Mánudagur, 6. október 2008
Hvað um Hannes Hólmstein?
Nú, í miðri fjármálakrísunni, verður mér hugsað til Hannesar Hólmsteins.
Þeir sem hafa staðið við dauðans dyr segjast hafa séð líf sitt eins og kvikmynd fyrir augum sér, á augnabliki. Eins og allt rifjist upp í þeirri andrá er dauðinn gerir sig líklegan að taka líf þeirra.
Ég er enn fullfrískur og dauðinn hefur hvorki sent mér SMS né póst. Samt hefur margt rifjast upp fyrir mér nú seinustu daga. Meðal annars pedíkanir Hannesar Hólmsteins.
Hann talaði fyrir einkavæðingu, fram í fingurgóma. Sölu bankanna sem og ömmu sinnar. Reyndar náðist ekki að einkavæða ömmu hans en bankarnir voru gefnir vinum og vandamönnum.
Síðar var hann svo til á hverjum degi í fjölmiðlum, fyrir forsettakosningarnar í BNA árið 2000, talandi um hvað George Bush væri miklu betri kostur fyrir allt og alla en óbermið Al Gore.
Flestir eru farnir að þekkja mannkosti herra Bush.
Því næst talaði hann um að Ísland ætti að stefna á að verða ríkasta land í heimi. Reyndar náði Ísland að verða fimmta eða sjöunda ríkasta land Evrópu, sem er ekki langt frá að vera ríkasta land í heimi. Ekki veit ég hins vegar hverju það skilaði íslendingum. Mér og þér.
Margt annað hefur sá ágæti maður Hannes Hólmsteinn sagt. Ekki ætla ég að setja út á hann, enda þekki ég manninn ekkert. Líklega hinn mætasti maður. Hinsvegar tel ég margar skoðanir hans afleitar. Eiginlega er það þannig fyrir mér að ef Hannes Hólmsteinn mælir einhverju bót, jafngildir það því að hið sama er afleitt. Þá miða ég einungis við orð hans í fortíðinni og því sem komið hefur fram.
En fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Hannes mælti hvað harðast manna fyrir skattalækkunum. Skattalækkunum á fyrirtæki, nota bene. Rökin góð og gild, að með lægri sköttum sé rekstrarumhverfi fyrirtækja betra. Það hefur sýnt sig að þetta er rétt. Svokölluð Laffer kúrfa. Fyrirbæri sem hefur sannað sig og ætti þar utan að vera hverjum manni augljós. Of mikiln skattabyrði dregur úr skatttekjum.
Hvað þá um rekstrarumhverfi hins vinnandi alþýðumanns? Það virðist ekki ástæða til að lækka skatta vinnandi fólks. Kannski vegna þess að hinn vinnandi maður er ekki að velta svo stórum upphæðum, hver um sig og því ekki eins líklegur til að freistast til að svíkja undan skatti. Þó eru það hinir vinnandi meðaljónar sem borga mest til ríkisins í formi skatta. Með tekjuskatti og útsvari er meðalmaðurinn að borga tæpan helming tekja sinna í skatta og útsvar. Vitanlega engin þörf á að lækka skatta á okkur aumingjana. Engin þörf á að bæta rekstraröryggi meginþorra fyrirtækja" landsins, heimilanna.
Heimilin þekkja svo vel að lepja dauðaskelina og engin þörf á að breyta því.
Hver aumingjans smá-Jón með titrandi tár
sem tilbiður guð sinn og deyr
Bloggar | Breytt 15.10.2008 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 6. október 2008
Vinir verðtryggingarinnar
Ég hlusta ekki oft á útvarp. Helst að það gerist þegar ég skrölti á skrjóð mínum milli A og B, eða milli B og C. Fyrir mörgum árum, ca 2002 - 2003, hlustaði ég oft á útvarp Sögu. Þá helst á Sigurð G. Tómasson. Mér þykir hann skemmtilegur útvarpsmaður. Þá fékk hann reglulega til sín gest, hagfræðinginn Guðmund Ólafsson. Þeir skröfuðu og skeggræddu. Gamlir og góðir kommar. Að minnsta kosti í orði.
Síðan eru liðin mörg ár.
Það hefur komið fyrir að ég hafi hlustað á þessa sömu stöð á þessu ári. Þá helst á sunnudagsmorgnum. Þá eru endurfluttir þættir frá vikunni áður. Ég hef heyrt þátt Sigurðar, sem enn fær Guðmund í heimsókn. Ég hef gaman af að hlusta á þá. Ég er ekki alltaf sammála þeim. Stundum þó. Þeir eru samt skemmtilegir kumpánar.
Einu hef ég tekið eftir. Þeir og þá sérstaklega Guðmundur, eru einarðir stuðningsmenn verðtryggingar. Mér hefur alltaf fundist það skondið, þegar þeir tala gegn íhaldinu fyrir auglýsingar og dásama verðtrygginguna eftir auglýsingar.
Rökin eru þau að verðtryggingin tryggi sparnað fólks. Okei, það er rétt að vissu leiti. Hvaða sparnað þá? Jú, kannski er enn til fólk sem sparar á gamla mátann. Þ.e. leggur inn á sparnaðarreikning í banka. Hvað lífeyrirssjóðina varðar, ávaxta þeir meira og minna peningana okkar á annan hátt.
Annað, sem Siggi og Gummi hafa líklega ekki leitt hugann að, er að þorri fólks á engan sparnað, annan en hinn lögbundna lífeyrissparnað, ávaxtaðan annarsstaðar en á bankabókum. Frekar í skulda- og hlutabréfum. Þorri fólks, alþýðan, á hinsvegar nóg af skuldum. Líklega eiga flestir þeirra sem tilheyra alþýðunni aðallega skuldir.
Er verðtryggingin góð fyrir þá sem skulda?
Ég spyr. Ég er auðvitað bara aumur forritari sem veit ekkert um peningamál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 6. október 2008
Landsbankinn verður þjóðnýttur í þágu ferðamála
Heimildir herma að ríkisstjórnin hafi gert samkomulag, við samtök aðila í ferðamannabransanum, þess efnis að Landsbankinn verði þjóðnýttur og honum breytt í einskonar krá fyrir ferðamenn, með blætisívafi.
Ríkisfyrirtækið mun heita Land-spank-inn. Þar munu áhugasamir erlendir aðilar eiga þess kost að fá væna ríkisflengingu, í sama dúr og íslensk alþýða hefur mátt þola. Telja menn þetta vænlegan kost til að auka gjaldeyrissteymi í landið til muna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. október 2008
Ein þjóð, eitt ríki, ein skuldsetning
Nú ætlar ríkisstjórnin að tryggja eigur okkar alþýðufólks.
Ég hef reyndar engin erlend lán að greiða af. Bara verðtryggð innlend lán hverra höfuðstólar vaxa bara en minnka ekki aftur þegar og ef gengið styrkist. Reyndar höfum við seðlabankastjóra á fullu kaupi við að kjafta niður verð fasteigna okkar og tryggja hækkun lána með háum stýrivöxtum.
Ég treysti ríkisstjórninni til að tryggja hinar neikvæðu eignir mínar, lánin, svo mér megi auðnast að fá að greiða af þeim hér eftir sem hingað til. Eins treysti ég á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni vernda mig gagnvart sífjölgandi afætum sem á mig herja, hvaðanæva að.
Það hefur verið fínt að nota Netið til að fylgjast með fréttum og slíku. Nú verð ég þó líklega að fjárfesta í sjónvarpi, fyrst RÚV er farið að rukka mig um afnotagjöld af slíkum grip. Þegar afæturnar eru annarsvegar er víst af nógu að taka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. október 2008
Talað og talað, en ekkert sagt
Forsætisráðherra ávarpaði íslensku þjóðina áðan. Ríkissjónvarpið sýndi beint frá atburðinum og fyrir kl. 16 var ávarpið auglýst með jarðarfararauglýsingu. Hvítu letri á svörtum grunni, ásamt fimm mínútna þögn.
Klukkan 16 birtist forsætisráðherra vor, alvarlegur á svip. Þó setti hann upp einhverskonar bros í u.þ.b. tvær sekúndur áður en hann hóf mál sitt.
Ráðherrann talaði í u.þ.b. tíu mínútur, án þess þó að segja neitt. Svo óskýr var hann að kalla þurfti til túlk, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, til að útskýra orð hans. Orð túlksins voru ekki skýrari en forsætisráðherra. Þurft hefði að kalla til annan túlk til að skýra orð Þorgerðar.
Ríkisstjórnin mun ætla að leggja fram frumvarp til neyðarlaga og útivistarbanns. Hálfur brauðhleifur á mann, í viku hverri. Þeir sem eiga jakkaföt og bindi, jeppa yfir 10 milljónum og slatta af hlutabréfum sem enn hafa eitthvert verðgildi, fái tvo brauðhleifa.
![]() |
Neyðarlög sett í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 6. október 2008
Tímamót! Gjaldeyrisstreymi sem aldrei fyrr
Bergmálstíðindi hafa fyrir því áreiðanlegar heimildir að forsætisráðherra muni koma með tímamótatilkynningu kl. 16 í dag.
Heimildir herma að náðst hafi samningar milli íslenska ríkisins og himnaríkis um gulltryggt flæði fjármagns. Um sé að ræða allt að sjö þúsund milljarða króna lán með sálnaveði, til sjö ára.
Stjórnvöld hafa átt leynilega bænafundi með nokkrum sendiherrum himnaríkis, innlendum sem erlendum, kristnum sem múslímum. Jákvætt svar mun hafa borist nú um hádegið. Ásamt sálnaveðinu fylgja nokkur skilyrði um breytta lífshætti íslendinga. Þar á meðal um breytt matarræði og bænahald. Strax í kvöld mun ríkisstjórnin halda kynningu á þeim málum, í Lauganeskirkju.
Fregnir af samkomulaginu virðast strax hafa lekið út og t.d. mun Hjálpræðisherinn strax hafa tekið vaxtarkipp.
![]() |
Boðið upp á uppörvun og leiðsögn í sparnaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. október 2008
Andvarp forsætisráðherra
Í dag kl. 16 mun andvarpi forsætisráðherra verða útvarps- og sjónvarpað um land allt.
Forsætisráðherra hefur alla helgina fundað með helstu aðilum atvinnulífsins og fjármálageirans, ásamt forystu stjórnarandstöðunnar. Seint í gærkvöld komust aðilar að þeirri niðurstöðu að gera ekkert. Líklegast er talið að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti, eins og venjulega.
Undanfarnir dagar hafa einkennst af fumi og fáti. Hverju hefur það skilað okkur? Engu nema örvæntingu í þjóðfélaginu sagði einn ráðherranna í gær. Best er því að halda kjafti og gera ekkert, eins og við höfum lengst af gert.
Forysta stjórnarandstöðunnar hefur sammælst að halda trúnað við stjórnarflokkana og láta ekkert uppi og leggja ekki til lausnir. Þó mun hafa lekið út vísa, úr þeirra herbúðum, sem er á þessa leið:
Ástand er vont, Ísland mun rísa,
eigi um ráð fram skal rasa.
Guðni á svipinn sem gaddfreðin ýsa,
er gullnáma allskonar frasa.
Nánari frétta er að vænta síðar
![]() |
Forsætisráðherra flytur ávarp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 3. október 2008
Gösprum gætilega
Gaspursfulltrúi hins opinbera, vill vara alþýðu við öllu gerræðisgaspri. Það kunni ekki góðri lukku að stýra. Nú þegar hafi of margir gasprað of mikið og of lengi.
Hann vill sérstaklega vara við öllu gaspri um þjóðstjórn og ríkisvæðingu bankakerfisins. Íslenska þjóðin hefði styrka ríkisstjórn sem hefði góð tök á öllum málum. Fólk skyldi gefa henni næði og svigrúm til sinna starfa, án óþarfa afskipta eða athugasemda.
Þar sem fjármálamarkaðir stjórnuðust af bjartsýni og/eða kvíða fólks víða um heim, rétt eins og olíumarkaðurinn, þyrfti að tala varlega. Ekki gefa út yfirlýsingar sem stæðust ekki. Ekki heldur segja eitt í dag og annað á morgun.
Það gæti t.d. haft alvarlegar afleiðingar að gefa út yfirlýsingar um styrk bankakerfisins í dag og yfirtaka síðan banka á morgun, rétt eins og hann væri gjaldþrota. Það myndi rýra traust markaðarins á öllu bankakerfinu. Á sama hátt myndi tal um þjóðstjórn virka sem vantraustsyfirlýsing á störf ríkisstjórnarinnar.
Ég verð að segja, að í þetta sinn er ég hjartanlega sammála honum.
![]() |
Davíð: Menn tali varlega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 3. október 2008
Það fitna fleiri en bankamenn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 2. október 2008
Halló! Einhver heima?
Ég er ekki djúpt sokkinn í fréttafíknina. Tek þó fréttafyllerí annað slagið. Dags daglega glugga ég annað slagið á mbl.is og visir.is og stundum á aðra vefi. Ég hef gjarnan tekið eftir að meðan fréttirnar rúlla inn á visir.is er mbl.is ansi statískur, svo ég sletti smá.
Hvað gerist svo í dag? Ég hélt að nóg gengi á í samfélaginu þessa dagana, sem mætti skrifa um. Til dæmis fréttin á visir.is um að menntamálaráðherra Sjálfstæðismanna hafi sent Seðlabankastjóra tóninn. Mér finnst það í raun stórfrétt, að Sjálfstæðismaður skyldi yfir höfuð dirfast að nefna Davíð Oddsson á nafn án þess að gera það í hallelújastíl.
Nei nei. Hvað gerist þá á mbl? Birtist frétt um það? Ó nei. Bara fyrsta forsíðufréttin um skrautdúfur í nágrenni álvers.
Döh!
![]() |
Skrautlegir nágrannar álvers |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)