Færsluflokkur: Dægurmál

Firringarseti Íslands

Eins og venjulega flutti forseti Íslands tölu við setningu Alþingis. Meðal annars sagði hann að „að þótt margt megi sannarlega bæta í stjórnskipan landsins blasi engu að síður við sú staðreynd að stjórnarskráin sem þjóðin samþykkti við lýðveldisstofnun dugði vel þegar mest á reyndi.“

Hefur eitthvað reynt á stjórnarskrána? Nei. Það var jú kosið og that's it. Ekki persónukjör. Ekki eitt kjördæmi, með jöfnum atkvæðarétti þegnanna.

Það má svo sem alveg segja að reynt hafi á stjórnarskrána, að því leiti að kosið var samkvæmt henni, en að hún hafi dugað! Því fer víðs fjarri.

Erum við að tala um firringu eða algera firringu?


mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sykurinn er sætur

Já, blessaður sykurinn. Nú á að fara að skattleggja hann. A.m.k. þegar hann birtist í gosdrykkjum. Sykurfíklar verða því að beina neyslu sinni enn frekar að vínarbrauðum.

Annars finnst mér áhugavert að lesa önnur blogg, tengd þessari frétt.

Einn kunnur sjálfstæðisbloggari gagnrýnir þetta og kallar neyslustýringu, en gleymir þeirri staðreynd að hans eigin flokkur hefur verið duglegur við að sex- til sjöfalda verð á tóbaki seinustu 18 ár, sem part af lýðheilsulegri neyslustýringu.

Aðrir tala um skaðvaldinn sykur.

Ég ætla svo sem ekki að dásama sykur sérstaklega. Hann, eins og flest annað, er óhollur í óhófi. Þó býð ég mér og mínum börnum upp á sykraða gosdrykki þegar slíkt er keypt á mínu heimili. Mér dettur ekki í hug að bjóða þeim upp á allt E-rófið sem sykurlausu drykkirnir innihalda. Fyrir utan hve bragðvondir sykurlausu drykkirnir eru.

Varðandi sykur og tannskemmdir. Víst hefur verið sýnt fram á tengsl milli sykurneyslu og tannskemmda. Ekki ætla ég að mótmæla vísindalega fengnum niðurstöðum. Þó er málið ekki bara alveg svo einfalt. Inn í það spilar tannhirðan t.d. Eins eru önnur atriði sem valda tannskemmdum. T.a.m. bakflæði. Magasýrur eru ekki beinlínis bestu vinir tannanna. Ég hef horft upp á nammigrísi með fullkomlega heilar tennur meðan aðrir sem vart snerta sykur eiga fullt í fangi með að halda sínum heilum.

Kannski ætti heldur að skattleggja bakflæði.

 


mbl.is Sykrað gos skattlagt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kynlífshandbókin, Vinstri - hægri

Út er komin bókin „Vinstri - hægri“ eftir Sr. Kristinn Knútsson.

Kristinn, sem starfar sem kaþólskur prestur, segir mikla vöntun hafa verið á kynfræðslubók fyrir ógift fólk.

„Kolleggi minn í Póllandi gaf út kynfræðslubók fyrir gifta kaþólikka. Það var gott og gilt, en fullnægir ekki þörf markaðarins. Mikil þörf var á bók fyrir ógifta einstæðinga.“

Kristinn leggur áherslu á að ekki sé um djúphugsað fræðirit að ræða.

„Nei, þetta er ekki þurr lesning. Meira svona sjálfshjálparbók. Einskonar handbók.“


mbl.is Prestur gefur út kynlífshandbók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söngvarinn skælbrosandi

Alexander RybakAlexander Rybak, frá Noregi, þykir sigurstranglegur í €vrópusöngvakeppninni.

 

 

Alexander & PhillipKomnar eru upp spurningar um vanhæfi formanns rússnesku dómnefndarinnar. Formaðurinn, Philipps Kirkorov sem er poppstjarna þar í landi, bauð Alexander heim til sín um daginn. Sátu þeir og átu hrogn sem þeir skoluðu niður með brennivíni.

 

Hrognin brögðuðust ágætlega en brennsinn hefði mátt vera betur kældur, er haft eftir Alexander.


mbl.is Rybak hrifinn af Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég þarf ekki að japla á synfóníunni

Ég lofaði, að kæmist Jóhanna Guðrún ekki áfram myndi ég éta synfóníuhljómsveit.

Nú er ég sloppinn við það. Jóhanna Guðrún komin áfram.

Sellóin og kontrabassarnir hefðu verið auðveld máltíð, en verra hvað básúnur og fagott fara illa í mig. Svo ég tali ekki um óbó, sem valda mér verulegri magakveisu.

Áfram Jóhanna Guðrún.


Sellóát

Ég skal éta sellóið með honum Sigmari komist Jóhanna Guðrún ekki áfram.

Eftir að hafa hlustað á mörg lög, hver sum hljómuðu leiðinlegri og ver sungin en súr fretur, kom okkar kona og söng óaðfinnanlega. Enda ekki við öðru að búast. Stelpan hefur söngrödd engils og kann ekki að klikka.

Ég skal éta heila synfóníuhljómsveit, með stjórnanda, komist Yohanna ekki áfram.


Karl stendur upp fyrir konu

Sá merkilegi atburður átti sér stað um síðastliðna helgi að Karl Jafetsson stóð upp fyrir konu.

Atburðurinn átti sér stað á Hóteli Holti, hvar Félag aðila að samtökum aðila að aðildarsamtökum hélt árshátíð sína. Karl mun hafa boðið spúsu sinni, henni Guðnýju Grapes, með sér á fagnaðinn.

Hví Karl stóð upp fyrir spúsu sinni er spurningin sem nú brennur á landmönnum.

„Ég er bara alinn svona upp“ sagði Karl, aðspurður um málið. „Þegar kona annað hvort sest að borði ellegar stendur upp, standa karlmenn við sama borð upp. Þetta er siður sem ég lærði í uppeldinu.“

Aðra gesti staðarins rak í rogastans við atburðinn og áttu ekki eitt aukatekið orð, hvað þá endurtekið.

Karl hefur nú fengið sálfræðiaðstoð og boð á námskeið í íslenskri ókurteisi. Enda ekki vanþörf á.


mbl.is Karl stendur upp fyrir konu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrningarleið ógnar öllu lífi á jörðinni

„Bæjarstjórn Langanesbyggðar segir, að atvinnulíf og búsetuskilyrði á svæðinu sé ógnað ef fyrirhuguð fyrningarleið í veiðistjórn verði farin.“

Þetta er í takt við viðvaranir LÍÚ um sama mál.

Sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi sagði að innkölluðum veiðiheimildum yrði endurúthlutað á ný eftir nýjum reglum. Reglurnar yrðu því á þann veg, að mati LÍÚ og bæjarstjórn Langanesbyggðar, að veiðiheimildum yrði úthlutað eitthvert út í buskann í stað þess að þeim yrði úthlutað til þeirra sem vilja veiða.

Að því gefnu að veiðiheimildum yrði ráðstafað til andskotans og ömmu hans, er einsýnt að afleiðingarnar yrðu hræðilegar.

Þær yrðu  m.a:

Hitastig á jörðinni mun hækka upp úr öllu valdi.
Hungursneið mun hrjá allan hinn vestræna heim.
Leoncie mun flytja aftur til Íslands.
Kjarnorkurvetur mun ríkja næstu hundrað árin.
Vítiseldar munu brenna um alla Evrópu.
Framsóknarflokkurinn mun ná hreinum þingmeirihluta.

Það er því allt að vinna til að koma í veg fyrir slík ragnarrök sem fyrningarleiðin er.


mbl.is Fyrningarleið ógnar atvinnulífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samvinnuhreyfingin

„Ríkisstjórnin stefnir að því að hægt verði að taka upp persónukjör við næstu sveitarstjórnakosningar, sem fram fara á næsta ári.“

„Forsætisráðherra segist leggja áherslu á að málið verði unnið í samvinnu við alla þingflokka á Alþingi og Samband sveitarfélaga, og sagði að fljótlega yrðu kallaðir saman tengiliðir allra flokka og sambandsins.“

Ekki nema eðlilegt að vinna málið í samvinnu sem flestra. Þrátt fyrir að vinstri stjórnin sé ekki yfir gagnrýni hafin, frekar en annað og ýmsu megi finna að, er það þó mín tilfinning að þessi stjórn muni að mörgu leiti verða við þeirri kröfu landlýðs að efla lýðræðið. Leyfa hinum þingmönnunum að vera memm öðru hvoru. Þó sé ég ekki neinar drastískar breytingar aðrar verða strax, en hvert lítið spor í rétta átt er gæfuspor.

Annað en seinustu 18 ár, sem hafa einkennst af yfirgangi. 18 ára valtari sem valtaði yfir minnihlutann í krafti þingstyrks. Valtari sem var undirlægja formannsins og valtaði eftir hans vilja. Stjórnarandstöðuþingmenn voru varla mikið meira en áheyrnarfulltrúar í 18 ár. Alþingi var bara formlegt afgreiðslubatterí valtarans. Vonandi tilheyrir sá fasismi fortíðinni.

Það er nefnilega einu sinni þannig að farsælustu niðurstöðurnar fást þegar sem flestir sem málin varðar fá að koma að borðinu og koma sínum málum að. Fólk finnur málamiðlanir. Enginn þvingar neinn til neins, af því pabbi hans er sterkari. Enginn fær allt sem hann vill og allir verða jafn sáttir/ósáttir.


mbl.is Persónukjör á næsta ári?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ritari VG kvartar yfir karlaslagsíðu í ríkisstjórninni

Svo hljómar fyrirsögn fréttar á Eyjunni.

Þar er vitnað í Sóleyju Tómasdóttur, ritara Vinstri grænna. Hún greinir frá óánægju innan þess flokks með kynjaföll nýja (endurunna að mestu) ráðherraliðsins. Í ríkisstjórninni sitja sjö karlar á móti fimm konum.

Almennt séð gæti mér ekki verið meira sama um hver kynjahlutföll í ríkisstjórn eru, eða á Alþingi. Helst vildi ég sjá fagmann í hverjum stól. Þá gildir einu hvort það er kona eða karl.

Hins vegar get ég verið sammála Sóleyju í þetta sinn. Hví skyldi það vera?

Jú, í ríkisstjórninni sitja einungis tveir ráðherrar, skipaðir vegna þekkingar sinnar. Restin eru flokksgæðingar, sem fá stól í krafti atkvæða á bak við sig sem þingmenn. Þetta er sjálfsagt ágætasta fólk, en óttalegir njólar sum hver sem hafa ekki meiri þekkingu á málaflokkunum en görn mín.

Þess vegna hefði allt eins mátt skipa jafn marga njóla af báðum kynjum. Það hefði svo sem engu breitt, en hefði haldið sumum í rónni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband