Færsluflokkur: Dægurmál

Mig rak í rogastans

Við lestur fréttar á Vísi.

Ég sem hélt að Þjóðleikhúsið hefði verið tekið í gegn fyrir fáum árum. Prímus motor í þeirri yfirhalningu var forsöngvari hljómsveitarinnar Kantstein, Árni arnarkló.

Svo kemur upp úr dúrnum að loka þarf pleisinu í tvö ár meðan skipt er um lampa í ljósamixernum, sem er þýskt ljósagerät af gerðinni Telefunken, árgerð 1959.

Hvar á ég að horfa á Kardimommudropana á meðan?

 


Að skilja ekki muninn á lögum og sið.

Ríkissaksóknari, Valtýr Sigurðsson, þrjóskast enn við. Viðhorf hans sem fram kemur í viðtengdri frétt segir allt um hvers vegna.

Krafan er ekki studd lögfræðilegum rökum, segir hann.

Það er nú einu sinni þannig að það eru ekki síst siðferðileg rök sem knýr fólk til afsagna. Siðferði þarf ekkert með lög að gera. Það eru engin lög sem meina Valtý að sitja sem fastast. Siðferðislega er honum þó ekki til setunnar boðið.

Hví er maðurinn ekki að skilja það?

Það er hverjum manni ljóst, utan ríkissaksóknara, að Eva Joly horfir á hina siðferðislegu hlið í þessu máli. Hún er ekki á horfa á lögin eða „lögfræðilega“ hluti. Enda snýst málið um trúverðugleika. Að rannsóknin sé trúverðug og án efasemda. Trúverðuleiki hefur ekkert með lög(fræði) að gera. Hann er 100% siðferðislegt mál.

Þetta er allt spurning um siðferðisleg rök. Lögfræðin hefur nákvæmlega ekkert með málið að gera.

En er þetta ekki nákvæmlega ástæðan fyrir að (pólitískar) afsagnir eru svo að segja óþekktar á Íslandi? Menn skilja ekki muninn á lögum og sið.


Í þessum töluðu orðum er einmitt í gangi annað mál, ónefnds sveitarfélags, þar sem oddvitinn vill ekki segja af sér þar sem, strangt til tekið, telji hann sig ekki hafa brotið nein lög. Þó sjá allir að siðferðisbresturinn er alger.


mbl.is Valtýr vill ráða Evu Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jákvæðar fréttir, mitt í bölmóðinum

Er ekki úr vegi að gefa rexinu og pexinu frí, eitt andarblik og líta heldur á hinar jákvæðu hliðar mannlífsins.

Gamalíel Allingham, gamalmenni, fagnaði afmæli sínu um helgina. Hann er annar tveggja breskra hermanna sem börðust í heimstyrjöldinni fyrri. Hann er jafnframt elsti maður Bretlands fyrr og síðar.

Hann fæddist árið 1796, eða skömmu áður en valdatími Viktoríu drottningu hófst. Þá er hann jafnframt sá eini eftirlifandi af stofnendum Vauxhall bílaverksmiðjanna.
Gamalíel og Glochester kórdrengirnir.

Fjölskylda Allingham fagnaði afmælisdeginum með honum ásamt starfsmönnum Vauxhall og buðu honum á tónleika kaþólska drengjakórsins í Glochester.

„Ég veit að félagar mínir hjá Vauxhall hafa löngum haft sérstakan smekk, en Þetta er yndislegt. Ég átti aldrei von á þessu,“ sagði afmælisbarnið við blaðamenn.

Við óskum Gamalíel að sjálfsögðu til hamingju með áfangann.


mbl.is Elsti maður Evrópu 113 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkjamenn í ruglinu

„Bandaríkjastjórn íhugar nú að setja Norður-Kóreu aftur á lista yfir þjóðir sem styðja hryðjuverk.“

„Nafn Norður-Kóreu var fjarlægt í október sl. í kjölfar þess að þarlend stjórnvöld hófu að taka kjarnkljúf í sundur. Þau hafa hins vegar framkvæmt nokkrar kjarnorkutilraunir síðan þá.“

 

Snillingarnir í BNA setja semsagt samansem merki milli virkjnar kjarnorku og hryðjuverkastarfsemi. Þá eru Bandaríkjamenn sjálfir væntanlega stærsta hryðjuverkaógnin?

Burt séð frá hvað fólki finnst um kjarnorkutilraunir norður Kóreu. Ætli þeir hafi ekki sama rétt og Bandaríkjamenn, eða hver annar, til virkjunar kjarnorku.

Nei, enn og aftur kemur í ljós að Bandaríki norður Ameríku telja sig lögreglu alheims og yfir aðra hafna.

Megið samt ekki misskilja mig. Mér finnst, ekki síður en ykkur, Kim Jong Il verulega halló. Illa klæddur og púkó.


mbl.is Bandaríkin aðvara N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengisfellingar

Stormur gengur nú í vatnsglasi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, yfir sakleysislegri auglýsingu.

Kona dressuð sem hjúkrunarfræðingur stendur framan við bíl. Bíllinn er það sem auglýst er.

Einhverjir siðferðisfasistar vilja kalla þetta klám. Döh. Ég er nú eldri en tvævetra og ef þeim finnst þetta vera klám ættu þeir að skreppa úr moldarkofanum og skoða heiminn aðeins betur.

Ímyndum okkur að í stað konunnar stæði þarna ungur maður í læknasloppi.

Væri þá einhver stormur? 


mbl.is Ósátt við auglýsingabækling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snilld

Það er vissulega ekki gaman þegar fólk brýst inn í hús annarra. Hvað þá til að hnupla.

Þetta mál fór þó vel fyrir þann sem fyrir innbrotinu varð.

Snilldin í málinu er að innbrotsþjófurinn sagðist ætla að hringja á leigubíl. Tær snilld.

Hinsvegar set ég fyrirvara við dómsúrskurðinn, að hinn dæmdi þurfi að greiða allan sakarkostnað. Ég spyr mig hve raunhæfur sá úrskurður sé. Hinn dæmdi, sem þekktur er fyrir afrek sín, flokkast ekki beinlínis í flokk þeirra sem slá lán sisona, eða eiga fjársjóði í bankanum.

Ég á þó eina mynd af mér, með honum í bakgrunni. Gerir vissulega myndina skemmtilegri en ella.

Krulli & Lalli Johns


Lama

Dalai Lama er á faraldsfæti. Nú í heimsókn hjá frændum okkar í Danaveldi. Vitanlega mótmæla Kínversk stjórnvöld, sem aldrei fyrr, að maðurinn skuli ekki vera heima hjá sér.

Ég þekki lítið til Dalai Lama. Hef bara heyrt að þetta sé hinn mætasti fýr, með hausinn og hjartað á réttum stað. Ég gæti meira að segja alveg hugsað mér að hlusta á hann, ef ég nennti því. Maðurinn virðist hokinn af reynslu og visku. Enda eldri en tvævetra.

Þó reyni ég, almennt, að forðast fólk sem kallast andlegir leiðtogar. Það er nóg af þeim á Omega.


mbl.is Mótmæla fundi með Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er nú öll skjaldborgin

Þegar menn reisa múra, til að halda öðrum úti, múra þeir sjálfa sig um leið inni.

Nú hefur ríkisstjórnin hafið byggingu hinnar margumtöluðu og margeftirlýstu skjaldborgar. Nú sér fólk loksins hvers eðlis sú skjaldborg er.

Múr umhverfis þjóðina.

Múr sem lokar úti; áhyggjuleysi, lífsgæði og velsæld. Múr sem lokar landsmenn inni, í fangelsi hækkandi skulda og hækkandi vöruverðs. Kaupmátturinn rýrður tvöfalt. Frá báðum áttum.

 

Vissulega er það rétt, að þegar að kreppir, fjárhagslega, þarf fólk að gera a.m.k. annað af tvennu. Draga úr útgjöldum og auka tekjur. Reyndar er yfirleitt auðveldara að draga úr útgjöldunum en auka tekjurnar, því tekjuaukningin felst í að búa eitthvað nýtt til. Hér er engin raunveruleg tekjuaukning á ferðinni. Reyndar fær ríkið fleiri krónur í ríkiskassann, en íslenska þjóðin er ekki að auka tekjur sínar því þessar tekjur eru jafnframt útgjöld fólksins sem myndar þjóðina sem á ríkið.

Fjármunir eru færðir úr hægri vasanum í þann vinstri (græna).

Standi ég frammi fyrir að þurfa að gera skurk í fjármálum mínum, byrja ég á að líta á útgjaldahliðina. Skoða hvort og hvar ég geti skorið niður. Ég byrja ekki á að seilast í vasa barnanna minna og skikka þau til að borga (meira) til heimilisins.

Þessi aðgerð er svolítið þannig, að mér finnst. Hví var ekki byrjað á niðurskurði?

T.d. á 600 milljóna króna sendiráðinu í Japan. Einhver hundruð milljóna mætti spara til viðbótar með fækkun (sameiningu) annarra sendiráða.

Þessi hækkun álaga er tíkallabissness. Hverju mun 10% hækkun vörugjalda á bifreiðar skila þegar bílasala er við alkul?

 

Ég var fyrr í dag að ræða við mann um lífsins gagn og nauðsynjar. Hann sagði eitthvað á þessa leið; Fyrst við höfum þessa ríkisstjórn, er ég hræddur um að aðgerðir verði ekki nógu markvissar. Ég svaraði; Þú meinar að þetta verði bara tíkallabissness?

Svei mér þá. Dagurinn ekki liðinn og maðurinn kominn á stall með Nortradamusi í mínum huga.

 

Í viðtengdu fréttinni segir; „Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessu eru áætlaðar samtals 4,4 milljarðar króna á ársgrundvelli, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 2,7 milljörðum.“

Skilji ég málið rétt eru brúttótekjurnar 4,4 milljarðar, en nettótekjurnar ekki nema 2,7 milljarðar. Væntanlega vegna einhvers kostnaðar sem þeim fylgir, í formi aukinna endurgreiðsna úr ríkissjóði.

Það þarf ekki mörg sendiráð til að ná þessarri upphæð. Sér í lagi ef útgjöld til varnarmála eru tekin með, ásamt mörgum öðrum óþarfa útgjöldum.

Síðast en ekki síst munu hækkanirnar hækka vísitölu neysluverðs um 0,5%. Sem munu auka skuldir heimilanna að sama skapi.

Þetta er nú öll skjaldborgin.

 

Minnir mig á það, að trommusettið í skúrnum myndi sóma sér vel á Austurvelli.


mbl.is Mælt fyrir hækkun gjalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími ákvarðana er kominn

Sagði Jóhanna af Örk eitt sinn.

Hún fundaði stíft með ráðgjöfum sínum síðdegis. Á fundinum voru, auk hennar;

Lord Joð.
Baron Gylfi der Barber.
Þór von Atwinnung.

Herráðið sem nú plottar um hvar skuli ráðast fram og hvernig skuli varist.


mbl.is Kominn tími ákvarðana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin endanlega lausn á kreppunni!

Jóhanna okkar forsætis segir róttækar aðgerðir þurfa til að ná íslensku samfélagi úr því harðlífi sem það býr nú við.

Eins og allir vita hafa vinstri menn oft verið kallaðir róttækir. Því ætti ekki að vera stórmál fyrir hana að koma róttækum aðgerðum í gegn. Svo ég tali ekki um Joð, sem er róttækari en hvaða rótarýklúbbur.

Jóhanna segist þó standa frammi fyrir erfiðustu ákvörðum ferils síns. Þá erum við að tala um tímabil sem nær allt aftur að Bee Gees, Boney M og Grease.

Vandi Jóhönnu liggur ekki í því að framkvæma, heldur að komast að hvað skuli framkvæma.

 

Þar kem ég með lausnina. Hina endanlegu lausn.

 

Í dag búa landsmenn við gjaldeyrishöft. Það er engin nýlunda. Íslendingar bjuggu við gjaldeyrishöft áratugum saman, allt fram á tíunda áratug síðustu aldar. Við ættum ekki að láta eins og þau séu endir alls. Íslendingar höfðu það ekki svo slæmt alla þessa áratugi þrátt fyrir þau.

Reyndar eru Kolkrabbinn og SÍS dáin drottni sínum, en en maður kemur í manns stað.

 

Lausnin er þessi:

1) Tökum aftur bankastjóra í guðatölu. Látum engan komast upp með óráðsíu og óþarfa lántökur nema þurfa að klæðast upp og lúta í gras. Kyssa skósóla bankastjórans.

2) Endurvekjum Sovétríkin og komum Bjössa aftur í blaðamannastarf á Mogganum. Íslendingar stórgræddu á kalda stríðinu. Göngum til samninga við þjóðverja um endurreisn Berlínarmúrsins.

3) Bönnum áfengisdrykkju á miðvikudögum, sem og sjónvarp á fimmtudögum og í júlí. Þórskaffi skuli jafnframt endurreist.

4) Síðast, en ekki síst. Hvað sem hver segir, móta auglýsingar tíðarandann ekki síður en þær endurspegla hann. Bönnum nýmóðins auglýsingar. Sér í lagi tölvugerðar. Tökum aftur upp svart/hvítar, illa leiknar auglýsingar.

Íslendingar er enn rosalega 2007 í hugsun. Við þurfum að gera íslendinga meira 1967-1977 í hugsun. Innleiðum að nýju auglýsingar með lélegum hljóð og myndgæðum. Það er meira 2009.

Hér eru nokkrar tillögur:

 

 

 

 


mbl.is Róttækar og erfiðar ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband