarefni fyrir vini mína í norðurhöfum sem sóa vatninu eins og nóg sé af því. Láta sturtuvatnið buna meðan þeir raka á sér táneglurnar.

 Með kveðju frá Gambíu.


Óvinir oss

Ichmid NuludIchmid Nulud

 

 

 

Betar hafa nú ákveðið að úthýsa Abu Qatada. Maður sem hefur ógnað vesturlöndum í fjöldamörg ár. Hann er innsti koppur í búri í hinum alræmdu hryðjuverkasamtökum, Al Anon.

Eins og flestir vita eru Al Anon samtökin, samtök hinna nafnlausu Al Queda liða.

Því ber að uppræta þau samtök sem fyrst, svo ég og fjölskylda mín getum búið áfram áhuggjulaus í húsinu okkar sem fyrrum var heimili einhverra bannsettra palenstínuaraba.

Það er gott til þess að vita að bresk stjórnvöld eru af fullum heilindum að berjast gegn hryðjuverkum. Ekki síst með notkun hryðjuverkalaga gegn vafasömum saumaklúbbum frá Wales.

Gordon Brown er minn maður.


mbl.is Vísa klerki úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónukjör

Mófreður GreipelíusarMófreður Greipelíusar 

 

 

 

Það er löngu kominn tími til að við afdalabændur fáum tækifæri til að velja með beinum hætti hverjir munu skattleggja fóðurblönduna. Í allt of mörg ár hefur verð fóðurblöndunnar verið ákvarðað í reykvískum bakherbergjum.

Ég styð persónukjör. Með þeim hætti get ég enn fremur sýnt frænda mínum, Rögnvaldi, stuðning minn.

Ég geri ráð fyrir að verði einhverjar breytingar, munu þær helst verða í fóðurblöndunni. Kindurnar mínar munu taka því fagnandi og næturfundir okkar munu verða mun ánægjulegri.


Vandi bandarísks bílaiðnaðar

Gunda Sarawati

 

 

 

 

Bandarískur bílaiðnaður á nú í miklum fjárhagsvanda. Margir vilja tengja þann vanda hinni vestrænu fjármálakreppu. Þess skal getið að hér í Turkmenistan er engin kreppa.

Þeir sem leggja á sig að greina vanda bandarískra bílaframleiðenda sjá þó fljótt að vandinn tengist samdrætti í timburiðnaðinum. Vandi timburiðnaðarins er hinsvegar aðallega vegna náttúrulegra orsaka. Veðurfræðileg skilyrði hafa breyst verulega. Menn kenna helst um, hlýnun jarðar.

Þannig hefur framleiðsla á rósavið og eik dregist saman um 38% milli ára. Framleiðsla á palesander og mahóní hefur dregist minna saman, eða um 21%.

Því er erfitt að halda áfram framleiðslu bandarískra bíla, sem þessa, í þeirri mynd sem verið hefur.

Bandarískur bíll 

 

 

 

 

 

 

Þetta er aðalorsök vanda bandarískra bílaframleiðenda.

Eins og komið hefur fram, finnum við Turkmenistar ekki fyrir kreppu. Því síður fyrir bílakreppu. Enda ekki fluttir inn bandarískir bílar hingað. Hér aka menn um á Volgum og Moskwitch. Moskinn minn hefur þjónað mér vel síðan ég keypti hann, vorið 1974.

Moskinn minn

 

 

 

 

 

 

 

 

Þegar vesturlandabúar uppgötva að ekki þurfi að kaupa allt það nýjasta, munu þeir ná sér upp úr kreppunni.


Forkólfarnir sinna sínum

Í seinni fréttum Sjónvarpsins var sagt að ASÍ ætli ekki að fara fram á launahækkanir um sinn. Fyrirtækin hafi hreinlega ekki efni á því.

Þeir hafa gleymt því að launafólk hefur ekki efni á, til lengdar, að verðlag og skuldir hækki meðan launin standa í stað. Enda standa þeir vörð um verðtrygginguna öðrum fremur.

Auðvitað er þeim fjandans sama um fólkið. Þeir hafa aldrei haft velferð alþýðunnar að leiðarljósi. Hef talið þá fyrst og fremst hugsa um eigin endaþarm og í mínum huga er fréttin staðfesting á því.

Það eina sem skiptir þá máli er að geta yljað sér við kjötkatla lífeyrissjóðanna. Enda eru þeir í áralangri áskrift þar. Er einhver sem virkilega trúir því enn að þeim sé annt um annað?

Ég minni á hið stórgóða íslenska orð, afætur.


Miðstýrðar pabbahelgar

Ég heyrði, í útvarpi í morgun, samtal við mann sem á fjögur börn með þremur konum.

Ein spurningin til hans var, hvernig skipulagið væri með pabbahelgarnar og þar sem pabbahelgar eru hálfsmánaðarlega, hvort ekki yrði eitthvert barnanna útundan í hvert skipti.

Honum hefur tekist að koma málum þannig fyrir, ásamt barnsmæðrum sínum, að hann getur haft öll börnin í einu. Gott fyrir hann en ekki síður fyrir börnin, sem ná þannig að kynnast systkinum sínum og vera leikfélagar.

Ég hugsaði þó sem svo að örugglega eru margir sem ekki geta skipulagt pabbahelgar með þeim hætti. Fólk sem á börn með fleiri en einum aðila. Geta verið hvort heldur er karlar eða konur. Það er nefnilega nauðsynlegt fyrir systkini að fá að kynnast og vera saman. Svo getur verið ágætt fyrir foreldrana að fá smá „time off“ svona til að eiga smá sósíal líf.

Þá datt mér í hug, fyrst við erum með vinstri stjórn og vinstri menn eru gjarnari á miðstýringu, hvort ekki væri bara málið að setja lög um pabbahelgar. Mömmurnar gætu átt oddattöluhelgarnar og pabbarnir sléttratöluhelgarnar, eða öfugt.

Með slíku fyrirkomulagi mun margt vinnast.

Vinir, sem eiga börn en eru ekki í sambandi,  ættu alltaf fríhelgar saman og gætu farið saman á tjúttið. Þá gildir sama um karlkynsvini eða vinkonur. Að sama skapi ætti fólk, þegar það fer á tjúttið, aldrei á hættu að rekast á fyrrverandi, þar sem fyrrverandi væri heima hjá sér með börnin.


Frostpinnar og Orkubolti

Frétt á visir.is í gær sem var í fréttum sjónvarps í kvöld vakti upp æskuminningar.

Í gamla daga var þarna bensínstöð Skeljungs. Einnig var þarna lúgusjoppa er hér Bæjarnesti. Ég bjó í hverfinu skammt frá. Nánar tiltekið í Safamýrinni.

Við krakkarnir gerðum okkur stundum ferð í þessa sjoppu. Kölluðum hana alltaf Shell.

Þar mátti fá frostpinna með dýfu. Þ.e.a.s. Kjörís pinna með viðbættri ísdýfu. Var mjög vinsælt. Svo einn daginn fékkst það ekki lengur. Okkur var sagt að framleiðandinn, Kjörís, hefði sett sig á móti því. Eftir það drógust saman kaup okkar á frostpinnum þar, enda styttra í aðrar sjoppur.

Svo hef ég alltaf velt einu fyrir mér. Hví eru grænu og orange frostpinnarnir með súkkulaði, en ananas pinnarnir ekki?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband