Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Föstudagur, 4. júlí 2008
Ný mannréttindastýra
Að tillögu ráðgjafanefndar, hvers meðlimir eru ónefndir, verður lagt til á næsta fundi borgarráðs að Anna Kristinsdóttir, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, verði ráðin mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar.
Sem kunnugt er fann Anna upp mannréttindin. Hefur hún hagnast vel á sölu leyfa til margra vesturlanda. Erfiðara hefur þótt að markaðssetja mannréttindi í löndum þriðja heimsins, sem og Kína og á Íslandi.
Fyrsta verk Önnu mun vera útgáfa kynningarrits um mannréttindi og gagnsemi þeirra. Eintökin munu verða tölusett og eintak númer eitt mun verða afhent Birni Bjarnasyni við hátíðlega athöfn.
Mælt með Önnu Kristinsdóttur í starf mannréttindastjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 2. júlí 2008
Úrskurður Óbyggðanefndar stendur
Íslenska ríkið var í Héraðsdómi Reykjavíkur sýknað af kröfu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Seltjarnarneskaupstaðar, Braga Sigurjónssonar, Orkuveitu Reykjavíkur og Þorsteins Hjaltested, um að felldur yrði úr gildi hluti úrskurðar Óbyggðanefndar í máli varðandi Stór-Reykjavíkursvæðið um þjóðlendu.
Eins og margir muna e.t.v. voru títtnefnd bæjarfélög og einstaklingar úrskurðuð sem þjóðlendur, enda þykir byggð innan þeirra vera svoddan ó-byggð. Það þýðir að ekki verður meira byggt í umræddum sveitafélögum nema með samþykki umhverfisráðherra. Sama á við um önnur afnot lands innan sveitafélaganna. Hvað varðar einstaklingana tvo, fer félagsmálaráðherra með úrskurðarvald um afnot af þeim.
Eiginkonur mannanna er um ræðir hyggjast ætla að höfða mál gegn ríkinu, þar eð þær telji sig hafa löggilda heimild, útgefna af þjóðkirkjunni, til óskertra afnota.
Úrskurður Óbyggðanefndar stendur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 26. júní 2008
Stefnir í verkfall
Stefnir Sigurðsson, fiskmatsmaður, hefur boðað verkfall frá og með mánudegi komi frystihúsið á Bíldudal ekki til móts við kröfur hans um lengingu kaffítíma. Kaffitímar í frystihúsinu eru tveir. Báðir fimmtán mínútna langir. Sá fyrri frá klukkan 09:45 til 10:00 og sá síðari frá 15:30 til 15:35. Stefnir hefur farið fram á lengingu hvors þeirra um sig um fimm mínútur.
Frystihússstjórinn á Bíldudal segir það af og frá að kaffitímar Stefnis verði lengdir og því stefnir allt í að Stefnir fari í verkfall eftir helgi.
Stefnir í verkfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 25. júní 2008
Íslendingar sakna Davíðs
Skoðanakönnun sem var birt í dagblaðinu Húsmæðratíðindi í dag bendir til þess að Íslendingar sakni þess tíma er Davíð Oddsson gegndi embætti forsætisráðherra.
Samkvæmt könnuninni, sem var gerð af SUS, telja þrír af hverjum fjórum að það hafi verið til hins verra er Geir H. Haarde tók við embætti forsætisráðherra.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar um tæp 6%
Geir naut mikils stuðnings er hann tók við embættinu af Davíð fyrir nokkrum árum síðan en síðan þá hefur fylgi flokksins minnkað jafnt og þétt.
Alls tóku 12 manns þátt í skoðanakönnun SUS.
Þegar fólk var spurt hverjar ástæður væru fyrir því að það kysi að fá Davíð aftur, voru algengustu svörin að það vantaði einhvern sem segði Svona gera menn ekki og að það vanti fóstru til að fylgjast með ríkisstjórnarsandkassanum.
Bretar sakna Blair | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 13. júní 2008
Nýtt móttökulag á slysadeild
Þeir sem hafa þurft að nýta sér þjónustu slysadeildar kannast við að hafa þurft að bíða ansi lengi eftir afgreiðslu. Á álagstímum hefur deildin ekki undan að sinna sjúklingum og því getur orðið þröng á þingi á biðstofunni. Það er því fagnaðarefni að með haustinu mun slysadeildin taka upp skemmtilega nýjung. Nýtt móttökulag.
Þorleifur Njálsson, sérfræðingur á slysadeild, segir þetta spennandi tilraunaverkefni. Það hefur gjarnan verið óbærilegt að vera á biðstofunni um helgar. Sérstaklega um nætur segir Þorleifur. Þá er saman komið fólk í alls kyns ástandi og hver að syngja sitt lag. Það vill verða eins og í fuglabjargi. Nú verður bara eitt móttökulag og mun harmonikkuleikari ávallt vera á staðnum, til undirleiks.
Fyrir valinu varð lagið Komdu í kvöld inn í kofann til mín. Það verður spennandi að sjá, er á reynir, hvort samsöngur hins nýja móttökulags muni stytta biðtímann eða í það minnsta stytta sjúklingum stundir.
Breytingar á slysadeild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 12. júní 2008
Skítalykt af málinu
Ég tel að það séu ekki margir hæfir til að fást við sjúkdóminn alkóhólisma, sem enga persónulega reynslu hafa af sjúkdómnum. Ég skal ekki fullyrða um að enginn sé það, en ég tel að það sé í undantekningartilfellum.
Svo ég haldi áfram að beturvitrast og án þess ég hafi einhverjar konkret tölur að vísa í, þá er það jafnframt mín tilfinning að allmargir, ef ekki flestir, þeirra sem starfa beint með sjúklingum hjá SÁA sé óvirkir alkar og þekki af eigin raun baráttuna við Bakkus.
Að sama skapi er eitthvað sem segir mér að hjá fyrirtækinu Alhjúkrun, sem er þjónustufyrirtæki á heilbrigðissviði sem útvegar hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða til heilbrigðisstofnana, fyrirtækja og einstaklinga séu óvirkir alkar ekki í meirihluta, ef einhverjir. Fyrirtæki sem er í raun bara starfsmannaleiga, eins og annar bloggari nefnir réttilega.
Hver er skýringin á að þeir sem ákvarðanavaldið hafa kjósi heldur að borga meira fyrir minna hæft fólk, en að borga minna fyrir hæfara?
Mér dettur t.d. í hug að ráðafólk hafi ekki hundsvit á alkóhólisma, ef heilbrigðismálum yfirleitt. Þeir virðast ekki heldur hafa vit á að leita ráðgjafar einhverra sem vit á þeim hafa.
Aðra skýringu hef ég heyrt. Ásta Möller.
Gagnrýnir að ekki var samið við SÁÁ um áfangaheimili | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 11. júní 2008
Bandaríkjastjórn heitir 10 milljónum dala
Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst yfir að hin ýmsu bandarísku fyrirtæki sem nú berjist í bökkum í Afganistan muni fá 10 milljónir dala aðstoð á næstunni.
Peningunum mun verða veitt gegn um hið opinbera kerfi Good will for good friends, sem hefur gefið góða raun fram til þessa. Að minnsta kosti 45 milljörðum dala hefur verið veitt gegn um kerfið frá árinu 2003 sem opinberlega hefur verið veitt til Íraka þótt í raun renni féð til bandarískra fyrirtækja, eða hverfi með öllu.
Frú Rice segist þess fullviss að milljónirnar tíu muni renna á rétta staði en ekki enda í einhverju félagslegu bulli, eða Some social crap eins og hún orðar það sjálf.
Sunnudagur, 8. júní 2008
Fullkomin eining
Bergmálstíðindi segja ekki bara fréttir, heldur er markmið þeirra ekki síst að skýra fréttir annarra miðla. Vöntun hefur verið á fréttaskýrendum á Íslandi, þar sem íslenskir háskólar hafa ekki boðið upp á BA nám í fréttaskýringafræðum.
Frétt dagsins eru oddvitaskipti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti ítarlega frétt um málið, með tilheyrandi viðtölum. Þó láðist Sjónvarpinu að komast að kjarna málsins, eininguna innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Ljóst er að það er sitthvað, eining og eining. Bergmálstíðindi munu því skýra málið.
Laugardagur, 7. júní 2008
„Stór áfangi í náttúruvernd"
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar fór fram við formlega athöfn í Skaftafelli í dag. Stofnun hans felur ekki einungis í sér yfirlýsingu um verndun hans, heldur hefur einnig verið ráðinn þjóðgarðsvörður, Þorlákur Snæhólm.
Þorlákur segir, í samtali við fréttaritara Bergmálstíðinda á Höfn, að með ráðningu sinni hafi ríkið sýnt fyrirhyggju. Ekki sé tryggt að jeppalið og annar lýður spæni ekki upp allt nema öflugt eftirlit verði á staðnum. Hann hafi áratuga reynslu af þjóðgarðavörslu, bæði í Þýskalandi og á Spáni. Enginn mun komast upp með neitt kjaftæði bætir Þorlákur við.
Umhverfisráðherra segir þetta heillaskref. Reyndar notist Þorlákur við Land Rover bifreið í starfi sínu, sem ekki geti talist umhverfisvæn, en að sé nú unnið að fá rafknúna gerð hingað til lands.
Ráðherra segir stofnun þjóðgarðsins vera mikilvæga fyrir náttúruvernd, sem og ferðamannaiðnaðinn. Þjóðgarðurinn mun hreinlega soga ferðamenn hingað til lands segir ráðherra. Það mun reyndar kosta aukna flugumferð, með tilheyrandi losun á kolefnis tvíoxíði og nitrat oxíði, en við munum bæta það upp með rafbílnum hans Láka Land Rover segir ráðherra að lokum.
Stór áfangi í náttúruvernd" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. júní 2008
Sandskatan gerist stjórnmálaafl
Sandskatan, Samtök hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum, hafa ákveðið að gera samtökin að stjórnmálafli. Samtökin munu starfa undir heitinu Hagræðisflokkurinn.
Stulli Jóns, trukkakall og talsmaður Sandskötunnar, segir stefnuskrána ekki fullmótaða. Þó er ljóst að helstu stefnumál flokksins verða aukið frelsi í flautumálum, sérstakar akreinar fyrir trukka á vegum landsins og sérstakur mótmælendaafsláttur af eldsneyti segir Stulli jafnframt.
Stefnuskráin verður kynnt í næstu viku, á stofnfundi Hagræðisflokksins, sem haldinn verður á Olísstöðinni við Rauðavatn.
Sturla stofnar nýjan stjórnmálaflokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |