Þriðjudagur, 17. júní 2008
Rassgatslaus sný ég heim
Mikið djöfulli átti ég gott kvöld. Fór á tónleika í Höllinni sem voru alveg fyrir allan peninginn. Var ekki einn þeirra sem greiddu þúsundkalli meira fyrir að fá að sitja uppi í stúku og aka sér í sætunum. Nei. Það var dansað til helvítis niðri á gólfinu. Teknó er nefnilega tónlist sem maður finnur með hjartanu og út í lappirnar. Ekki gáfumannatónlist fyrir fólk sem setur hönd undir kinn og hummar spekingslega.
Ég veit ekki hve mörgum lítrum ég tapaði í svita. Allavega voru fötin límd við mig og ég kom heim vel sveittur og klístraður.
Sándið á tónleikunum var frábært í alla staði og eiga hljóðmenn kvöldsins bestu þakkir skilið. Eftir tónleikana var ball á Nasa og það var hálf pínlegt að dansa við langbylgjuhljóminn þar, eftir að hafa verið á tónleikunum. Aðallega samt að tónlistin á Nasa var ekki nógu gröð. Hljómaði meira eins og kexverksmiðja. Þe. bara lög sem voru engin lög, heldur eiginlega bara trommur.
Kvöldið í heild samt tær snilld. Djöfull er gott að dansa svona af sér böttið.
Smá sýnishorn sem ég tók. Samt lítið að marka þar sem hljóðið í klippunni er svo bjagað af hávaðanum. Vantar bassann og sonna, en stuðið var sko alveg til staðar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 16. júní 2008
Ráðherra í opinberri heimsókn
Björn Bjarnarson ráðherra er staddur í opinberri heimsókn á Skaga. Hefur hann heimsótt bændur og búalið og jafnframt skoðað æðavarpið. Björn hreifst mjög af æðavarpinu og ákvað að prófa að liggja á í nótt.
Bergur bóndi, að Hrauni, segir þessa heimsókn ráðherra hafa tekist framar vonum. Aldrei grunaði mann að liðið að sunnan kynni að liggja á segir Bergur og finnst greinilega mikið til koma um tilþrif ráðherrans. Ég hugsa ég bjóði honum með mér í fjósið á morgun. Nú standa nefnilega yfir sæðingar hér segir Bergur að lokum.
Heimsókn ráðherra lýkur á morgun.
Björn var kampakátur á Hrauni í dag.
![]() |
Ísbjörn í æðarvarpi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 17.6.2008 kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 14. júní 2008
Af Bóbó og föðurbetrungum
Við Bóbó sitjum og horfum á leikinn með öðru og bloggum með hinu. Bóbó er með spegil hangandi í búrinu sínu og virðist leggja sig allan fram um að snúa honum við þannig að spegillinn snúi út, úr búrinu. Ekki veit ég hvort hann sé haldinn minnimáttarkennd og þoli ekki að sjá spegilmynd sína, eða hvort hann vilji fá 'hinn páfagaukinn' út úr búrinu. Ég á eftir að ræða þetta við Bóbó.
Var að kíkja á Florida blogg föðurbetrunganna. Þau eru komin heilu og höldnu þangað. Búin að fá blæjubíl og skella sér í sund. Allt eins og það á að vera
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Laugardagur, 14. júní 2008
Einu sinni var
Já, Franskir þættir sem Sjónvarpið er að sýna. þessir þættir voru áður sýndir kring um 1980.
Þá var ég stráklingur og hafði mjög gaman að þessum þáttum, sem og allir vinir mínir. Flott hjá Sjónvarpinu að endursýna þá. Hvers vegna er samt búið að endurtalsetja þá? Hvar er Guðni Kolbeins, sem snilldarlega las inn á þættina áður? Ég er ekki að setja út á nýju talsetninguna, sem slíka. Hún er ágæt, en hvers vegna var endurtalsett?
Svo var líka miklu flottara þegar litli skrattinn sagði 'já foringi' heldur en 'já stjóri'
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 13. júní 2008
Knattspyrnuleg alsæla
Svei mér þá. Ef þetta Hollenska lið vinnur ekki þessa keppni skal ég hundur heita.
Það er bara eitt orð til yfir frammistöðu Hollendinga. Snilld. Unun á að horfa. Bóbó, niðursetningur, er mér hjartanlega sammála. Þegar ég spurði hann, hverjir ynnu setti hann sig í þessa stellingu.
Hann snéri sér á hvolf, ergó Niðurlönd. Semsagt Holland. Bóbó veit sínu viti.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Föstudagur, 13. júní 2008
Knattspyrnuleg fryggð
Ég hef verið að fylgjast með leik Frakka og Hollendinga. Með árunum hefur fótboltaáhugi minn dvínað og helst ég nenni að kíkja á leiki á stórmótum, ss. HM og EM. Best takist mér að halda með öðru hvoru liðinu. Annars nenni ég ekki að horfa á menn tuðrast í einn og hálfan tíma. Nenni td. ekki að fylgjast með ensku firmakeppninni á veturna.
En aftur að leik Frakka og Hollendinga. Ég hef nú ekki séð alla leiki á EM, en af þeim sem ég hef séð finnst mér þessi skemmtilegastur. Þó er hann bara hálfnaður. Mér finnst verst að Hollendingar virðast haldnir þessum sömu hvötum og algengar eru meðal liða, að draga sig til baka komist þeir yfir. Að horfa á spil Hollendinga veitir knattspyrnulega fryggð. Alveg frábært samspil. Frakkarnir hafa sýnt ágæta takta en ekki eins sexy bolti samt.
Bóbó, niðursetningur, sýnir þessu ekki sama áhuga. Bíbmundur, eins og ég ávarpa hann gjarnan í bland við hans rétta nafn. Hann hefur meira einbeitt sér að naga hitt og þetta í búrinu sínu. Þó lætur hann í sér heyra þegar ég stend upp og hverf úr augsýn. Þá kalla ég til hans og læt hann vita af mér. Ég hafi ekki yfirgefið pleisið.
Svo er spurningin hvernig síðari hálfleikur fer. Hvort Bóbó nái að naga meira en íþróttafréttamennirnir. Þar liggur spennan.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 13. júní 2008
Ægir fullur og fjörugur á fertugsafmælinu
Ægir Varðarson, skipstjóri, er fertugur í dag og mun slá upp veislu á heimili sínu í kvöld. Ægir er fæddur og uppalinn í Danmörku en fluttist ungur heim til Íslands, ásamt foreldrum sínum.
Ægir var lengst af félagi í Sjálfstæðisflokknum, en árið 1997 gekk hann til liðs við Frjálslynda flokkinn árið 2001 og síðan við Framsóknarflokkinn árið 2005.
Árin sem Ægir stundaði nám við Sjómannaskólann, sem þá hét, starfaði hann sem lögregluþjónn í sumarafleysingum. Ægir var fyrstur lögregluþjóna til að beita sérstökum ökuskírteinisklippum, sem teknar voru í gagnið árið 1989.
Búnaður Ægis hefur verið uppfærður eftir þörfum gegn um árin, samfara stærra viðhaldi í Póllandi.
[Blaðamaður skilur ekki alveg seinustu málsgrein tilkynningarinnar.]
![]() |
Ægir í fullu fjöri á fertugsafmælinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 13. júní 2008
Nýtt móttökulag á slysadeild
Þeir sem hafa þurft að nýta sér þjónustu slysadeildar kannast við að hafa þurft að bíða ansi lengi eftir afgreiðslu. Á álagstímum hefur deildin ekki undan að sinna sjúklingum og því getur orðið þröng á þingi á biðstofunni. Það er því fagnaðarefni að með haustinu mun slysadeildin taka upp skemmtilega nýjung. Nýtt móttökulag.
Þorleifur Njálsson, sérfræðingur á slysadeild, segir þetta spennandi tilraunaverkefni. Það hefur gjarnan verið óbærilegt að vera á biðstofunni um helgar. Sérstaklega um nætur segir Þorleifur. Þá er saman komið fólk í alls kyns ástandi og hver að syngja sitt lag. Það vill verða eins og í fuglabjargi. Nú verður bara eitt móttökulag og mun harmonikkuleikari ávallt vera á staðnum, til undirleiks.
Fyrir valinu varð lagið Komdu í kvöld inn í kofann til mín. Það verður spennandi að sjá, er á reynir, hvort samsöngur hins nýja móttökulags muni stytta biðtímann eða í það minnsta stytta sjúklingum stundir.
![]() |
Breytingar á slysadeild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Moog
Robert Arhur Moog, er faðir hljóðgervlanna. Snemma á sjöunda áratugnum hóf fyrirtæki hans að selja hljóðgervla, byggða á hans hönnun. Í raun afar einföld hugmynd en snjöll. Að nota nokkra (tvo eða fleiri) sveiflugjafa (e. oscillators). Hver sveiflugjafi myndar sína einföldu bylgju, en með að blanda þeim saman má framkvæma margskonar bylgjusamsetningar og þal. mismunandi hljóð. Tíðni sveiflugjafanna var svo stýrt með hljómborði. Einnig voru síur til að breyta eiginleikum bylgjanna. Fyrstu hjóðgervlarnir voru einradda (e. monophonic) sem þýddi að aðeins gátu þeir spilað eina nótu í einu og því ekki hægt að spila á þá hljóma. Síðar komu fram fjölradda hljóðgervlar.
Skemmtileg kynning á Mini Moog hljóðgervlinum.
Lengi vel voru allar stillingar gerðar með hnöppum, þar sem hljóðgervlarnir voru hliðrænir (e. analog) og ekkert tölvu...neitt. Þal. var heldur ekki hægt að vista stillingar. Síðar hófu aðrir framleiðendur að framleiða eigin hljóðgervla og á níunda áratugnum komu fram hljóðgervlar sem buðu upp á að vista stillingar og þannig gátu menn átt safn af mörgum stillingum (mismunandi hljóðum).
Hröð þróun varð í hljóðgervlabransanum á níunda áratugnum. Um 1980 komu 'samplerarnir' fram. Tæki sem buðu upp á að taka upp hljóð og spila gegn um hljómborð. Aðferðin var einföld. Hærri nótur spiluðu upptökuna hraðar og fengu þannig hærri tón og lægri nóturnar hægar til að fá lægri tón.
Snemma á níunda áratugnum kom fram MIDI (Musical Instrument Digital Interface) staðallinn, sem var bylting. MIDI gerir kleift að tengja saman hljóðfæri og nota eitt til að spila á annað. Með þessu opnaðist möguleikinn að búa til MIDI upptökutæki (e. sequencers). Þannig mátti taka upp mörg hljóðfæri (þe. nótnainnsláttinn, ekki hljóð) og láta síðan tækið spila allt saman.
Moog er goðsögn. Hér flytja The Moog Coockbook lagið Black hole sun, eftir Chris Cornell eingöngu leikið á Moog hljóðgervla, ásamt trommuheila.
Á níunda áratugnum héldu hjóðgervlar að þróast og fram komu hljóðgervlar, ss Yamaha DX7, sem alfarið voru stafrænir þótt grunnhugmyndin væri ávallt sú sama og hjá Moog. Einungis útfærslan öðruvísi.
Ef ekki væri fyrir Moog, MIDI og stafrænu tæknina, værum hvorki ég né restin af heiminum að smíða tónlist í tölvunni heima.
Það sem helst hefur staðið hljóðgervlum fyrir þrifum er að menn hafa gjarnan sett þá í það hlutverk að reyna að apa eftir öðrum 'raunverulegum' hljóðfærum, sem er auðvitað tóm firra. Hljóðgervlar eiga að fá að njóta þess að hafa sinn eigin hljóm sem hvorki píanó, strengir eða önnur hljóðfæri geta leikið eftir.
Nú hefur Moog fyrirtækið kynnt til sögunnar enn eina byltinguna. Rafgítar sem ég veit ekki hvað skuli kalla. Samkvæmt kynningarmyndbandinu er þar ekki um neina tölvugaldra að ræða, heldur einungis nýja tækni í hljóðdósum (e. pickups)
Tónlist | Breytt 13.6.2008 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Niðursetningurinn Bóbó
Nú eru föðurbetrungarnir mínir á leið í útlandið, á morgun.
Í gærkvöldi kom dóttirin með niðursetninginn Bobó, sem mun eiga hjá mér heimilisfesti á meðan, sem og mánuðinn sem þau verða svo hjá mér eftir ferðina. Bóbó var ráðstafað plássi í herberginu hennar og breiddi ég yfir hann teppi fyrir nóttina. Það vildi svo ekki betur til en svo í morgun að ég steingleymdi honum áður en ég fór til vinnu. Það var því ekki fyrr en ég kom heim í kvöld, eftir góða kveðjumáltíð með föðurbetrungunum, að næturástandi Bóbós var aflétt. Í sárabætur fær hann að vera hjá mér í stofunni í kvöld. Við skröfum og skeggræðum.
Bóbó er frekar rólyndur, en hefur sterkar skoðanir á ýmsum málum. Ég held okkur eigi eftir að lynda. Þó er hann feiminn og var ekki hrifinn af að sitja fyrir á mynd. Þó náðist ein fyrir rest.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)