Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Jafnaðarmennska Árna Páls

Ég er svolítið hugsi yfir hvernig félagsmálaráðherra vor, Árni Páll Árnason, ætli að útfæra skuldaniðurfellingu.

Fyrir nokkrum dögum var svar hans eins drastískt og helst getur verið, að það væri ekki í mannlegu valdi að gera slíkt. Hallelúja, hugsaði ég þá. Eins gott þá að hafa biskupinn og Omega með í ráðum. Fyrst mannanna afglöp yrðu aðeins leiðrétt með guðlegri aðkomu.

Svo, fáum dögum síðar, hafði hann bakkað eitthvað og gefið í skyn að sértækar aðgerðir kæmu til greina. Alls engar almennar aðgerðir. Hann svaraði því til, í Kastljósinu ef ég man rétt, að ástæðan fyrir að almennar aðgerðir kæmu ekki til geina væri sú að til væru dæmi þar sem x% niðurfelling kæmi ekki að gagni. Það dygði ekki til. Sumir væru bara svo illa staddir. Kom mér pínulítið á óvart því rökin gegn almennum aðgerðum, fyrir kosningar, voru akkúrat á hinn veginn. Að þá gætu einhverjir hagnast sem þyrftu þess ekki.

En gott og vel. Örugglega eru margir sem vel ráða við sínar skuldbindingar. Hvernig ætlar ráðherrann samt að ákveða hve mikið skuli niðurfellt?

Ákvað að setja mitt eigið dæmi upp á tvenna vegu. Ég keypti íbúð á 20,8 millur haustið 2007. Tók Íbúðasjóðslán upp á 16,4 millur. Lauslega, miðað við fasteignaauglýsingarnar eru sambærilegar eignir (sami herbergjafjöldi og sama hverfi. meira að segja sama blokk) metnar á ca milljón undir því verði sem ég borgaði á sínum tíma. Á sama tímabili hefur vísitala neysluverðs til verðtryggingar hækkað úr 278,1 stigum í 344,5 stig. sem þýðir að lánið hefur hækkað úr 16,4 millum í 20,3 (tek ekki tillit til afborgana, enda er þar aðallega um greiðslu vaxta að ræða og höfuðstóllinn að mestu ósnertur). Semsagt búinn að greiða tæpar tvær milljónir af láninu en það hefur á sama tíma hækkað um fjórar milljónir. Ef það er ekki tær snilld veit ég ekki hvað tær snilld er.

Lánið er hærra en verðgildi eignarinnar.

Hefði Jón Jónsson keypt samsvarandi íbúð á sama verði og tekið myntkörfulán í jenum og svissneskum frönkum, eins og algengt var, upp á 16,4 millur að þávirði stæði hans lán í ca 33 til 46 milljónum króna. Allt eftir hlutfallinu milli jena og franka í körfunni.

Að því gefnu að ég og Jón Jónsson hefðum sömu tekjur og sömu útgjöld, önnur en afborganir lánanna þykir mér einsýnt að Jón stæði í talsverðu strögli. Þetta sleppur hjá mér en ekki mikið meira en það.

Við myndum síðan leita ásjár Árna Páls um niðurfellingu. Hvernig skyldi hann taka á okkar málum? Vill hann fella niður skuldir Jóns að því marki að hann geti greitt? Ætlar hann að fella niður allt umfram verðgildi húsnæðis hans? Gildir þá hið sama um mig eða þarf ég að greiða af 20,3 millunum því ég „ræð við það“?

Er ekki ráð að Árni Páll hætti að gapuxast og komi með svör? Á kannski að svæfa málið í einhverri vínarbrauðsnefndinni?

Vilji Árni Páll Árnason kalla sig jafnaðarmann, langar mig að vita hvað jöfnuður þýðir í hans huga. Að liðsinna sumum en ekki öðrum?


Maybe I should have

Geir H. Haarde fór í útvarpsviðtal í dag. Geir hefur ítrekað neitað íslenskum fjölmiðlum um viðtal síðustu vikur og mánuði. Aðspurður um hví hann hafi ekki gefið færi á viðtali fyrr hefði hann líklega svarað...

„Maybe I should have.“

Sagðist hann ekki hafa haft grænan grun um alvarleika efnahafsástandsins hér. Aðspurður um hvernig það mætti vera, hafa verandi innsti koppur í búri ríkisbatterísins og hagfræðimenntaður að auki, hefði hann líklega svarað...

„Maybe I should have.“

Eins og flestum er kunnugt, sat Geir sem fastast í fjóra mánuði, aðgerðalítið, eftir að ljóst varð hvílík kollsteypa hafði átt sér stað. Aðspurður hví hann hafi ekki sagt af sér löngu fyrr hefði hann líklega svarað...

„Maybe I should have.“

 

Ég hlustaði ekki á viðtalið. Var upptekinn í vinnunni.

Maybe I should have.


Nýja Ísland

Var vinsæll frasi í vetur. Svo vinsæll að stjórnmálamenn gerðu hann að sínum. Ekki síst í aðdraganda kosninganna.

Lítið hefur farið fyrir nýja Íslandi síðan. Skjaldborgin varð tjaldborg og síðan gjaldborg.

Í dag var svo endanlega staðfest að nýja Ísland var lítið annað en orðin tóm, þegar gamlir pólitíkusar voru endurunnir í bankaráð Seðlabankans. Þar á meðal er maður að nafni Ragnar Arnalds. Gott ef hann hefur ekki dvalið innan veggja bankans í einhver ár. Líklega líkar honum það prýðilega. Ekki ætla ég að tjá mig um störf hans þar.

Fyrir 28 árum var hann fjármálaráðherra íslendinga og sló lán í Bretlandi upp á 35 milljónir punda, á 13% vöxtum. Lánið er kúlulán, eins og vinsæl eru þessi misserin. Lánið hefur ss einn gjalddaga, árið 2016.

Það er skemmtileg tilviljun að það ber upp á sama ár og til stendur að byrja að greiða Icesafe, sem er einmitt í boði fyrrum flokksfélaga Ragnars í Alþýðubandalaginu. Svavars Gestssonar.

Í dag er fólk að hafa áhyggjur af að íslendingar geti ekki staðið undir Icesave skuldbindingum. Þá gleymist gjarnan Barnalánið hans Ragnars, sem í dag stendur líklega í rúmum 2,5 milljörðum punda. Sem gera hva...eitthvað milli 500 og 550 milljarða króna. Sem NB eiga að greiðast í einu lagi.

Svei mér þá ef ég verð ekki að éta strax ofan í mig upphafsorð mín, um að nýja Ísland séu orðin tóm. Þvert á móti. Árið 2016 fáum við líklega glænýtt Ísland. Ísland skuldabyrða og fátæktar sem aldrei fyrr.

Kannski það muni bara þykja nokkuð vænlegt þá, að yfirgefa landið og flytja til Kúbu eða N-Kóreu?


mbl.is Kaffisamsæti flokksgæðinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannlegur máttur

Félagsmálaráðherra tekur aldeilis stóran upp í sig. Segir ekki í mannlegu valdi að geta afskrifað skuldir heimilanna. Þrátt fyrir að kerfið sem orsakar skuldir heimilanna sé mannanna verk.

Nei, það er víst ekki í mannlegu valdi að tjónka við kerfið. Líklega er kerfið bara eitt af náttúrulögmálunum og ég bara svona vitlaus að sjá það ekki.

Er þá ekki spurning, meðan ríki og kirkja eru enn eitt, að fá biskupinn í málið? Kannski hann geti togað í spotta almættisins og gert eitthvað í málinu?

Það virðist deginum ljósara að það er ekki í mannlegu valdi.

Amen.

Semsagt. Meðan gapuxinn Jón, sem var ávallt flottur á'ðí, tók 20 milljóna gjaldeyrislán fyrir sinni íbúð, sem stendur nú í ca 40 milljónum, meðan Gunna, hin varfærna,  tók 20 milljóna verðtryggt lán sem stendur í ca 23 milljónum. Þá fær gapuxinn Jón afskrifaðar...hvað...tuttugu milljónir, meðan Gunna fær afskrifaðar þrjár?

Aldeilis fín jafnaðarstefna. Já og réttlætið drýpur af hverju strái.


Vonbrigði

Er þær fréttir bárust mér til eyrna að Borgarahreyfingin hefði ákveðið að blanda saman tveimur þingmálum og stunda pólitísk hrossakaup upplifði ég vonbrigði.

Í fyrsta sinn síðan ég fékk kosningarétt fann ég þá sterku tilfinningu í vor að hafa kosið rétt. Ég kaus Borgarahreyfinguna. Fólk sem að því virtist hafði réttlætistilfinninguna að leiðarljósi og sagðist ætla að fylgja sannfæringu sinni. Fólk sem hafði lýst þeirri skoðun sinni að aðildarviðræður við €vrópusambandið og aðildarsamningur væri forsenda þess að geta tekið afstöðu um hvort Íslandi væri betur borgið innan sambandsins eða utan þess.

Gerist það, að þingfólk Borgarahreyfingarinnar setji ákveðna lyktan eins þingmáls sem skilyrði fyrir afstöðu þeirra í öðru þingmáli, eru þau að stunda pólitísk hrossakaup. Eitthvað sem ég hef helst tengt flokkum Sjálfstæðis- og Framsóknar.

Ég á mér enn þá von að þau sjái að sér. Að öðrum kosti mun fullvissa mín um rétt ráðstöfuðu atkvæði breytast í eftirsjá.


mbl.is Óbreytt stefna Borgarahreyfingarinnar varðandi ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri - skattasnilld

Nú hefur Joð boðað auknar álögur á tóbak og áfengi. Allt í lagi svo sem, svona í prinsippinu. Þetta eru jú „óþarfur lúxus.“

Þó hef ég ýmsar efasemdir um gjörninginn. Á hálfu ári hafa álögur á tóbak, áfengi og eldsneyti verið hækkaðar í tvígang. Í þeim tilgangi að afla meiri tekna.

Þótt ég sé í það heila ósammála boðskapi Hannesar Hólmsteins, erum við þó sammála um eitt. Laffer kúrfuna. Hækkaðir skattar hafa áhrif á neyslu, til minnkunar. Mismikil reyndar. Á einhverjum punkti, munu of háir skattar draga úr neyslunni á þann hátt að minnkuð neyslan muni skapa minni tekjur en sem nemur skattahækkuninni. Ég get auðveldlega séð Laffer kúrfuna samsvara öðrum lögmálum, t.d. í raffræði. Örugglega má finna helling af samsvörunum víðar. Bestun, þar sem ákveðinn punktur er í hámarki. Sé farið niður- eða ofan fyrir hann lækkar útkoman.

Það virðist nefnilega vera svolítið þannig með harða vinstri menn að þeir virðast halda að neyslan breytist ekkert við breytingar á sköttum, til eða frá. Svolítið einfeldningslegur hugsunarháttur að mínu mati. Jaðrar við að vera barnslegur. Þegar aðeins er horft á eitt tiltekið atriði án þess að hugsa um jaðaráhrifin og heildarmyndina. Ég vil taka fram að ég tel mig þó meiri vinstri mann en hægri mann. Alla vega jafnaðarmann. Tel þó alla öfga slæma.

Ekki skal ég segja til um hver áhrif 30% - 40% auka skatts á tóbak og áfengi hafa á neysluna. Það verður að koma í ljós, þar sem við erum ekki að tala um 30% - 40% hækkun á þeim vörum, heldur einungis á þeim ríkisskattshluta sem myndar verðið.

 

Nú er ástandið í þjóðfélaginu ekki upp á marga froska og fyrir marga er það eini lúxusinn sem þeir geta leyft sér, að fá sér í aðra tánna af og til, þótt ekki sé nema einn kaldur með kreppugrillkjötinu og/eða að reykja. Það eru engar mílubiðraðir fyrir utan raftækja- eða leikfangabúðir. Fólk er ekki að kaupa sér nýja bíla. Utanlandsferðabransinn hefur hrunið. Fólk er, upp til hópa, ekki með fillet eða humar í matinn. Það er ekkert Innlit-Útlit dæmi í gangi þessa dagana og enginn verslar í Saltfélaginu lengur, enda það orðið að smáhorni í Pennanum. Fólk er ekki að kaupa sér harða og óþægilega mörghundruðþúsundakróna sófa lengur, bara af því þeir eiga að heita svaka fín hönnun. Margir eru ekki að kaupa neitt nema kjötfars, bjúgu og smá bjór „on the side.“ Í mesta lagi ódýr sullrauðvín með ódýru ostunum og vínberjum úr Bónusi, til hátíðabrigða.

Þó er enn til fólk sem getur leyft sér lúxusinn. Hví ekki að skattleggja hann og þar með þá sem hafa nóg?

Hví er ráðist á einu neysluvörurnar sem almúginn hefur efni á? Næst verða líklega hækkuð gjöld á kjötfarsi og bjúgum, í stað raunverulegra lúxusvara. Það er ekki verið að skattleggja lúxusinn. Hví er ekki lögum breytt á þann hátt að ekki verði bara horft á alkóhólmagn þegar áfengi er skattlagt? Fínu og dýru vínin eru ekkert endilega sterkari en „crummy“ sullið. Bara miklu bragðbetri og þar með dýrari. Varan sem þeir kaupa sem efni hafa á. Þá er ég að tala um túgþúsundavínin. Væri ekki nær að komast úr hugsunagangi fjórða áratugs tuttugustu aldar, þegar skilgeiningin um skattlagningu á áfengi var ákveðin? Það drekka nefnilega ekki allir bara til að komast í mók. Þó virðist ríkið halda það og því skattleggja eftir prósentunum. Löggjöfin sem við búum við í dag er samin í anda bannáranna og þeirrar hugsunar að sem fæstir skyldu drekka og sem minnst og helst ekkert. Hafi einhverntíman verið tími til að opna augun og horfast í augu við breytt þjóðfélag er það nú, á þrengingartímum. Það segir kannski meira en margt annað um þankagang þeirra sem stjórna að þetta sé enn eins og um 1930. Væri ekki nær að afleggja þetta alkóhóltengda gjald og búa heldur til nýtt stig virðisaukaskatts, sem væri hærra en 24,5%? Þannig bæru dýrari vínin hærri skatt, í krónum.

 

Skyldi það vera skilyrði í stjórnarskrá að stjórnmálamenn skuli ekki hugsa út fyrir kassann? Tja, eða að hugsa nokkuð yfir leitt? Maður spyr sig.

 

Það er gott að vita af vini almúgans, Joðhönnu, sem ætla að byggja upp fjármála- og bankakerfið á kostnað samfélagsins. Á kostnað fólksins. Það verður vitanlega blómlegra fjármála- og bankakerfið hér með fleira fólk á vanskilaskrá og fleiri gjaldþrota heimilum. Það sér það hver maður.

Svo er auðvitað bjútíið við þetta að vísitalan hækkar og hækkar þar með skuldir okkar allra, sem auka enn á útgjöldin og minnkar þar með kaupmáttinn, ásamt með lækkandi launum fólks og atvinnuleysi. Kaupmáttur minnkar báðum megin frá. Í lægri launum sem og í auknum útgjöldum. Hvern dreymir ekki blauta drauma yfir þeirri dásemd?

Er hún ekki yndisleg þessi verðtrygging, sem ekki má hreyfa við því það gæti styggt sérhagsmunasamtökin sem kallast lífeirissjóðir? Verðtrygginguna sem er eins og hundur sem eltir eigið skott, eða eins og tígrisdýrin í svarta Sambó, sem hlupu í hringi uns þau urðu að smjöri?

Til hamingju Joðhanna! Til hamingju með skjaldborgina!
Skjaldborgina um banka- og fjálmálalífið, sem múrar mig, Jón og Gunnu úti í freðmýrinni.

Til hamingju með að gera íslensk heimili að smjöri!


mbl.is Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súr íslensk lög

Ég rakst á frétt á Vísi, um eignahaldsfélög auðmanna utan um íbúðarhús sín. Þar er tekið dæmið af Hannesi Smárasyni.

Þessi málsgrein fékk mig þó til að staldra við:

„Ef lánið gjaldfellur þá er ekki hægt að elta eignarhaldsfélagið umfram veð - eins og hægt er með einstaklinga.“

Hvurslags þjóðfélag er þetta orðið?

Það er ekki nóg með að hlutafélög hafi lægri skattbyrðar en almúginn, heldur hafa þau skjól umfram alþýðuna þegar kemur að vanskilum og gjaldþrotum.

Mér þætti fróðlegt að vita hvort til standi hjá Joðhönnu að laga þetta. Þeim sem er svo umhugað um alþýðufólkið.


Joð 5.12.2008 - Upprifjun

Ræða Steingríms Joð á Alþingi, þ. 5. desember 2008. 

Í fyrri hluta ræðunnar skýtur hann, réttmætum skotum á þáverandi ríkisstjórn.
Síðari hluti ræðunnar er hins vega áhugavert að rifja upp í dag.

Ræðuna má hlusta á hér.


Fullvaxta komment um vaxtaruglið

Póstaði þessu sem athugasemd en ákvað síðan að henda þessu inn hér, með lagfæringum og viðbótum. Skondið að í morgun, hlustandi á útvarpsþátt, varð mér hugsað um einmitt þessi mál. Vaxtaruglið.


Í siðmenntuðum löndum skrúfa menn vexti niður úr öllu til að hvetja til aukinnar neyslu og efla þar með markaðinn og atvinnulífið.

Hér halda menn háu vaxtastigi til að koma í veg fyrir útstreymi fjármagns frá landinu. Verja gengi krónunnar.

En halló! Hér eru gjaldeyrishöft sem koma í veg fyrir það útsreymi. Það þarf varla vaxtaþumalskrúfuna líka?

Í hinu verðtryggða umhverfi hafa háir vextir hinsvegar áhrif þrefalds kyrkingataks á bæði heimili og fyrirtæki.

Beinu áhrif vaxtanna á lán þrengja að heimilum og fyrirtækjum, í formi aukinnar greiðslubyrðar lána og þar með minni kaupmáttar. Eins valda þeir hærra vöruverði, því vitanlega velta fyrirtækin auknum fjármagnskostnaði beint út í verðlagið, sem hækkar vöruverð. Því er það tvennt sem minnkar kaupmáttinn beint, rétt eins og annars staðar.

Óbeinu áhrifin er þau, að fyrir tilstillitilstilli verðtryggingarinnar leiðir hækkandi verðlag, sem afleiðing aukins fjármagnskostnaðar, til hækkunar verðbólgu, sem aftur hækkar lánin, sem aftur hafa áhrif á verðlagið, sem aftur hefur áhrif á verðbólguna, sem aftur hefur áhrif á lánin, sem aftur hefa áhrif á verðlagið, sem aftur...

Tóm tjara!

Í rafeindafræðunum kallast þetta „positive feedback.“ Það er ástand sem eflir sjálft sig út í hið óendanlega og endar ekki vel. Endar með að rásin fer í mettun og verður óstarfhæf. Í rafeindarásum, svo sem magnararásum, þarf „negative feedback“ þar sem hluti útgangsmerkis er settur aftur inn á inngang, í mótfasa (upphefur inngangsmerkið að hluta). Þetta er gert til að halda rásinni í jafnvægi. Rafeindafræðin eru ekki flókin. Þau byggja á lögmálum eðlisfræðinnar. Þótt hagfræðin séu kannski meira fuzzy logic, hljóta samt að gilda þar reglur um jafnvægi.

Eina ástæðan fyrir að verðbólgan er ekki meiri en hún er nú, er að fólk hefur varla efni á öðru en að borga lánin og kannski að kaupa sér smá kjötfars, on the side. Því laun hafa lækkað. Ekki bara að raunvirði, heldur að nafnvirði. Væri ekki svo ríkti hér óðaverðbólga. Fólk hefur einfaldlega ekki efni á neyslu. Svo ég líki aftur við rafeindafræðin. Styrkur inngangsmerkisins fer sífellt dvínandi og því nær rásin ekki mettun.

Hér stefnir allt í stöðnun. Stöðnun sem kallast verðhjöðnum.

Erlendis lækka menn vexti niður úr öllu einmitt til að koma í veg fyrir hana því heilbrigð hagkerfi þarfnast rennsli fjármagns og einhverrar, en þó lágrar, verðbólgu.

Það þarf engin doktorspróf til að sjá þetta.

Ísland er á leið í mettun og þegar það gerist þarf að endurræsa.

Kannski væri réttast að skikka spekingana í grunnkúrsa í rafeindafræðum.


Hagsmunir

Ég sem hélt að Samtök hagsmunaaðila að eiginhagsmunum væru komin út í kuldann, eftir kosningarnar.

Svo virðist þó ekki vera. Nýi forsætisráðherrann virðist ætla að standa vörð um sérhagsmuni hinna fáu.

Eða hvað heyrist ykkur?


Stefnuræðuna, í heild, má heyra hér.
http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20090518T195247


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband