Föstudagur, 20. mars 2009
Skattur.is
Áður en ég hef blammeringar um skattmann og félaga vil ég að það komi fram að frá því rafræn framtöl komu fram (1997 eða 1998) hefur margt batnað. Reyndar fær skattmann alveg sérsmíðað eðalprik fyrir að hafa boðið upp á rafræn framtöl í öll þessi ár. Ég hef frá fyrsta degi nýtt mér þá leið.
Núorðið þarf maður varla að fylla út neitt, nema maður hafi sýslað með fasteignir, hlutabréf eða annað.
Alla jafna er ég ekki að sýsla með slíkt. Þó kom til að smá hlutabréfafargan og fasteignafargan átti sér stað í fyrra. Nú þarf ég að telja það fram.
Fasteignafarganið er tiltölulega blátt áfram. Hinsvegar tókst mér ekki að sjá, á blaði 3.19, hvernig ég setti upp sölu hlutabréfa. Virtist bara að hægt væri að skrá kaup þeirra.
Því hringdi ég í aðstoðarsímann, sem gefinn er upp á síðunni. 511 2250. Átti svo sem ekki von á að einhver væri við, svona á föstudagskvöldi. Átti samt ekki von á þessu:
Ég náði ekki ad taka upp fyrstu sekúnduna, en það skiptir ekki öllu.
Skondið að maðurinn vísar á síðuna. Sömu síðu og ég fann enga hjálp á og ákvað því að hringja.
En hlustið á röddina.
Annað hvort hefur maðurinn enga nennu í að tala í símann og/eða grafinn hafi verið upp leiðinlegasti maðurinn innanhúss.
Mér rétt tókst að halda mér vakandi, þessar tíu sekúndur sem símtalið tók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. mars 2009
Jahhá, þaðernebblegaþað
Víst er það rétt, að fólk gerir mistök. Grunngildi gera ekki mistök heldur fólkið sem setur þau.
Fólk getur klikkað í að fara eftir grunngildunum. Gert mistök. Fólk getur líka haldið grunngildin í heiðri, en samt klúðrast allt.
Hvar liggja þá mistökin? Varla hjá þeim sem fylgdu grunngildunum. Þeir gerðu allt eftir bókinni.
Ekki grunngildin sjálf, því þau gera ekkert, heldur segja aðeins til um hvað skuli gera eða gera ekki.
Þá stendur eftir, fólkið sem setur grunngildin. Hver setur grunngildi Sjálfstæðisflokksins? Eru það VG, Samfó eða Framsókn?
Varla.
Eru það ekki Sjálfstæðismenn sem gera það?
Jú. Lá það ekki í augum uppi allan tímann? Þurfti langtíma nefndarsetu, með tilheyrandi vínarbrauðaáti, til að komast að því?
Hver er svo lausnin? Við höfum tvo möguleika, því fyrir liggur að fólk gerði mistök en grunngildin ekki.
a) Þótt grunngildin bregðist ekki, geta þau hinsvegar verið arfavitlaus, en þá eingöngu vegna þess að þeir sem settu þau eru/voru arfavitlausir.
b) Svo getum við haft allsendis sallafín grunngildi, en þeir sem fara/fóru eftir þeim eru/voru arfavitlausir.
Munum, að fyrir liggur að fólk brást en grunngildin ekki. Því koma ofantaldir möguleikar einir til greina.
Þá má af því leiða að séu arfavitlausum grunngildum fylgt á óvitlausan hátt verður útkoman afravitlaus. Að sama skapi má leiða út að séu óvitlausum grunngildum fylgt á arfavitlausan hátt verður útkoman líka arfavitlaus.
Hmmm, hvernig getum við þá fundið okkur rök fyrir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn ef útkoman verður alltaf arfavitlaus, sama hvað? Þetta ætlar að verða flókið.
Prófum að setja þetta upp í Sjálfstæðisjöfnuna:
Mínus framan við breytu táknar að hún er arfavitlaus. Annars er hún óvitlaus.
G = Grunngildi.
F(G) = Framkvæmd grunngilda.
S = Sjálfstæðisstefnan (útkoman).
þá er valkostur a á þessa leið:
S = F(-G) (útkoman er -S, sem er arfavitlaus).
Valkostur b yrði á þessa leið:
S = -F(G) (útkoman er -S, sem er arfavitlaus).
Til að fá jákvæða útkomu þarf annað tveggja að breytast. Neikvætt G verður að verða jákvætt, eða Neikvætt F að vera jákvætt.
Miðað við upptalningarnar í fréttinni, um hverju sé um að kenna, virðist nefndin telja að framkvæmd grunngildanna hafi klúðrast ( -F(G) ). Hins vegar mátti skilja á fv. forsætisráðherra okkar að allt hafi verið gert samkvæmt bókinni. Sama má segja um Hólmstein. Hólmsteinn telur reyndar líka að grunngildin séu góð og gild, en það er annað mál.
Alla vega. Að því gefnu að grunngildin séu óvitlaus verða Sjálfstæðismenn að skipta algerlega um fólkið sem framfylgir þeim, þar sem fyrir liggur að fólkið sem hingað til framfylgdi henni gerði það á arfavitlausan hátt. Hinsvegar má ekki greina slíkt í úrslitum undanfarinna prófkjöra þeirra. Sjóður 9 meira að segja sigurvegarinn í borginni.
Þá er eina von þeirra, sem af gömlum vana vilja kjósa flokkinn, að grunngildin séu arfavitlaus og fólkið muni framvegis fylgja þeim með arfavitlausum hætti. Tvöföld neitun vegur sjálfa sig upp.
Þá má fá -F(-G) = S. Þá getur Hólmsteinn haldið áfram gasprinu um gróðann og grillið og allt í gúddí.
![]() |
Fólkið brást, ekki stefnan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.3.2009 kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 20. mars 2009
Niðurfelling skulda. Hver skal njóta vafans?
Hugmynd framsóknarmanna, sem Tryggvi Þór Herbertsson hefur einnig talað fyrir, hefur hlotið dræmar undirtektir ráðamanna, vægast sagt. Í morgunblaðinu í dag fjallar viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, um hana. Ég hef ekki lesið téða grein en samkvæmt útdrættinum sem visir.is birtir, má þar vel greina háð.
Hafandi lesið þennan útdrátt hefur styrkst sú tilfinning mín, að helsta ástæða þess að menn setji sig á móti hugmyndinni sé sú að einhver, sem ekki hefur þörf fyrir niðurfellingu skulda, muni hagnast. Í því ljósi hafa menn sagt hugmyndina óréttláta.
Gylfi tekur dæmi af Tryggva, Þór og Herberti. Í dæminu gefur Gylfi sér þær forsendur að Þór nýtist ekki 2ja milljóna niðurfelling skuldar sinnar. Hann fari í gjaldþrot hvort eð er. Á sama tíma græði Tryggvi 2 milljónir, sem skuldeigandinn, Herbert, tapar. Síðan klikkir Gylfi út með að nefna að Tryggvi ætli að kaupa sér vélsleða eða mótorhjól fyrir gróðann.
Að því gefnu að hugmyndin um 20% niðurfellingu skulda yrði að veruleika mun vissulega einhverjir hagnast og einhverjir færi hvort eð er á hausinn. Hinsvegar mun mörgum fjölskyldum og einstaklingum verða bjargað frá þeim harmleik sem gjaldþrot er.
Hver skal njóta vafans?
Það er einhverskonar eitur í beinum sumra að hugsanlega geti einhver hagnast og þá sé betra að einhver annar blæði, til að koma í veg fyrir það.
Í dæmi Gylfa verða 10 milljóna skuldir að 8 milljónum. Fyrir þorra fólks þýðir það lækkun mánaðarlegra greiðslubyrðar um ~10 þúsund kall. Munar marga um minna. Þar sem líklega megi gera ráð fyrir að skuldir fólks séu tvöfalt hærri en það, þýðir það annan 10 þúsundkall á mánuði. Prófið að reikna fyrir ykkur sjálf. Kannski munar Gylfa ekki um 2 millur til eða frá, en mig myndi muna verulega um þann 20 þúsundkall sem þetta myndi spara mér.
Ég vil setja fram mitt eigið dæmi af þeim bræðrum, Gylfa og Magnúsi. Gylfi er í góðum málum og á ekki í vandræðum með að greiða af sínum skuldum. Magnús hinsvegar, hangir á horriminni. Hann rétt nær að láta enda ná saman og þarf annað slagið að ýta reikningum undan sér milli mánaða. Að öllu óbreyttu er það ekki hvort, heldur hvenær, þeim leik lýkur með gjaldþroti.
Gylfi græðir ekkert, en Magnús fer í gjaldþrot.
Einn góðan veðurdag ákveða stjórnvöld að afskrifa 20% af skuldum þeirra beggja.
Eftir það er Gylfi í betri málum og Magnúsi tekst að ná endum saman, án þess að þurfa að geyma reikninga milli mánaða. Hvílíku fargi sem af honum er nú létt. Ekki síst andlegu fargi.
En nei. Það að Gylfi verði í betri málum má alls ekki. Þá er betra að Magnús fari á hausinn.
Er það virkilega þannig sem sósíaldemókratar hugsa? ööhh, ríkisstjórnarflokkarnir vilja jú kenna sig við þá stefnu, er það ekki? Ég hef hingað til flokkað mig sem sósíaldemókrata, en ég kæri mig lítið um félagsskap fólks sem hugsar á þann hátt sem ríkisstjórnin virðist gera.
Fyrir mér er þetta sama og að af tveimur slæmum kostum er sá verri, að saklausum manni sé refsað en að sá seki sleppi. Stjórnvöld vilja hinsvegar setja þá báða inn, svo þeim seka verði nú allavega örugglega refsað.
Menn vilja heldur fara sértækar leiðir, sem alltaf munu skilja einhverja útundan sem þurfa á leiðréttingunni að halda, en lenda utan rammans. Er það réttlæti?
Eins og einhver hefur kannski tekið eftir að ofan, setti ég orðin tapar, gróðann og hagnast, innan gæsalappa. Ástæðan fyrir því er sú að sé niðurfelling skulda framkvæmd sem handvirk lækkun á vísitölu til verðtryggingar, er í raun enginn sem hagnast né tapar. Þá er hagnaðurinn í raun aðeins sá að sleppa við aukin útgjöld og tapið í raun bara það að missa af hagnaði. Svona eins og að eiga miða í happadrættinu og fá milljónavinning, hafandi gleymt að endurnýja. Ekki raunverulegt fjárhagslegt tap.
En allavega. Gylfi, úr dæminu mínu, mun allavega halda áfram að græða á daginn og grilla á kvöldin. Spurningin er bara sú hvað Magnús muni gera á daginn. Gleðjast eða gráta áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 20. mars 2009
Í Ésú nafni
Klerkur með margt fyrir stafni.
Í góðu allt, ef það er gert
af Gunna, í Ésú nafni.
![]() |
Sóknarprestur sýknaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 20. mars 2009
Hve margir þurfa að deyja
Aþjóðasamfélagið er ekki tilbúið að horfast í augu við, að það sem Ísraelsmenn eru að gera Palestínu-aröbum er í litlu frábrugðið þeirri meðhöndlun sem gyðingar hlutu í þriðja ríkinu.
Við skulum ekki missa okkur alveg þó. Einhver myndi spyrja hvort útrýmingarbúðir væru starfhæfðar í Ísrael.
Nei, svo er ekki. En níðingsskapur gegn gyðingum, í þriðja ríkinu einskorðaðist ekki við útrúmingarbúðir. Hann hófst formlega á nótt hinna löngu hnífa, árið 1934. U.þ.b. 8 - 10 árum áður en útrýmingarbúðirnar voru stofnsettar.
Þau 8 - 10 ár máttu gyðingar í þýskalandi búa við fyrirlitningu og smán. Konum og stúlkum nauðgað, án þess að neitt þætti sakhæft við það. Tíu ára kúgun og undirok, áður en gasklefarnr komu til sögunnar.
Sama ástand ríkir nú á Gaza og vesturbakkanum. Engir gasklefar. Nei. En ástandið svipað og var fyrir gyðinga á fjórða áratugnum í Þýskalandi.
Nauðganir, yfirgangur og annað ofbeldi.
![]() |
Ísraelar frömdu voðaverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 18. mars 2009
Um Ísrael og Dolla
Var að horfa á þátt BBC um Gaza-ástandið. Þátturinn vakti mig til umhugsunar.
Fram kom að almennir borgarar, sem leituðu skjóls í heimahúsum, urðu fyrir sprengum. Talsmaður ísraela afgreiddi málið á einfaældan hátt. Sagði að Hamas liðar hafi notað fólk sem mannlega skildi (human shield). Jafnvel þótt frásagnir þeirra sem í hlut áttu og voru svo heppnir að lifa af, lýstu öðru. Frekar einfald og órökstutt.
Einn Palestínu-arabi var spurður um ástæðuna fyrir því hver vegna Palestínu-arabar berjist gegn ísrael. Svar hans var einfalt og í fullkomnu samræmi við það sem margir aðrir hafa haldið fram að sé ástæða ástandsins þarna niðurfrá. þeir stálu frá okkur landinu.
Nákvæmlega það sem málið snýst um.
Árið 1948 var alþjóðasamfélagið uppfullt af samúð í garð gyðinga, eftir helför nasista. Hugsunarlítið (eða hugsunarlaust) var landi stolið að fólkinu sem þá bjó í Palestínu, til handa aðfluttum gyðingum (sem áttu bágt). Með tíð og tíma stækkuðu gyðingarnir yfirráðasvæði sitt, ekki síst í skjóli Bandaríkjamanna og gyðinganna sem þar ráða leint og ljóst.
Aðrar heimildarmyndir hafa sýnt hvernig ísraelskir hermenn ryðjast inn á heimili Palestínu-araba og halda þar fyrir tímum eða dögum saman.
Svona er fólki ekki bjóðandi.
Ég fyrirlít aðferðir Dolla & Co, en á aðferðum þeirra og aðferðum ísraelsmanna í dag er enginn eðlismunur. Það er stigsmunur en ekki eðlismunur.
Smá pæling. Hefði Dolli verið uppi í dag. Hefði hann komist upp með sín þjóðarmorð? Kannski hefði hann búið við botn Miðjarðarhafs?
Þriðjudagur, 17. mars 2009
Algaula
Þeir sem muna eftir skífusímum, Þjóðviljanum og sjónvapslausum júlí eiga það sameiginlegt að vera a.m.k. hálfnaðir í háa elli. Einn þeirra er Óðríkur Jónsson.
Óðríkur val stofnandi og helsti forsprakka Óðmanna. Hljómsveitar sem starfaði á öldinni sem leið og náði nokkrum vinsældum. Eftir að Óðmenn slitu samstarfi sínu hefur Óðríkur starfað sjálfstætt, sem gaulverji.
Þetta er bévítans hark segir Óðríkur um starfið. Svona eins og vera við staurinn að reyna að verða sér úti um verkefni. Þó yfirleitt nóg að gera um helgar.
Gaulverjar stunda þó ekki lifandi gaul eingöngu, heldur gefa þeir út líka. Nýverið sendi Óðríkur einmitt frá sér sinn fimmtánda disk, Algaula.
Það er orðið þannig með útgáfuna líka, að það er ferlegt hark. Öllu stolið frá manni. Þess vegna ætla ég að hætta þessu segir Óðríkur.
Eins og lesendum er kunnugt hefur Óðríkur gefið út harorða yfirlýsingu, þar sem hann vandar netnotendum ekki kveðjurnar.
Þegar blaðamaður benti Óðríki á að almenningur greiði öll gjöld fyrir niðurhalið, þegar það kaupir sér tóma geisladiska eða mp3 spilara, til dæmis, glottir Óðríkur og skellir að lokum upp úr.
Hahahahaha!! Þetta svínvirkaði hjá mér! Vagtna maður, vagtna! Ég varpaði bara þessari bobu til að plögga mig og plötuna mína!
Já, gamli refurinn kann sitt fag.
![]() |
Bubbi hótar að hætta útgáfu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 14. mars 2009
Kristinn íhugar að beyta hefðarréttinum
Fréttaskýring.
Helgin er hlaðin alls kyns prófkjörum. Bændaflokkur Íslands sem í daglegu tali kallast Framsóknarflokkur, hversu réttnefnt það er, lét fara fram prófkjör sitt í norðvesturkjördæmi í kvöld.
Sigurvegari prófkjörsins var Gunnar B. Sveinsson, bóndi. Athygli vakti að Kristinn H. Gunnarsson, ekki-bóndi, hafnaði í neðsta sæti.
Kristinn er mjög reyndur frambjóðandi og þingmaður. Hefur hann meðal annars starfað innan margra flokka, s.s. gamla Alþýðubandalagsins, Frjálslynda flokksins og Framsóknarflokksins.
Krepputíðindi náðu sambandi við Kristinn og spurðu hver vibrögð hans yrðu.
Það er erfitt að segja. Vinstri grænir hafa þegar valið sitt fólk segir Kristinn. Fyrir utan þann flokk á ég Sjálfstæðisflokkinn eftir. Kannski mér takist að skjóta mér þangað inn fyrir hádegi á morgun.
Það er ljóst að flokksmenn Bændaflokksins vilja skipta um fólk. Er mál manna að sauðfjárbændur, sem hafa verið allsráðandi, muni nú víkja fyrir kúabændum. Kristinn, sem lendir utan þeirra skilgreininga sem ekki-bóndi, vill kenna því um.
Nú er málið að kasta teningunum. Hvert skal halda? Verður það Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir. Mér skilst einnig að flokkur mannsins hafi ekki enn haldið prófkjör.
Ef ekki vill betur mun ég fara fram á þingsæti í ljósi hefðarréttarins og mun fara með það fyrir dómstóla.
![]() |
Fyrst og fremst þakklátur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 04:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 12. mars 2009
Gólfið hlýnar hratt
Vísindamenn heimsins eru nú samankomnir í Randers, á Jótlandi. Þar leita þeir leiða við að leysa vandann um hlýnun jarðar.
Meðal þeirra er hinn íslenski Guðbrandur Guðmundsson.
Í símaviðtali segist Guðmundur vel skilja viðhorf breskra og þýskra. Enda þurfi þeir að kynda með gasi.
Ég sagði þeim frá heita vatninu okkar. Þeir pissuðu næstum á sig af spenningi og hrifningu.
Ég sagði þeim líka að hiti sé nú ekki sérlegt vandamál á Íslandi. Alltaf væri hálf kalt í stofunni minni. Það væri hinsvegar vegna þess að bílskúrinn undir henni væri yfirleitt ókyntur. Ég sagðist jafnframt hlakka til hlýrra veðurs af völdum heimsvolgnunar.
Þá var ég bara barinn í buff.
Guði og ésú sé lof ég minntist ekki á hvalveiðar.
![]() |
Jörðin hlýnar hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. mars 2009
Tilkynnt um siðrof
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa tilkynnt að lýst verði yfir þingrofi á morgun. Nokkur samstaða mun vera um málið á þingi, meðal allra flokka nema Sjálfstæðisflokks.
Sjálfstæðisflokkur vill heldur lýsa yfir siðrofi og hefur lagt sitt fram um að efla það málefni, síðustu daga.
Mál manna mun vera að Joð sé hreinn byrjandi þegar kemur að málþófi og gapuxaskap. Svo mikið hafi Fúsi froskagleypir og félagar tekið honum fram undanfarna daga.
Stjórnmálaskýrendur telja rökrétta skýringu vera á málinu. Sjálfstæðisflokkurinn hafi öðrum fremur staðið í stafni er kemur að siðrofi og því eðlilegt að flokkurinn vilji halda sig við það.
Ekki er þó útlit fyrir að flokkurinn fái málinu framgengt.
Jafet Jónsson, geðlæknir, vill þó að könnuð verði geðhvörf almennings, enda einsýnt að stór hluti landsmanna þurfi hjálp.
Skoðanakannanir sýna að u.þ.b. fjórðungur landsmanna muni kjósa Sjálfstæðisflokkinn segir Jafet.
Það er greinilegt að fleiri en við töldum fíla að láta flengja sig og svívirða. Íslenska þjóðin er greinilega að fjórðungs hluta kinky.
Spank me baby! Spank me! segir Jafet og er rokinn á braut.
![]() |
Tilkynnt um þingrof á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |