Þriðjudagur, 12. maí 2009
Sellóát
Ég skal éta sellóið með honum Sigmari komist Jóhanna Guðrún ekki áfram.
Eftir að hafa hlustað á mörg lög, hver sum hljómuðu leiðinlegri og ver sungin en súr fretur, kom okkar kona og söng óaðfinnanlega. Enda ekki við öðru að búast. Stelpan hefur söngrödd engils og kann ekki að klikka.
Ég skal éta heila synfóníuhljómsveit, með stjórnanda, komist Yohanna ekki áfram.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Ríkisstjórn allra landsmanna
Mér þykir sniðugt tiltæki ríkisstjórnarinnar að halda fund á Akureyri. Ég vona að í framtíðinni verði fleiri ríkisstjórnarfundir haldnir vítt og breytt um landið. Þá ekki bara á höfuðstöðunum; Akureyri, Egilsstöðum, Ísafirði og Selfossi, heldur ekki síður á minni stöðum eins og; Trékyllisvík, Þorlákshöfn og Rifi.
Sumir eru þó ósáttir.
Sumir argaþrasast yfir því hvurslags bruðl sé hér á ferð, af ríkisstjórn sem segist ætla að draga úr ferðalögum.
Í mínum huga flokkast skreppitúr norður á Akureyri tæplega undir hugtakið ferðalag, í þeim skilningi. Ekki frekar en bílferð frá Reykjavík suður í Hafnarfjörð sem er jú ferðalag, strangt til orða tekið. Í mínum huga er ferðalag nokkurra daga ferð til útlanda, með tilheyrandi hótela- og dagpeningakostnaði. Já, tökum mengunina með, fyrst hún var nefnd einhversstaðar. Hve miklu meira mengar Boeing 757 þota á þremur til fjórum tímum en Fokker litli á fjörutíu til fimmtíu mínútum?
Hver ætli sé svo kostnaðurinn við þetta Akureyrarævintýr ráðherranna? Þeir lögðu af stað í morgun. Héldu fund um hádegið og hvað? Fóru aftur heim seinni partinn? Hve mikið kostar það í dagpeningum? Ég þekki ekki reglurnar en mig minnir að það sé bundið við fjölda sólarhringa. Leiðréttið mig fari ég með rangt mál. Að því gefnu að svo sé, fær ekkert þeirra dagpeninga fyrir téða ferð.
En fráhvarfseinkennin eru greinileg í liði Sjálfstæðismanna. Fráhvarf frá argaþrasi og málþófi.
Þeir eru rökþrota, þrasþrota og þófþrota, en þau verða seint fjasþrota.
![]() |
Yfirlýsing ómarktæk á fyrsta degi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Karl stendur upp fyrir konu
Sá merkilegi atburður átti sér stað um síðastliðna helgi að Karl Jafetsson stóð upp fyrir konu.
Atburðurinn átti sér stað á Hóteli Holti, hvar Félag aðila að samtökum aðila að aðildarsamtökum hélt árshátíð sína. Karl mun hafa boðið spúsu sinni, henni Guðnýju Grapes, með sér á fagnaðinn.
Hví Karl stóð upp fyrir spúsu sinni er spurningin sem nú brennur á landmönnum.
Ég er bara alinn svona upp sagði Karl, aðspurður um málið. Þegar kona annað hvort sest að borði ellegar stendur upp, standa karlmenn við sama borð upp. Þetta er siður sem ég lærði í uppeldinu.
Aðra gesti staðarins rak í rogastans við atburðinn og áttu ekki eitt aukatekið orð, hvað þá endurtekið.
Karl hefur nú fengið sálfræðiaðstoð og boð á námskeið í íslenskri ókurteisi. Enda ekki vanþörf á.
![]() |
Karl stendur upp fyrir konu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Fyrningarleið ógnar öllu lífi á jörðinni
Bæjarstjórn Langanesbyggðar segir, að atvinnulíf og búsetuskilyrði á svæðinu sé ógnað ef fyrirhuguð fyrningarleið í veiðistjórn verði farin.
Þetta er í takt við viðvaranir LÍÚ um sama mál.
Sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi sagði að innkölluðum veiðiheimildum yrði endurúthlutað á ný eftir nýjum reglum. Reglurnar yrðu því á þann veg, að mati LÍÚ og bæjarstjórn Langanesbyggðar, að veiðiheimildum yrði úthlutað eitthvert út í buskann í stað þess að þeim yrði úthlutað til þeirra sem vilja veiða.
Að því gefnu að veiðiheimildum yrði ráðstafað til andskotans og ömmu hans, er einsýnt að afleiðingarnar yrðu hræðilegar.
Þær yrðu m.a:
Hitastig á jörðinni mun hækka upp úr öllu valdi.
Hungursneið mun hrjá allan hinn vestræna heim.
Leoncie mun flytja aftur til Íslands.
Kjarnorkurvetur mun ríkja næstu hundrað árin.
Vítiseldar munu brenna um alla Evrópu.
Framsóknarflokkurinn mun ná hreinum þingmeirihluta.
Það er því allt að vinna til að koma í veg fyrir slík ragnarrök sem fyrningarleiðin er.
![]() |
Fyrningarleið ógnar atvinnulífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Samvinnuhreyfingin
Ríkisstjórnin stefnir að því að hægt verði að taka upp persónukjör við næstu sveitarstjórnakosningar, sem fram fara á næsta ári.
Forsætisráðherra segist leggja áherslu á að málið verði unnið í samvinnu við alla þingflokka á Alþingi og Samband sveitarfélaga, og sagði að fljótlega yrðu kallaðir saman tengiliðir allra flokka og sambandsins.
Ekki nema eðlilegt að vinna málið í samvinnu sem flestra. Þrátt fyrir að vinstri stjórnin sé ekki yfir gagnrýni hafin, frekar en annað og ýmsu megi finna að, er það þó mín tilfinning að þessi stjórn muni að mörgu leiti verða við þeirri kröfu landlýðs að efla lýðræðið. Leyfa hinum þingmönnunum að vera memm öðru hvoru. Þó sé ég ekki neinar drastískar breytingar aðrar verða strax, en hvert lítið spor í rétta átt er gæfuspor.
Annað en seinustu 18 ár, sem hafa einkennst af yfirgangi. 18 ára valtari sem valtaði yfir minnihlutann í krafti þingstyrks. Valtari sem var undirlægja formannsins og valtaði eftir hans vilja. Stjórnarandstöðuþingmenn voru varla mikið meira en áheyrnarfulltrúar í 18 ár. Alþingi var bara formlegt afgreiðslubatterí valtarans. Vonandi tilheyrir sá fasismi fortíðinni.
Það er nefnilega einu sinni þannig að farsælustu niðurstöðurnar fást þegar sem flestir sem málin varðar fá að koma að borðinu og koma sínum málum að. Fólk finnur málamiðlanir. Enginn þvingar neinn til neins, af því pabbi hans er sterkari. Enginn fær allt sem hann vill og allir verða jafn sáttir/ósáttir.
![]() |
Persónukjör á næsta ári? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 12. maí 2009
Ritari VG kvartar yfir karlaslagsíðu í ríkisstjórninni
Svo hljómar fyrirsögn fréttar á Eyjunni.
Þar er vitnað í Sóleyju Tómasdóttur, ritara Vinstri grænna. Hún greinir frá óánægju innan þess flokks með kynjaföll nýja (endurunna að mestu) ráðherraliðsins. Í ríkisstjórninni sitja sjö karlar á móti fimm konum.
Almennt séð gæti mér ekki verið meira sama um hver kynjahlutföll í ríkisstjórn eru, eða á Alþingi. Helst vildi ég sjá fagmann í hverjum stól. Þá gildir einu hvort það er kona eða karl.
Hins vegar get ég verið sammála Sóleyju í þetta sinn. Hví skyldi það vera?
Jú, í ríkisstjórninni sitja einungis tveir ráðherrar, skipaðir vegna þekkingar sinnar. Restin eru flokksgæðingar, sem fá stól í krafti atkvæða á bak við sig sem þingmenn. Þetta er sjálfsagt ágætasta fólk, en óttalegir njólar sum hver sem hafa ekki meiri þekkingu á málaflokkunum en görn mín.
Þess vegna hefði allt eins mátt skipa jafn marga njóla af báðum kynjum. Það hefði svo sem engu breitt, en hefði haldið sumum í rónni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 8. maí 2009
Plasma hátalarar - nördablæti
Vinnufélagi minn bendi mér á þessa síðu. Þar má sjá myndband af plasma hátalara, ásamt smá texta um fyrirbærið.
Á síðunni er svo tengill inn á þessa síðu. Hún sýnir þetta betur, að mér finnst, og meira nördískt.
Þetta er kúl.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 7. maí 2009
Föðurbetrungar
Var að fara gegn um myndasafn.
Einhverntíma sagði ég, að til að koma mér í jakkaföt þyrfti einhver að deyja.
Þetta var sagt áður en eldri föðurbetrungurinn minn ákvað að ganga með Ésú og láta fermast. Nú dugar sumsé ferming til að koma gamla í jakkaföt.
Eldri föðurbetrungurinn minn klæddist sumsé í kjól og gekk til altaris, um daginn. Flottastur auðvitað.
Svo var drengurinn auðvitað myndaður í bak og fyrir. Við, áhangendur hans og ættmenni, fengum að vera með.
Hér eru nokkrar af þeim myndum sem ég tíndi úr myndasafninu.
Fermingardrengurinn Logi Fannar.
Birna, systir fermingardrengsins eins og nýbúin að varpa fram spurningu og bíði svars.
Logi Fannar, að spá og spókúlera.
Birna, bara eins og hún er.
Gamli fékk að vera með.
Föðurbetrungarnir að vaxa gamla yfir höfuð.
Áður en ég veit af verða þau fullorðið fólk og ég afdankað gamalmenni. Gangur lífsins og bara skemmtilegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Fimmtudagur, 7. maí 2009
Segir af sér sem frændi
Borgarinn Ólafur F. hefur þegar sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Einnig hefur hann sagt af sér sem varamaður skipulagsráðs, í kjölfar fúkyrðaflaums annars borgarfulltrúa þar, í sinn garð, á fundi skipulagsráðs nýverið.
Í kvöld tilkynnti Ólafur að í kjölfar móðgana og yfirgangs, eins og hann orðar það, hafi hann sent afsögn sína til Hagstofu íslands sem frændi Jófríðar F. Jensdóttur, frænku sinnar. Ólafur segist ekki munu sinna frændskyldum í hennar garð héðan í frá.
Atvikið mun hafa átt sér stað í fermingarveislu dóttur Jófríðar, í apríl s.l. Ólafur hafi misst takið á tertuhníf með þeim afleiðingum að hann skar á slagæð við úlnlið. Jófríður mun þá hafa sagt honum að leita læknis.
![]() |
Segir af sér sem varamaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 6. maí 2009
Fyrningarleiðin
Forsætisráðherra kynnti í dag stefnu nýrrar ríkisstjórnar að lausn að vanda heimilanna.
Fyrningarleið.
Í stuttu máli er hugmyndin sú að ekkert verði gert í langan tíma. Svo langan að þegar loksins eitthvað verði gert verði fólk orðið að fornmönnum framtíðarinnar. Fólk þurfi einungis að þola fátækrafjötra í nokkur ár. Eftir það muni skuldir þeirra verða svo fornar að greiða megi þær með geitum eða spesíum. Eins megi útklá skuldir með vígum og öðrum mannfórnum. Þó skuli það gert eftir forskrift Gráskinnu.
Drekkingarhylur mun þó ekki verða opnaður almenningi, þar eð hann tilheyri Þingvöllum, sem er á heimsskrá Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar munu Elliðaárnar verða opnar almenningi, sem og Sundhöllin.
Afsláttarkort fást hjá ÍTR.
![]() |
Fyrningarleið víst farin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)