Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Árni, í bílstólnum, íhugar
Í þættinum Ísland í dag, á Stöð 2, viðurkenndi barnabílstólsráðherra, Árni Mathiesen, að hafa íhugað afsögn sína. Hann mun hins vegar hafa komist að annari niðurstöðu.
Árni telur einnig óskynsamlegt að fram fari þingkosningarnar á næstunni. Í kosningum verðum við vegin og metin á grundvelli þess sem hér hefur gerst. sem þýðir á íslensku að axla ábyrgð sína. Árni veigri sér hins vegar frá að axla ábyrgð þar sem hann þurfi með því, að axla ábyrgð. Enda sé ófært að ráðherra þurfi að gera hvoru tveggja samtímis, að axla ábyrgð og að axla ábyrgð. Það sjái hver heilvita maður.
Starfsfólk Bergmálstíðinda hyggst nú funda með loftinu og reyna að botna í málinu.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Talað með rassgatinu - kafli milljón
Enn og aftur trana menn sér fram, talandi með rassgatinu.
Flestir Íslendingar eru sammála um að aðgerðir Breta hafi verið allt of harkalegar og jafnvel ólöglegar. Sér í lagi að ráðast gegn öllu sem íslenskt er. Hinu er ekki hægt að neita að samkvæmt EES samningnum hafa Íslendingar skuldbundið sig að standa undir lágmarkstryggingu á inneign fólks á innlánsreikningum Íslenskra banka, hvar svo sem það er býr innan Evrópu. Það er ekki flóknara en það. Íslendingar hefðu aldrei komist undan að standa við skuldbindingu sína. Er flókið að sjá það?
Vissulega finnst mér að ríkisstjórnin og íslenskar ríkisstjórnir almennt mættu bera meiri virðingu fyrir þinginu. Það breytir því þó ekki, að sama hve menn hefðu rausað fram og aftur um málið á Alþingi, hefðum við þurft að borga. Umræður á Alþingi hefðu engu getað breytt, nema í mesta lagi að fullnægja þörfum sumra fyrir málefnarunk.
Hvers vegna eru menn að reyna að slá sig til riddara með svona rausi? Menn virðast nýta hvert tækifærið til að upphefja sjálfa sig. Menn hafa rausað lengi og það með réttu, en eins og staðan var orðin gat Alþingi engu breytt. Hinsvegar er krafan um að hinir ábyrgu axli ábyrgð sína réttmætari sem aldrei fyrr. Yfir því ættu menn frekar að rausa og málefnarunka.
Vissulega er blóðugt að þurfa að taka á sig skuldabaggann fyrir greifana. Hins vegar lá það fyrir allan tímann og á ábyrgð þeirra sem áttu að fylgjast með. Ríkisstjórnar, Alþingis, Fjármálaeftirlits og Svörtulofta. Vissulega hafa komið fram aðvaranir á vettvangi Alþingis, en þar sem Alþingi virðist einungis vera færibandsafgreiðslubatterí ríkisstjórnar er auðvitað ekki von á að á það sé hlustað.
Hlustar einhver á raus starfsmanna á plani?
![]() |
Sakar ráðherra um óheilindi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. nóvember 2008
Fyrirstaðan brostin. Ísland í €vrópusambandið?
Þau merku tíðindi berast nú um heimsbyggðina að Evrópusambandið hafi aflétt umdeildu banni á afskræmdu grænmeti. Eins og flestir vita hefur bannið fyrst og fremst staðið í vegi fyrir inngöngu Íslands í Sambandið. Helst hafa Bændaflokkur Íslands og Kommúnistaflokkurinn staðið gegn inngöngu Íslands meðan bannið hefur gilt.
Talsmenn Kommúnista segja af og frá að gangast undir slíkt bann. Slíkt hefði gengið af íslenskum samyrkjubúskap dauðum.
Talsmenn bænda segja ömögulegt fyrir íslenska bændur að hlíta slíku banni, enda íslenskt grænmeti tiltölulega pervisið og afskræmt. Því beri að fagna afléttingu bannsins og þú fyrst séu bændur til viðræðu um hugsanlega inngöngu í Sambandið.
Kommúnistar segja hinsvegar afléttingu bannsins engu skipta. Þeir séu á móti aðild, sama hvað.
Annar helmingur ríkisstjórnarinnar mun þegar hafa hafist handa við undirbúning aðildarviðræðna.
![]() |
Aflétta banni við bognum gúrkum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 16. nóvember 2008
Jónas afþakkar verðlaunin
Jónas Hallgrímsson, rithöfundur, ljóðskáld og bóhem, hefur afþakkað menningarverðlaun menntamálaráðherra. Ráðherra hugðist veita Jónasi verðlaunin fyrir beytingu hans á íslenskri tungu.
Jónas segir að það sé tómt rugl að veita svona verðlaun.
Beyting íslenskrar tungu, hvað? Ég kann bara ekki önnur mál og er því nauðbeygður til að beyta þessu hrognamáli segir Jónas. Þetta er sambærilegt og að sitja uppi með glataða krónu. Ég hef ekki aðra kosti.
Til vara stóð til að veita Megasi verðlaunin, en hann var upptekinn við annað.
Til þrautavara var því Herdísi Egilsdóttur veitt umrædd verðlaun.
![]() |
Herdís Egilsdóttir fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 12. nóvember 2008
Þögnin og fíflaskapurinn er yfirþyrmandi! Ég ærist!
Þá er það ekki bara þögn ráðamanna Íslands. Þögnin að utan líka. Menn furða sig á að allir haldi að sér höndum og bíði með að lána íslendingum peninga.
Kötturinn segir, ekki ég...og allt það.
Sumir vilja meina að hollendingar og bretar setji IceSave málið fyrir sig. Það má vel vera. Þó held ég að IceSave sé bara birtingarmynd. Hver er ástæða þess að allir hinir halda að sér höndum og segjast vilja bíða og sjá hvað IMF gerir?
Kaupmaðurinn í glervörubúðinni gengur milli nágranna sinna og biður þá að hjálpa sér að koma búðinni í lag, eftir að fílarnir höfðu gengið þar lausir. Er skrítið að nágrannarnir setji fyrir sig að koma til aðstoðar við tiltektina meðan fílarnir ganga enn lausir í búðinni?
Auðvitað vilja þeir sjá hvað kaupmaðurinn hyggst gera. Góð byrjun væri að koma fílunum út. Þá fyrst er vit í að byrja tiltektina. Af stakri kurteisi kunna þeir ekki við að segja það beint við hann að hann verði að koma fílunum út, því það er nokkuð sem blasir við. Þeir gefa honum þó smá hint og segjast vilja sjá til hvað hann hyggist gera.
Kaupmannsgreyið er bara ekki betur gefinn en svo að hann skilur ekki neitt í neinu. Honum finnst nágrannarnir vera vondir við sig. Snýr upp á nefið og segist sko barasta ætla að finna sér nýja vini.
Það er uppi pattstaða. Lurðurnar sem hér eru og eiga að heita stjórnendur þessa lands, sitja og bíða eftir kraftaverki. Allir aðrir, þegnar þeirra sem og aðrar þjóðir, bíða eftir að aðgerðaplani.
Jújú, það hefur verið sagt að til standi að styrkja krónuna (úff). Hvenær og hvað svo? Hvað ætla menn svo að gera, takist það ekki? Hafa einhver nánari plön verið gerð? Ef svo er, væri ekki rétt að segja frá þeim? Væri ekki tilvalið að leggja bissnessplanið fram fyrir þá sem eiga að sponsa það? Þögnin er ærandi.
Halló! Er einhver heima?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 8. nóvember 2008
Eru yfirvöld óttaslegin?
Geir Jón, lögregluþjónn, sagði í fréttum að fjöldahandtökur hefðu verið of mikil aðgerð, Þegar fréttamaður spurði hann um viðbrögð við mótmælum dagsins.
Mér varð hugsað hálft ár aftur í tímann. þá söfnuðust nokkrir bílstjórar, ásamt fleira fólki, við bensínstöð uppi í sveit. Þar mætti lögreglan og sprautaði piparúða á mannskapinn og handtók.
Ef við berum saman þessi mótmæli má segja að mótmælin í vor voru lúxusmótmæli. Þá er ég ekki að gera lítið úr þeim sem þar mótmæltu háu eldsneytisverði. Þar voru vissulega menn sem óttuðust um afdrif sín vegna kostnaðar sem væri að sliga þá. Nú er almenningur að mótmæla ástandi sem gæti komið því í þrot og/eða hneppt í áralanga fjárhagslega ánauð.
Þá var hinsvegar ástandið í þjóðfélaginu stöðugt, en ekki núna.
Nú er öldin önnur. Nú stendur þorri þjóðarinnar frammi fyrir að þurfa að súpa seyðið af margra ára bulli sem það ber minnsta ábyrgð á. Fólk er reitt. Öskureitt og það mun bara aukast, verði ekkert að gert.
Þetta skynja Geir Jón og félagar. Yrði mætt með hörku myndi fyrst sjóða upp úr og hið fámenna lögreglulið ætti ekki séns. Jafnvel vopnaðir kylfum og piparúða.
![]() |
Eggjum kastað í Alþingishúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Þegar fólk fær nóg
Það hefur verið í umræðunni að Björn Bjarna & Co væru að efla óeirðalögregluna. Reyndar sá ég því mótmælt í frétt á visir.is í dag, sem ég fann ekki aftur í fljótu bragði og nenni ekki að leita frekar að.
Kannski lögreglan hafi ekki verið að gera neinar ráðstafanir, en kannski hún ætti að gera það. Þ.e.a.s. vilji hún verja gjörðir hinna spilltu valdhafa þegar almenningur hefur endanlega fengið nóg og reiðin springur út í einhverju meira en settlegum mótmælum.
Ég segi þegar, en ekki ef.
Með áframhaldandi þróun mála, upplýsinga- og aðgerðaskorti stjórnvalda, þar sem hvert spillingamálið á fætur öðru kemur upp á yfirborðið líkt og gröftur úr grasserandi sári er ekki spurning um hvort heldur hvenær sýður upp úr.
Menn þurfa að vera heyrnar- og sjóndaprir til að taka ekki eftir kröfu almennings um nýja mynt. Menn þurfa hinsvegar að vera bæði blindir og heyrnarlausir til að taka ekki eftir kröfu almennings um hreinsanir á ýmsum stöðum. Seðlabankinn væri ágætis byrjun, en aðeins byrjun.
En hvers er að vænta þegar sá sem því ræður er annaðhvort algerlega úr sambandi við hvað er að gerast, eða er að pukrast með með það sem gerist?
Geir kannast ekki við Pólverjalán.
og síðan, örfáum tímum síðar...
Geir staðfestir pólska aðstoð.
Eins hafa verið sterkar raddir um að Bretar og Hollendingar muni standa í vegi fyrir láni IMF til Íslands. Hvað mun gerast í því?
Bæði Ungverjar og Úkraínumenn, sem sóttu um lán á eftir okkur, hafa nú þegar fengið sín lán. Hví ekki við?
Sjáum til hvað gerist eftir helgi. Vonandi gengur allt upp, en þangað til ætla ég að færa þessa frétt til bókar.
Æðsti yfirmaður löggæslu og dómsmála hefur verið afar upptekinn af ýmsum hugmyndum og virðist sjá vonda karlinn í hverju horni. Mesta furða að hann hafi ekki ennþá vopnvætt lögregluna að fullu. Kannski hann geri sér grein fyrir að þegar það gerist mun vondi karlinn vopnvæðast að sama skapi. Við höfum dæmin annars staðar frá.
Nú óttast ráðamenn hinsvegar. Þeir hafa sankað að sér lífvörðum, hægri og vinstri. Óttalaus maður gerir ekki slíkt. Óttinn er ef til vill ekki ástæðulaus. Því finnst mér bara ansi líklegt að verið sé að undirbúa löglegluna fyrir óeirðir.
Mér finnst það frekar líklegt. Miðað við þær skoðanir sem dómsmálaráðherra hefur viðrað, finnst mér hann líklegur til þess. Mjög líklegur.Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 7. nóvember 2008
Forsætisráðherra alls ókunnugur
Það hefur ekki farið fram hjá þjóðinni að forsætisráðherra hefur haft í nógu að snúast undanfarið. Hugsanlegt er að snúningurinn geti haft slæm áhrif á heilsu hans.
Svo telur Hanz H. Gizurar, snúningslæknir. Hanz, sem nam við The Republican School of Spin Doctors í BNA, segir fyrstu einkennin virðast hafa komið fram fyrir um hálfum mánuði.
Það var áberandi hve hann virtist ekki alveg vera með sjálfum sér segir Hanz. Þróunin virðist vera dæmigerð. Í fyrstu er fólk ekki með sjálfu sér nema af og til. Síðan fjarlægist fólk sjálft sig meir og meir. Fólk hættir síðan alveg að kannast við sig. Á endanum hættir það að kannast við nokkurn skapaðan hlut. Allt verður ókunnugt og það sjálft líka.
![]() |
Kannast ekki við pólskt lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 5. nóvember 2008
Fyrsti svarti forsetinn
Verður maður ekki að vera maður með mönnum og blogga eitthvað um úrslit bandarísku forsetakostninganna?
Ég hef reyndar lítið um þær að segja. Líklega er sigurvegarinn þó skárri kostur en taparinn. Í öllu falli er flest betra en fíflið sem nú býr í Hvíta húsinu. Meira að segja kartöflubóndinn McCain.
Líklega hefur sigurvegarinn, Obama, fengið stuðning svartra þar sem hann er svartur. Þá líklega líka stuðning hvítra þar sem hann er hvítur.
Það eina sem ég get í raun sagt um úrslitin er að þau minntu mig á gamalt lag.
![]() |
Obama kjörinn forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 4. nóvember 2008
10.000 dósum skotið undan!
Samkvæmt heimildum Bergmálstíðinda munu tveir starfsmenn Skorpu, þeir Geirmundur Teitsson og Bergvin Hellerup, hafa skotið undan u.þ.b. 10.000 dósum degi áður en fyrirtækið var yfirtekið af ríkinu.
Munu þeir hafa gert samkomulag við fyrirtækið um flokkun dósa utan vinnutíma. Þegar þeir höfðu haft veður af fyrirhuguði ráðþroti Skorpu, munu þeir hafa tæmt dósaskúrinn og komið dósunum fyrir í bílskúr Bergvins.
Strax um morguninn er Skorpa var lýst ráðþrota, kom flokkunar- og skilanefnd ríkisins að tómum dósakofa Skorpu. Munu þeir félagar strax hafa legið undir grun. Formaður flokkunar- og skilanefndar, Rögnvaldur Hallfreðs, segist líta málið afar alvarlegum augum. Rannsaka verði verknaðinn og sækja menn til saka.
Við frekari eftirgrennslan komst flokkunar- og skilanefnd að því að einnig vantaði um hálfan milljarð króna í bókhaldið. Rögnvaldur segir ekki liggja fyrir hvernig því máli háttar. Líklega hafi bara penninn þornað upp í miðjum bókhaldsskrifunum, eða menn bara viljað láta reyna á lukkuna. Þetta hafi þó óvart og óviljandi fattast. Shit happens segir Rögnvaldur.
Líklega verði þetta afskrifað. Fókusinn beinist nú að dósasvindlinu. Það sé forgangsatriði. Enda forkastanleg og fordæmislaus ósvífni.
![]() |
100 milljörðum skotið undan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)