Borgarahreyfingin

Ég tjáði mig, oftar en einu sinni, um hve ánægður ég væri með ráðstöfun atkvæðis míns í síðustu þingkosningum. Ég kaus Borgarahreyfinguna.

Síðan kom svarti dagurinn, 16. júlí. Þá fannst mér 3/4 hluti þingliðs Borgarahreyfingarinnar hafa selt sig. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum. Ekki endilega með það að þau hafi sagt nei við þingsályktun um að ganga til aðildarviðræðna við €vrópusambandið. Mér er nokk sama hvaða mál hefði verið um að ræða. Nei, heldur vegna þess að stunduð voru pólitísk hrossakaup. Framsóknarmennska. Það var prinsippið sem ég taldi þingmenn mína standa fyrir sem brást.

Liðinn er mánuður og gengið á með ýmsu síðan.

Nýjasta málið eru póstsendingar sem klúðruðust. Ég ætla ekki að taka afstöðu í því máli. Þeas. hvort um er að ræða rætni eða umhyggju. Ég þekki málsaðila ekki baun. Hvorki Margréti né Þráinn. Ég er alveg tilbúinn að trúa að Margréti hafi ekki gengið neitt illt til. Eins skil ég afstöðu Þráinns. Fyrir mér er um að ræða persónulegt mál sem þau tvö þurfi að útkljá.

Afleiðingar þessa máls eru þó slæmar. Herbert, formaður stjórnar hreyfingarinnar hefur sagt af sér sem slíkur. Þar missti hreyfingin góðan mann. Eins hefur hinn skeleggi varaþingmaður, Valgeir Skagfjörð, sagt sig frá hreyfingunni.

Baldvin, bloggari, hefur tekið við formannskeflinu. Ég hef trú á þeim manni þótt ég þekki hann ekki. Hef góða tilfinningu fyrir honum.

 

Á þessum mánuði sem liðinn er frá €SB hrossakaupunum hef ég velt fyrir mér hvort ég geti litið á 3/4 þingmenn hreyfingarinnar sem fulltrúa mína eður ei.

Ég hef átt marga fundi með loftinu en í dag komst ég að niðurstöðu. Ekki með röklegri hugsun heldur var það hjartað sem tók af skarið og tók afstöðu. Allir eiga skilið annað tækifæri. Ég er tilbúinn að fyrirgefa þeim afglöp sín og gefa þeim annað tækifæri. Ég þekki þingmenn hreyfingarinnar ekki persónulega. Birgitta er þó bloggvinkona mín og af að lesa hennar skrif í nokkurn tíma, sem og mat mitt á manneskjunni Birgittu sem ég spjallaði við í Iðnó á kosninganóttinni, segir mér að hún er ekki tækifærissinni heldur hugsjónakona.

Því kýs ég að trúa því að €SB klúðrið hafi verið feilspor, óreynds fólks, heldur en framsóknarmennska.

Ég vona að storminn lægi og að persónurnar Margrét og Þráinn nái sáttum. Ég ætla enn um sinn að flokka mig sem stuðningsmann Borgarahreyfingarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband