Getur Ísland breytt einhverju?

Það er sárt að vita af fólki sem býr við stöðugan ótta við sprengjur og annan viðbjóð. Fólk, eins og við, sem þráir heitast, eins og þú og ég, að búa fjölskyldu sinni öryggi og geta lifað í sátt við náungann. Geta átt áhyggjulaust líf og geta ferðast um án þess að eiga sífellt á hættu að lífið verði murkað úr þeim eða börnunum þeirra.

Ég ætla ekki að tjá mig um ástandið fyrir botni miðjarðarhafs. Hverjar orsakirnar eru eða slíkt. Ástandið er þó þannig að eitthvað verður til bragðs að taka.

Mér þykir Ingibjörg Sólrún hafa stigið hér gott skref. Hvort af friðarumræðum verði hér og hvort þær myndu skila einhverju, veit ég ekki. Hún hefur þó gert það sem í hennar valdi stendur, að bjóða hjálp.

Vonandi að Abbas sem og Ísraelsmenn þiggi þetta boð og geri hvað þeir geta til að enda þetta brjálæði sem þarna ríkir.


mbl.is Friðarfundur á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorferð Sandkötunnar er í dag

Sandskatan, samtök hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum, heldur vorferðalag sitt í dag. „Þetta er skemmtiferð, ætluð til að hrista saman félagana“ segir Baldvin Geirsson, formaður undirbúningsnefndarinnar.

Farinn verður rúntur um Álftanesið og nágrenni. Komið við á Bessastöðum.

„Þetta verður bara rosa gaman, flaut, lull og pikknikk á eftir“ segir Baldur. Aðspurður um hvað hann nákvæmlega eigi við með að hrista saman félagana, vill Baldur ekkert láta hafa eftir sér frekar.

 


mbl.is Bílstjórar fóru með friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræsni blog.is

Ég hef verið hér á blogginu í einhverja mánuði. Það er fyrst og fremst gaman. Gaman að blogga. Aldrei komist í elítuna, þeirra sem fá sín blog birt feitletruð með stórum myndum.

Ég hélt lengi vel að elítan væri bundin við þá sem ættu vinælutsu bloggin, en hef komist að öðru.

Elítan byggist á þeim er moggamönnum finnst 'hæfa'

Vinsældir telja ekki, enda hefur mitt blog verið ofar í vinsældum en eftirfarandi.

Um málefnaleika og fjölbreytileika skal ég ekki segja, aðrir dæma um það. Allavega tala ég ekki út í eitt um gyðinga.

Hér er bréf sem postdoc.blog.is fékk sent frá umsjónarmönnum blog.is, og gef ég mér sem forsendu að postdoc sé ekki bullukollur, þrátt fyrir að hafa svívirt látinn föður minn fyrr í vetur, í athugasemd á minni síðu.

Málið var að hann, postdoc var settur úr elítunni, í annann flokk. Hann mótmælti og fékk þetta svarbréf;

 

Sæll vertu Vilhjálmur.

Vitanlega færðu góð svör, eða í það minnsta eins góð og ég get skaffað.

Fyrst smá upplýsingar um hvernig vali er háttað í Umræðuna á blog.is:

Starfsmenn
blog.is velja inn í umræðuna þá bloggara sem þeim finnst skrifa ört og málefnalega og á góðu máli. Ekkert er hirt um skoðanir viðkomandi, enda skrifar hann undir nafni og stendur hann undir þeim sjálfur. Þú varst valinn inn á sínum tíma vegna þess að þitt sjónarhorn þótti mönnum fróðlegt og færslurnar allar fínar.

Sl. fimmtudag spratt umræða um það hvort meðal "umræðu-bloggara" væru menn með of einsleit blogg, þ.e. væru alltaf að blogga um það sama. (Dæmi um það gæti verið Kristinn Pétursson fiskverkandi frá Bakkafirði sem er mjög uppsigað við kvótakerfið og á það til að blogga ekki um annað löngum stundum.)

Í áðurnefndri umræðu var nafn þitt nefnt og mönnum þótti þú blogga um fátt annað en illsku múslima (nota bene: menn voru ekki að amast við skoðunum þínum, málið snerist um fjölbreytileika umæðunnar). Nú þegar ég sest niður til að skoða blogg þitt sé ég að það er tóm tjara, þ.e. sú staðhæfing að að það sé of einsleitt, og því hefur ég bætt þér á listann að nýju.

Með góðri kveðju,

Sign

Hversvegna er gaur sem talar ekki um annað en gyðinga (gæti verið hvað sem er) og er í 74. sæti, í elítunni meðan ég er það ekki sem er nú í 59. sæti.

Hvaða fávitahagsmunir ráða för hér? Hver er málefnælegur? Þykir moggamönnum ekki málefnalegt að tjá sig um þjóðmál?

Ætli mínu bloggi verði nú lokað?


Ég tek ofan fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur

Ég horfði á Silfur Egils á netinu í gærkvöldi. Þar var margt fjasað og mikið gripið frammí, eins og tilheyrir í þeim þætti. Eitt málanna í umræðunni, var hvort ísland ætti að undirbúa aðildarviðræður við Evrópusambandið. Mál sem hefur verið heitt undanfarið. Reyndar er umræðan um það ekki ný af nálinni. Mörg ár síðan byrjað var að tala um þetta. Umræðan hefur þó mestmegnis farið fram í skotgröfum allan tímann. Fólk hefur ýmist verið í liði með, eða á móti. Engin málefnaleg umræða í raun farið fram. Þeir sem hafa verið fylgjandi hafa lofsungið. Hinir bölmóðast. Hver með sinn stein að berja sínum haus í. Jæja, kannski pínu ýkt. Þó ekki svo mjög. Vissulega hafa menn lagt fram málefnaleg rök með eða á móti, en þar við hefur setið. Enginn raunveruleg samstaða um hvernig skuli þróa það mál. Pattstaða.

Það er ekki fyrr en nú seinustu misserin, sem umræðan um evruna hefur orðið háværari að einhver von verði til að það fari að glitta í einhvern vilja til að gera a.m.k. eitthvað. Það er enginn að tala um að hlaupa til og sækja um, heldur að skoða af einhverju viti hver fórnarkostnaðurinn yrði og hver ávinningurinn. Hingað til hafa þeir sem á móti eru einungis afgreitt allt tal með að Evrópusambandsaðild sé ekki á dagskrá (á þessu kjörtímabili, hinu fyrra og öll hin þar á undan). Case closed.

Það gerðist í fyrsta skipti í gær að ég heyri manneskju, sem lýst hefur yfir andstöðu sinni við inngöngu í Sambandið, segja að menn verði að setja af stað ferli. Ferli sem gerði ráð fyrir að niðurstaðan yrði sú að sótt yrði um aðild, hvort sem niðurstaðan yrði síðan sú eða ekki. Þess vegna yrðu menn í því ferli að undirbúa stjórnarskrárbreytingar og o.fl. þannig að yrði niðurstaðan sú, eftir ítarlega skoðun og viðræður, að rétt þætti að sækja um aðild væru menn búinir að vinna þá forvinnu sem til þyrfti en væru ekki með allt niðrum sig eða búnir að mála sig út í horn í aðgerðaleysi sínu. Þessi manneskja heitir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Þarna heyrði ég í fyrsta skipti andstæðing Evrópusambandsaðildar tala öðruvísi en með höfðinu í steininn. Þarna talaði hún af svo mikilli skynsemi og víðsýni að skotgrafahermennina, sessunauta hennar, setti hljóðan. Þeir gufuðu upp. Þeir urðu kjaftstopp, vegna þess að þeir vissu innst inni að gegn skynseminni er hausbank í grjót tapaður málstaður.

Ég er með þessum orðum mínum ekkert að segja um hvort rétt sé að ganga í Evrópusambandið eða ekki. Það get ég ekkert fullyrt um, frekar en aðrir. Málið hefur ekki verið skoðað. Ég er hinsvegar að segja að það er heimska að skoða það ekki, með opnum huga.

Mér hefur alltaf þótt eitthvað búa í þessari konu, henni Þorgerði Katrínu. Þarna sýndi hún og sannaði, fyrir mér og eflaust fleirum, að hún er fluggáfuð. Skynsöm og víðsýn. Ég tek ofan fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.


Fjölpósturinn Fréttablaðið

Nú auglýsir Fréttablaðið einhvern poka eða tösku sem kallast Blaðberinn. Ég sá einmitt tvær stúlkur dreifandi þessu í Smáralindinni fyrir helgi. Þar sem ég gekk fram hjá annarri þeirra rétti hún einn slíkan að mér og spurði hvort ekki mætti bjóða mér. „Hvað geri ég við hann?" spurði ég. „Þú getur safnað í hann blöðunum og farið með út í gám" svaraði hún. „Ég þarf þess ekki" svaraði ég að bragði. „Blöðin ná ekki svo langt að komast inn til mín."

Póstkassinn minn er kyrfilega merktur, með gul-svörtum miða, að í hann skuli ekki setja neinn fjölpóst. Blaðburðarfólk Fréttablaðsins, sem og 24ra stunda, virðast þó ekki kunna að lesa. Kannski þeir telji þessi blöð sín ekki vera fjölpóst, en í mínum huga er allur póstur fjölpóstur sem ekki er merktur mér sérstaklega. Sér í lagi auglýsingabæklingar og umrædd blöð eru ekkert annað en auglýsingabæklingar með fréttum sem uppfylliefni. Ég fæ þessi blöð í póstkassann minn í minni óþökk og á leiðinni frá póstkassanum að íbúðinni minni, staldra ég við ruslalúguna og flokka póstinn. Þessi blöð og allt hitt auglýsingaskrumið fer beinustu leið í tunnuna, ólesið. Mér dettur ekki til hugar að gerast einhver ruslasafnari fyrir þetta fólk og að koma þeirra rusli í einhvern gám. Þeim væri nær að spara sjálfum sér og mér ómakið og taka blöðin bara beint úr prentvélinni og henda þeim í ruslið þar. Spara sér þannig flutnings- og útburðarkostnað og mér óþarfa vesen við að þurfa sífellt að losa þessi blöð úr póstkassanum til að annar póstur komist í hann.


Hagstofan færir út kvíarnar

Árið 2006 komu út 1419 bókatitlar hér á landi, samkvæmt nýrri skýrslu Hagstofunnar. Það jafngildir 4,6 titlum á hverja 1000 íbúa, sem skiptast í tvær spennusögur, eina ævisögu, eitt fræðirit og eina barnabók. Þar sem barnabókatitlar þykja ekki jafnfínn pappír og fullorðinsrit, hafa þeir einungis merkilegheitastuðulinn 0,6.

Einnig kemur útgáfudreifingin fram í skýrslunni. 1388 titlar komu út í desember, 21 titill í júní og restin dreifðist síðan yfir restina af árinu. Enginn titill var gefinn út í janúar.

Skýrsla þessi þykir, fyrir margar hluta sakir, afar athygliverð og mun vera sú fyrsta sinnar tegundar sem unnin er af óháðum aðila. Þó þykir það allra athyglisverðast að það skuli vera Hagstofa Íslands sem standi í gerð svona skýrslu. Hingað til hefur hlutverk hennar verið talið vera annað, en það virðist nú vera að breytast.

Að sögn Þórðar Þorkelssonar, verkefnastjóra hjá Hagstofu Íslands, er ástæðan sú að þar sem talsvert hefur dregið úr hefðbundinni starfsemi Hagstofunnar, m.a. eftir að Þjóðskrá var gerð að sérstöku batteríi, hefur Hagstofan leitað í auknum mæli á ný mið. Þetta sé eitt hinna nýju verkefna Hagstofunnar, að taka saman skýrslur fyrir aðila úti í bæ. Að sögn Þórðar munu fleiri verkefni vera í burðarliðnum, s.s. verðkannanir, viðhorfskannanir og samantekt Íslenska listans, sem er vinsældarlisti FM957.


mbl.is 4,6 bækur á hverja þúsund íbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dyntir og dólgar

Góðri helgi lokið. Mér tókst að drösla krökkunum og þau mér, út í bíl í tæka tíð í morgun rétt fyrir kl. átta. Bíllinn gerði sig hinsvegar líklegan til að vera með leiðindi. Sagðist ekki ætla í gang. Hann er annars frekar skapgóður greyið. Hann hefur einu sinni áður reynt að leika þennan leik við mig, en það var í ágústbyrjun 2006. Þá rann honum fljótt reiðin, eða hvaða dyntir sem hlupu í hann þá. Eftir nokkrar mínútur þíddist hann mig og fór í gang. Hefur hagað sér vel síðan. Þar til í morgun. Líklega var hann bara ekki fullvaknaður, frekar en ég. Eftir að hafa gert þrjár tilraunir til að ræsa hann og farið oní húddið, með spekingssvipinn að vopni, settist ég inn í hann aftur og tók upp símann. Ég hringdi í skóla barnanna og tilkynnti að þeim myndi seinka. Að loknu símtalinu fór bíllinn í gang eins og skot. Hann er stríðinn, blessaður.

Eftir að hafa komið afkvæmunum á sinn stað ók ég sem leið lá til baka og í vinnuna. Þar sem ég keyrði Reykjanesbrautina rétt fyrir hálf níu á mínum löglega 70Km hraða, í suður undir brúna við Breiðholtsbraut, renndi ég mér yfir á vinstri akrein til að hleypa strollunni sem ég sá koma niður brekkuna, af Breiðholtsbraut. Um að gera að liðka til og láta umferðina ganga smurt, ekki satt? Síðan fylgdist ég með hvar ég geti skotið mér aftur í eitthvert bilið, inn á hægri akrein aftur. Sá færi á að skjóta mér aftan við einn, gráan bíl. Sá engan fyrir aftan. Gaf stefnuljós og gerði mig líklegan til að renna mér yfir á hægri akrein. Sá þá hvar kom á fullri ferð, talsvert hraðar en ég, svartur smábíll merktur Pepsi Max í bak og fyrir. Ég hrökklaðist til baka og beið eftir að njólinn sá arna tempraði hraðann, enda var hann algerlega á leið inn í gráa bílinn sem ég hafði ætlað mér að smeygja mér aftan við. Ég jók í stað ferðina og tók fram úr þeim gráa. Ég fylgdist með í speglunum og sá að svarti Pepsi bíllinn var kominn í rassgatið á mér og var greinilega að sæta færis á að komast fram úr. Eftir að ég hafði farið fram úr þeim gráa, renndi ég mér yfir á hægri akrein. Sá ég þá hvar svarti Pepsi bíllinn æðir fram úr mér og annar nákvæmlega eins bíll strax á eftir, nema hvað sá var kyrfilega merktur Doritos. Ég sá síðan á eftir þeim hverfa sitt á hvað milli bíla, þar sem þeir skíðuðu áfram á milli akreina. Þeir hafa líklega verið í spreng og þurft að komast á klóið. Hvað sem því líður er svona fólk ekkert annað en umferðardólgar og ættu ekki einu sinni að fá að hjóla þríhjólum.


Af því bara

Það er gaman að vera foreldri. Vissulega stundum strembið, en án þess væri það ekki eins gefandi. Alveg frá því börn eru lítil grjón reyna þau m.a. að finna veiku punktana hjá okkur. Bara hluti af því að læra á umhverfi sitt. Það er þroskandi fyrir mann að æfa þá tækni að vera sanngjarn og reyna að samræma frjálsræði og aga. Oft þarf maður að vera diplómat og stundum þýðir ekkert annað en standa á sínu. Kunna þó að gefa eftir, styðji þau mál sitt gildum rökum. Það kennir þeim rökræna hugsun og að samskipti við fólk ganga hvorki upp með yfirgangi né undirgefni, heldur með gagnkvæmri tillitsemi og sanngirni. Mér finnst þetta skemmtilegt verkefni og ekki síst þegar þau eru að stíga inn í gelgjuna. Ég er þó ekki fullkominn og stundum tekst mér að koma mér í þá stöðu að vera þaulspurður um eitthvað. Séu þau t.d. á öndverðum meiði um eitthvert mál og ég svo á öndverðum meiði við þau. Ég hafi kannski tekið einhverja ákvörðun sem þau mótmæli, en án þess að leggja fram gilda ástæðu fyrir mótmælum sínum önnur en það að þau bara langi. Þá er gott að eiga hin ávallt óhrekjanlegu rök í bakhöndinni. Rök sem alltaf má grípa til er allt annað brestur.

„Af því bara."


Fjas og fíflaskapur

Jæja, þá er sigið á seinni hluta helgarinnar og ég ekki búinn að fjasa neitt. Mig óar satt að segja yfir þessari eilífu jákvæðni. Nú finn ég innra með mér einhverja þörf fyrir gott fjas og ætla að reyna að finna þeirri þörf farveg, hér og nú. Ekki búinn að fá úr'onum allt of lengi, fjasbrunninum mínum allt svo. Cool Voruði að hugsa eitthvað annað?

Best að smíða smá kaffi fyrst.....

Ég þarf eiginlega að hafa mig allan fram, þessa dagana, til að verða mér úti um gremju og alvöru þörf fyrir fjas. Helgin búin að vera alveg sallafín. Hún hófst á því ég hitti æskuvinkonu mína, sem ég hélt jörðin hefði bara gleypt á sínum tíma. Það var svona eins og hitta aftur löngu týnda systur. Síðan er ég bara búinn að hafa það drullufínt með krökkunum mínum.

Vorum að koma úr bíó. Þau völdu myndina. Superhero movie. Ég var alveg að ná að koma mér upp þessum fínu fyrirframskoðunum um myndina. Hélt þetta væri einhver 'raunveruleg' ofurhetjumynd sem ég gæti kannski dottað yfir, en annað kom á daginn. Þetta reyndist vera eðal prumpubrandaramynd a'la Leslie Nielsen. Enda lék hann hlutverk í myndinni. Þó ekki aðalhlutverkið. Bíóferðin var hinn mesta skemmtun og sá gamli (eh..ég Blush) hló sko ekki minna en hinar gelgjurnar í salnum. Nauðsynlegt að hleypa út litla strákpjakknum í sér og hlæja að svona vitleysu. Eini gallinn hvað myndin var stutt, í aftari endann.

Við fórum í Háskólabíó. Eftir að hafa keypt miðana, á 'aðeins' 650 krónur per haus, tókum við okkur vitanlega stöðu framan við nammisöluna. Ákveðið var að úða í sig vel sykruðum gosdrykkjum, poppkorni og síðast en alls ekki síst...natchos með ostasósu. Rétt í þann mund er röðin kom að mér kom strákurinn minn til mín og sagðist hafa heyrt að sósan væri köld. Þegar röðin kom síðan að mér spurði ég stúlkuna sem afgreiddi hvort rétt væri að sósan væri köld. Hún svarar því játandi. Ég spur hvenær hún verði orðin heit. „Örugglega í hlénu" segir hún. „Í hlénu, alveg eins og síðast?" hvæsti ég á hana til baka. Við sonurinn fórum nefnilega fyrir þremur vikum eða svo í þetta sama bíó. Þá hafði greinilega enginn haft rænu á að kveikja á sósuhitaranum fyrr en allt of seint, rétt eins og nú. Það skal enginn segja mér að starfsfólkið mæti ekki fyrr en fimm mínútum fyrir opnun miðasölunnar. Er ekki rétt að koma inn í próptókollinn þarna að byrja að hita sósuna í tæka tíð. Kannski bara byrja á því áður en farið er í að poppa, fyrst hún er svona lengi að hitna.

Kannski mér takist að gera þetta bara að þráhyggju hjá mér, að fylgjast með sósumálum Háskólabíós? Mig dauðvantar þráhyggjur þessa dagana, eftir að mér fór að vera sama um speglamálin í Hagkaupum, Smáralind.

Meira kaffi...

Kaffið smakkast prýðilega, án þess þó að hafa neinn fínan stimpil. Líklega ræktað af þrælum einhvers lénsherrans og flutt til evrópu, gegn um danmörku. Markaðsett sem dönsk eðalframleiðsla, eins og sykurinn. GetLost


Prins í garði kærustunnar, seint um kvöld

Tíðrætt hefur verið undanfarið um æfingar leyniþjónustunnar MI5 í Bretlandi. Þar hafa æfingaaðferðir Harry prins verið sérstaklega gagnrýndar. Talsmenn leyniþjónustunnar segja gagnrýnina ómálefnalega og tilhæfulausa. Henni sé einvörðungu ætlað að koma höggi á, hinn háttvísa, Harry prins.

Daily Trelegraph birti heilsíðuumfjöllun um „vafasamar aðferðir“ eins og það var orðað. Þar er sagt frá ferð prinsins á strippstað, seint um kvöld. Talsmenn MI5 segja ferð hans þangað verið hluta af æfingunni „Pole position“ þar sem æfð voru gæði dulargerva. „Við verðum að vera viss um að rykfrakkarnir hylji allt og ekkert komi fram hvað gerist innan klæða“ segir ónefndur talsmaður MI5. „Þá er strippstaður afar hentugt umhverfi til æfinga.“

Síðar þetta sama kvöld, segir Daily Telegraph, var prinsinn gripinn af lögreglu í garði fv kærustu sinnar. „Þarna eru hlutirnir slitnir úr samhengi“ segir talsmaður MI5. „Í dulargervisverkefnum verða menn að vera 100% trúverðugir. Það getur skilið milli lífs og dauða, þegar alvaran tekur við. Hverjum þætti trúanlegt að sjá mann taka strætó heim til sín eftir 3ja tíma törn á strippbúllu?“ spyr talsmaður MI5 að lokum.


mbl.is Prinsinn lenti í garði kærustunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband