Færsluflokkur: Tölvur og tækni
Fimmtudagur, 4. febrúar 2010
iPad
Nýverið héldu Steve Jobs og félagar, enn eina hallelújasamkomuna.
Þær eru býsna vinsælar, hallelúja samkomur þeirra eplabænda, hvar aðal mætir í gráa/svarta langermabolnum, eða rúllukragapeysunni og hallelújar yfir lýðnum.
Nú var það nýjasta afurð eplabændanna, iPad. iPad er ætlað að keppa við afurð Amazon, Kindle, sem verið hefur á markaði um nokkurt skeið. iPad mun þykja eilítið poppaðri en Kindle. T.d. skilst mér að Kindle skorti hinn nauðsynlega fídus, baklýsingu.
Eplabændur mega eiga að þeim hefur tekist, síðan þeir drógu sig upp úr dauðadalnum og komu fram með iTunes, að trylla lýðinn með nýjungum sínum. Eiga það reyndar sameiginlegt með erkifjandanum Billa (Gates) að finna fæst upp sjálfir, heldur taka upp uppgötvanir annarra, minni spámanna og poppa þær eilítið upp. Svo er með iTunes, iPod og nú iPad.
En aftur að hallelújasamkundunni. Þegar selja skal eitthvað, er betra að tala sem minnst um tæknilega hluti og önnur leiðindi, en tala þeim mun meira um stórkostlegheitin. Þetta kunna eplabændurnir vel.
Hér er stytt klippa af síðustu samkomu. Fitan skorin burt og kjarni samkomunnar skilinn eftir.
Væri Dolli uppi í dag hefði hann brugðist svona við.
Tölvur og tækni | Breytt 5.2.2010 kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. september 2009
Farið varlega í að treysta Google þýðingavélinni.
Vitanlega verður útkoma þýðingarinnar ekki alltaf málfræðilega rétt, en dugar kannski til að merking textans skili sér.
Eða er það? Ekki alltaf.
Þannig að líklega er betra að treysta henni ekki um of.
Þriðjudagur, 1. september 2009
Fjarskiptanet Páfagarðs
Í viðtengdri frétt segir að Páfagarður sé eina sjálfstæða ríkið sem ekki hafi eigið farsímanet. Hins vegar kemur ekki fram hvers vegna.
Jú, Páfagarður hefur frá aldaöðli rekið eigið fjarskiptakerfi. Notast er við bréfdúfur fyrir skeyti innan ríkisins. Langlínuskeyti eru flutt með englum.
Farsímanet í minnsta ríki í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 12. desember 2008
Ég á eftir að sjá þetta halda
Ekki veit ég lagalegar forsendur fyrir skráningu einkaleyfa. Hvort menn þurfi að sýna fram á að viðfangsefnið sé sannanlega frá þeim komið.
Hvað broskarlana varðar, eru þeir alls ekki nýir af nálinni, þótt þeim hafi fjölgað gegn með árunum.
Líklega er hér einungis um að ræða myndútfærslur á hinum fornu táknum, s.s. :) og :( og :| og ;) svo fáein séu nefnd. Myndútfærslum eins og t.d. MSN messenger notar, þar sem innslegið tákn er birt sem mynd.
Ekki veit ég með vissu hve gömul upprunalegu táknin eru, en þau sáust fyrst notuð á IRC. Þegar ég hóf að nota IRC, árið 1994, voru þau þá þegar í fullri notkun.
Segist eiga réttinn á ;-) | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 20. ágúst 2008
Oft veltir lítil þúfa...
Fartölvur eru orðnar býsna algengar á heimilum landsmanna. Ekki eins og fyrir fáum árum, er það voru helst þeir sem þurftu starfs síns vegna að nota fartölvur sem notuðu slík tól. Almenningur notaðist aðallega við borð- og turntölvur. Nú er semsagt öldin allt önnur.
Fartölvur eru þægilegri. Þær má hafa með sér í sófann, upp í rúm, eða bara hvert sem er. Munur að geta bara fært sig um set þegar hentar, á þráðlausu neti.
Einn ókost hafa þær þó umfram stóru borð- og turnvélarnar. Þær eru viðkvæmari fyrir ryki. Það liggur við að tölvurnar í stóru borð- og turnkössunum geti safnað heilum haug af ryki áður en það fer alvarlega að bitna á örgjörvakælingunni. Loftflæðið í kassanum er yfirleitt það gott. Annað er uppi á teningnum með fartölvurnar. Í þeim er öllu þjappað saman og litlu plássi sóað fyrir loftflæði.
Ég fékk mér fartölvu seinasta haust. Hljóðlát og góð. Ég hef m.a. notað hana til að fremja tónlist og þannig bardúsi tilheyrir gjarnan að taka upp söng. Þá skiptir máli að hafa hjóðláta tölvu, sé hljóðneminn staðsettur í ekki nema metra fjarlægð frá tölvunni.
Í upphafi setti ég inn á tölvuna þau forrit sem ég nota en síðan hefur litlu verið bætt inn. Þó hef ég tekið eftir að hávaði frá henni hefur ágerst seinustu vikur. Í gær var ég að reyna að taka upp söng en það var gersamlega ófært. Það var eins og teppahreinsivél væri í gangi.
Það var kominn tími á að hreinsa hana.
Málið með fartölvur er að þar sem loftflæðið inni í þeim er svo takmarkað þarf afskaplega lítið til að teppa það. Afleiðingin er sú að til að ná þeirri kælingu sem nauðsynleg er verður viftan að snúast hraðar, með tilheyrandi hávaða.
Ég opnaði því mína áðan og blés úr henni rykið. Ég klikkaði reyndar á að smella mynd af henni opinni, til að sýna hvernig útlits er innan í, en það var ekki mikið ryk sem þurfti til að teppa loftúttakið.
Varla getur þetta kallast mikið ryk, á alþjóðamælikvarða.
Reyndar hefur rykhnoðrinn eilítið þjappast saman í mínum meðförum, en hann dugði til að leggjast yfir ristina við lofttútakið, þar sem rykið náði ekki gegn um hana heldur safnaðist fyrir og teppti loftflæðið.
Svona lítur lofttúttakið út utanfrá. Koparristin fyrir innan er hluti af kælikerfinu og innan á hana safnaðist rykið.
Semsagt. Sé fartölvan ykkar orðin helst til hávaðasöm, er bara að opna hana. Það er lok undir sem er losað. Síðan er blásið utanfrá og rykið þyrlast út um opið þar sem lokið var. Svo er lokið sett á aftur og tölvan er hljóðlát sem aldrei fyrr.
Þessi pistill er skrifaður í algeru hljóði og kyrrð.
Föstudagur, 11. júlí 2008
iPhone 3G
Í dag mun Apple hefja sölu nýjustu græjunnar, iPhone 3G. Eins og áhugasömum ætti að vera kunnugt er græjan sú hlaðin tækninýjungum, s.s. enn betra og flottara bergmáli, nettengingu og möguleikanum á að senda textaskilaboð.
Tæknirýnar hafa gefið græjunni blendna dóma, en hverjum er ekki sama um það? Aðal atriðið er að hún lúkki vel og falli vel að sófaáklæðinu.
Biðraðir eftir nýrri græju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 10. júní 2008
Ný kynslóð iPhone
Apple kynnti nýlega til sögunnar nýja gerð framleiðslu sinnar, iPhone. Mun nýja gerðin vera hlaðin tækninýjungum sem hin eldri hafði ekki. Þar má m.a. telja, myndavél og útvarp, sem og þann nýstárlega möguleika að geta sent svokölluð smáskeyti (SMS).
Notendur hér á landi hafa átt í erfiðleikum með eldri gerðina og hafa þurft að standa í allskyns hugbúnaðaruppfærslum og aflæsingum, reglulega. Nýja gerðin mun þó verða auðveldari viðfangs, því fréttir herma að framkvæma megi slíkar aflæsingar á mun auðveldari hátt.
Uppskriftin er eftirfarandi:
4 þurrkuð og mulin froskaeyru.
5 uglutár
2 tsk. meyjarhland
10 blöð alparósar. ATH. þarf að vera tínd á fullu tungli.
Þessu er hrært saman í skál og tækinu síðan velt varlega upp úr. Aðgerðin tekur ekki nema örfáar mínútur.
Verði ykkur að góðu.
Óvíst hvenær iPhone 3G kemur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sunnudagur, 8. júní 2008
IRC
Ég man þá tíð, er IRC (Internet Relay Chat) var fullt af lífi. Þá er ég að tala um íslensku rásirnar. Erlendar rásir eru flestar enn lifandi.
Ég kynntist IRC fyrst árið 1994. Ég hef reyndar aldrei endst þar lengi í einu en hef litið þar inn öðru hvoru gegn um tíðina. Nú virðist IRC (íslenskar rásir) hinsvegar vera orðið samansafn fólks í þagnarbindindi. Ég hef reyndar sjaldan básúnað mikið þar, en fylgst með umræðunum og tekið þátt, finnist mér umræðurnar áhugaverðar.
Ég hef prófað nokkrum sinnum í vetur að tengjast og verið tengdur í nokkra tíma í senn. Ég sé stóra breytingu á. Nú er fólk ekki lengur að spjalla á opnum rásum. Líklega er allt spjall bara prívat spjall, milli tveggja einstaklinga.
Ég prófaði að tengjast fyrir ca 2 tímum og opnaði 8 spjallrásir. Á þessum tíma hefur ekki kjaftur sagt rassgat, á opinni rás.
En svona fyrir þá sem ekki þekkja til er IRC spjallkerfi, sem á uppruna sinn á finnsku BBS (Bulletin Board Service) sem voru algeng áður en internetið varð almennt. Síðan komu Billi (Gates) & Co og bjuggu til MSN spjallforritið, sem hefur í raun þann eina kost umfram IRC að þar getur maður stjórnað hverjir geta spjallað við þig og hverjir ekki (contact list) en vantar opnar spjallrásir (spjallherbegi með mörgum notendum), sem IRC hefur.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 19. maí 2008
Eru leiðindin þess verð?
Var að fá símtal frá stóra bróður. Ertu ekki búinn að opna póstinn þinn? spurði hann. Ég leit á umslagahauginn á eldhússborðinu. Nei. Ekki nýlega svaraði ég. Hann spurði hvort ég hefði ekki fengið umslag frá HR. Jú, það víst. Ég opnaði það og las yfir. Einhver kynning á mastersnámi. Úff, þegar ég kláraði bé-essinn vorið 2004 var ég kominn með námseitrun. Gat ekki hugsað mér að setjast á skólabekk næstu 100 árin. Sér í lagi ekki í eitthvert þurrt akademískt nám eins og mastersnám. Ðökk, hvað ég hata þurr fræðilegheit.
Ætla samt að kíkja á kynningarfund með gamla. Ég á þó alveg eftir að sjá mig fara í þurrkunntulegt mastersnám. Fræðilegheit og annan viðbjóð. Maður veit þó aldrei sína ævi fyrr en öll er.
Tölvur og tækni | Breytt 20.5.2008 kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 27. febrúar 2008
Tell me something I don't know
Ég hef notað hottmeilinn öðru hvoru í 7 eða 8 ár. Oft hefur það gerst að ekki hefur náðst samband við póstþjóninn. Hvort það er vegna álags eða hann hefur verið niðri veit ég ekki, enda skiptir það mig engu. Útkoman er hin sama fyrir mig. Næ ekki sambandi. Man t.d. að sumarið 2004 fór hann í algera sultu.
bissniss as júsjúal
Milljónir gátu ekki opnað Hotmail | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt 28.2.2008 kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)