Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 21. ágúst 2008
Talað með rassgatinu
Var að spökúlera aðeins í þættinum hans Stormskers, hvar hann talaði við Guðna Ágústsson, sem býr í Selfossborg.
Tek nánari púls á því síðar, en ég hjó eftir að maðurinn [Guðni] talaði sérkennilega að mér fannst. Ekki að röddin væri öðruvísi, heldur meira hvað kom út úr honum. Varðandi landbúnað þá sérstaklega.
Ég er t.d. ekki að fatta hvernig Nýsjálenskt kjöt, 50% ódýrara en íslenskt, getur verið dýrara fyrir almenning
Hver er að tala með rassgatinu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 17. ágúst 2008
Blogg
Fólk er alltaf að blogga um einhvern fjandann. Það er allt frá því að blogga um eigin vörtur, í að blogga um kýli í borgarstjórninni.
Allt gott um það að segja.
Sumir hafa þörf fyrir að tjá sig um vörtur, kláðamaur, sinadrætti, harðsperrur og njálg. Þannig er það bara.
Ég ætla ekki að blogga um neitt slíkt.
Hefur einhver spáð í hvað 'ekkineitt-ið' er magnþrungið?
Nei ég ætla að blogga um ekki neitt. Ég ætla ekki að blogga um neitt. Ég ætla að blogga um ekkert.
Hér er ekki (andskotans) blogg. Hér er röfl. Hér er tuð. Hér er nöldur.
Hér sé fjas
Höfum í frammi fjas, því fjas er til framdráttar.
Þessi færsla er í boði Össurs. háeff-esseff
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 14. ágúst 2008
Snilldar framtak!
Það getur verið stuðandi að finna ekki laust stæði á bílaplani og sjá á sama tíma hvar bílum er svo illa lagt að þeir taka tvö stæði eða jafnvel þrjú (já, hef séð það).
Einhver óþekktur í húsinu sem ég vinn í er sko að standa sig. Þegar ég mætti í vinnuna tók ég eftir bíl sem var mjög illa lagt. Enfremur tók ég eftir miða á afturrúðunni. Ég hefði gjarnan viljað eiga hugmyndina, en svo er ekki. Sá eða sú sem á heiðurinn af þessum miða er snillingur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Sunnudagur, 10. ágúst 2008
Fólk
Það var einmitt það sem blasti við okkur dóttur minni. þegar við kíktum í miðbæinn í gær. Fólk. Allskonar fólk. Eins misjafnt og það er margt. Fólk með mismunandi skoðanir, smekk og lífsviðhorf. Þó er eitt sem það á sameiginlegt, hvort með öðru sem og með mér og dóttur minni. Öll finnum við meira og minna sömu tilfinningarnar. Þess vegna erum við í raun meira og minna eins þótt við séum ólík.
Ég skaut þó nokkuð mörgum myndum af fólki í gær. Hér eru nokkrar útvaldar.
Svo var kíkt á Pallaball. Þar var líka fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 8. ágúst 2008
Hin íslenska helgislepja
Úff. Íslansku fánalögin. Ein helgislepjan enn. Það er makalaust hve helgislepja er rík í íslendingum.
Tökum jól og páska sem dæmi. Þessi þjóð sem er líklega með ókristnari kristnum þjóðum. Þjóð sem hefur meiri áhuga á álfum, draugum, stokkum og steinum, en Ésú og Co. Nei nei, svo koma þessar svokölluðu stórhátíðir. Þá má enginn dansa og helst eiga allir að leggjast í kör og hlusta á englakóra. Allt samkvæmt yfirlýstum og úr sér gengnum staðli þjóðkirkjunnar.
Fyrir mér er þetta fánadæmi svipað. Fólk er ekki ýkja upptekið af fánanum. Einstaka fólk flaggar honum á 17. júní, búi það svo vel að eiga fánastöng. En nei. Það má sko alls ekki nota þetta þrílita léreftslak á annan hátt nema með þinglýstu samþykki ráðuneytis, í þríriti.
Að gera fánann svo heilagan samsvarar því að gera sjálfan sig heilagan. Taka sjálfan sig of hátíðlega.
Lítum á Bandaríkin. Líklega sú þjóð sem er hvað uppteknust af fánanum sínum. Endalausar fánaserimoníur þar á bæ. Þó virðast þeir lausir við þessa fádæma helguslepju varðandi fánann, þótt þeir játi honum hollustu og ég veit ekki hvað.
Það er nefnilega engin óvirðing í því fólkin að prýða sig eða föt sín með fánanum eða litamynstri hans. Það er, þvert á móti, virðing. Það er ekki mikil virðing við fánann að nota hann (svo til) aldrei.
p.s. ég þori ekki fyrir mitt litla líf að setja inn mynd af fánanum. ég gæti lent í gúlaginu fyrir vikið.
![]() |
Nærbuxur í fánalitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Fimmtudagur, 7. ágúst 2008
Vond kaup og góð
Við, ég og föðurbetrungarnir, kíktum á þetta tívolí sem staðsett er á baklóð álversins í Straumsvík, eða þar um bil. Ætluðum í fyrradag, en komumst að því að ekki er hægt að greiða með kortum þar og næsti hraðbanki einhversstaðar lengst í rassgati. Gerðum annað í staðinn en kíktum þangað aftur í gær, eftir að hafa orðið okkur úti um skotsilfur.
Það er lítið um þetta blessaða tívolí að segja annað en við vorum einróma á þeirri skoðun að það ætti fyllilega skilið titilinn glatað. Fyrir utan að vera fátæklega tækjum búið er verðlagningin út úr kortinu. Hver miði, í tækin, kostar tvöhundruðkall og í tækin kostar þrjá miða. Ok, það má veiða tuskudúkkur fyrir tvo miða!
Ég man þegar við fórum síðast, í fyrra eða hitteðfyrra. Þá kostaði miðinn aðeins hundrað krónur. Enda var hægt að fara í þó nokkuð mörg tæki fyrir fimmþúsundkallinn. Núna tók u.þ.b. tuttugu mínútur að spandera tvöþúsundkalli. Það var ekki áhugi, hvorki hjá mér né krökkunum, á að eyða meiri pening í þetta okurdæmi. Held menn hafi skitið langt yfir strikið í verðlagningunni.
Í fyrsta skipti, svo ég muni, kom upp sú hugsun hjá mér að ódýrt væri í bíó. Þar fær maður þó níutíu mínútur fyrir þúsundkallinn.
Þessi tívolíferð var semsagt, vond kaup. Fórum og fengum okkur burrito á heimleiðinni. Það voru góð kaup.
Svo þurfti ég að koma við í Hagkaup, að versla hleðslurafhlöður. Komum við í Smáralindinni. Þar rak sonurinn augun í geisladisk. Gömlu góðu útvarpsþættirnir með spæjurunum Harry og Heimi. Þættirnir Með öðrum morðum. Þegar ég frétti af útgáfu þessa disks, í vor, var ég staðráðinn í að kaupa hann. Svo bara gleymdist það. Snillingurinn, sonur minn, sá diskinn og stakk upp a að kaupa hann. Það var og gert. Það voru mjög góð kaup.
Hlustuðum á fyrstu þrjá þættina í gær og í kvöld verður haldið áfram.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Snillingurinn, dóttir mín
Hún er snillingur, dóttir mín. Genin, sjáið til
Hún hefur verið að læra á píanó í tvö eða þrjú ár og það liggur vel fyrir henni.
Ég hef átt forláta gítar í fjölda ára. Hún hefur ekki sýnt honum sérstakan áhuga hingað til, en spilar og æfir sig reglulega á píanóið. Svo gerðist það í gær að hún tekur fram gítarinn og fer að fikta við hann. Í dag hefur hún meira og minna verið með hann í kjöltunni og spurt mig ýmissa spurninga. Hvernig hann sé stilltur og hvernig gripin eru.
Nú er ég einungis í mesta lagi fyllerísfær á gítar. Varla það, því þegar ég hef fengið mér í aðra tánna verð ég umsvifalaust ófær um að leika á hljóðfæri. Löngu hættur að reyna það líka í þannig aðstæðum.
Allavega. Hún spurði mig hvernig ég hefði lært á gítar (það litla sem ég kann). Ég lærði upphaflega með aðstoð gamallar bókar og ég sagði henni frá því. Ég gúgglaði því næst gítarkennsla og fékk fullt af misáhugaverðum síðum. Þó var ein sem var gaman að sjá. Síða gamals skólafélaga míns úr Iðnskólanum. Þar má sjá helling af gripum. Dóttirin hóf strax að skoða og æfa.
Þó fann ég fáar síður með lögum ásamt gítargripum. Að æfa sig á gítar er ekki bara spurning um að kunna gripin heldur ekki síst að æfa sig í að skipta milli gripa, spilandi lög.
Ég verð endilega að grafa eitthvað upp handa henni. Ég heyri það strax að gítarinn muni liggja jafn vel fyrir henni og píanóið.
Hún er ekki bara áhugasöm um þessa hluti eins og gamli. Hún hefur einhverja hæfileika sem ég hef ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. ágúst 2008
Eyjólfur
Margir leggja á sig að ferðast með Eyjólfi, eða Herjólfi til eyja. Ég þekki það ekki.
Fyrir sléttum tuttugu árum fór ég á þjóðhátíð í eyjum, um verslunarmannahelgi. árin á undan hafði ég farið í Þjórsárdalinn, hvar voru tvö svið og alltaf eitthvað í gangi utan milli sjö og átta eða átta og níu, að morgni. man ekki hvort var.
Árið 1988 fór ég til eyja. Við vinur minn flugum á staðinn og allt leit vel út í fyrstu. Komum á föstudagskvöldi. Tjölduðum og fórum á röltið. Sounded good. Reyndar var kvöldið ágætt.
Síðan vöknuðum við daginn eftir. Allt dautt. Ekkert um að vera í dalnum. Vestmannaeyingarnir farnir heim til sín og engin starfsemi á staðnum. Við vorum tilneyddir að labba inn í bæinn ætluðum við að hitta fólk. Reyndar var bærinn jafn steindauður og dalurinn. Fórum í einhverja pulsusjoppu.
Frekar glatað.
Mig hefur ekki langað á þjóðhátíð síðan.
![]() |
Búist við 10.000 í Herjólfsdal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 1. ágúst 2008
Kisikisikis
Ég er kattavinur. Reyndar hef ég ekki haft kött í ca 15 ár, en kettir eru þau dýr sem ég kýs að hafa nálægt mér ef einhver eru.
Einn bloggvinur minn er mikill kattavinur. Hjá honum sá ég link inn á aðra síðu þar sem lýst er eftir týndum ketti.
Þeir sem haft hafa gæludýr vita hve sárt er að missa þau. Ekki síst fyrir börn. Sjálfur kynntist ég því að týna kisunni minni, fyrir 17 árum síðan. Þá gekk ég um allt hverfið til að leita hennar. Auglýsti svo í Mogganum og fékk svar Hún var þá stödd í blokkaríbúð skammt frá. Konan þar hafði fundið hana á þvælingi og ákveðið að taka hana inn og fylgjast með auglýsingum í Mogganum. Hún var mjög hænd að mér, allt svo kisan. Hún var einungis hálfs árs gömul þá og er enn á lífi, orðin 17 ára. Gömul og guggin en alveg yndisleg sál. Yndisleg kisa. Hennar löggilta heiti er Viktoría (já, stórt nafn), en gekk undir ýmsum nöfnum, s.s. hliðarkisa og kvikindi. Hún varð eftir í húsinu eftir að ég og síðan pabbi, fluttumst burtu. Ég sakna hennar, en alltaf gott að heyra fréttir af henni og vita að hún lifir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Sultublogg
Nú hefur Moggabloggið verið í tómri sultu síðan einhverntímann í gær. Reyndar er nú orðið hægt að blogga og lesa blogg, en víða vantar myndir. Þær koma væntanlega inn aftur, eða hvað? Allavega var því haldið fram að engin gögn hefðu tapast. Ég mun fylgjast spenntur með hvort mitt blogg fái sitt rétta útlit á ný. Var með bláá paprikuþemað ásamt eigin hausmynd. Nú er það orðið að appelsínuþema án myndarinnar. Hafi engin gögn tapast ætti allt að lagast, er það ekki?
Annars verður rík ástæða til að fjasa almennilega
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)