Færsluflokkur: Dægurmál

Gas-mann í sviðsljósinu

MCEins og flestum er kunnugt hefur Gas-mann verið í sviðsljósinu undanfarið. Hver er Gas-mann? Blaðamaður Bergmálstíðinda hitti hann, í myndatöku með hljómsveit sinni, um helgina.

„Ég er bara gúddí gæi“ svarar Gas-mann, spurningu Bergmálstíðinda. Eins og áður segir hefur Gas-mann verið mikið í sviðsljósinu undanfarið. Gas-mann starfar sem lögregluþjónn, en hefur þann aukastarfa að skemmta landanum.

„Já, ég er að skemmta, milli þess sem ég sinni löggæslustarfinu“ segir Gas-mann. Aðspurður hvort auðvelt sé að samræma þessi tvö störf. „Það getur verið pínu strembið stundum. Sérstaklega þar sem lögreglustarfið er vaktavinna. Ég á hinsvegar svo eðal vinnufélaga að það hefur aldrei verið vandamál að svissa vöktum, ef þannig stendur á“ bætir Gas-mann við. „Þetta er miklu meira gaman, en erfitt. Gasalega gaman“ segir Gas-mann, sposkur á svip.


mbl.is Rétt aðferð við beitingu piparúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautaganga Stulla

Stulli Jóns, félagi í Sandskötunni, Samtökum hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum er nú að taka sér á hendur gönguferð frá Kringlunni og niður í bæ. Stulli var á rúntinum og varð olíulaus við Kringluna.

„Bíllinn drap á sér við Kringluna og ég náði ekki að láta hann renna inn á bensínstöðina sem er þar rétt hjá, við Miklubraut. Ég gekk þangað með brúsa, en þá kom í ljós að sjálfsalinn þar tekur ekki fimmhundruðkalla“ sagði Stulli og er þungur á brún. „Alveg týpískt hvernig farið er með mann. Ég mótæli þessu. Þar sem ég var á leiðinni niður í bæ ætla ég bara að rölta áleiðis með brúsann. Næsta bensínstöð er þarna rétt hjá umferðarmiðstöðinni. Er það ekki líka alveg týpískt? Margir kílómetrar í næstu bensínstöð! Ég vil nota tækifærið og mótmæla því líka.“

Bergmálstíðindi munu fylgjast með rölti Stulla.

„Hey! Svona bæ ðe vei, ef einhver nennir að taka mig upp í á leiðinni væri það rosa fínt“ sagði Stulli að lokum og gekk af stað.


mbl.is Mótmælaganga Sturlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Missti stjórn á sköpum sínum

Ágústa Flygering, snyrtifræðingur, hefur gefið frá sér yfirlýsingu vegna atburðar sem átti sér stað um helgina, þar sem hún segist slegin og miður sín yfir að hafa misst stjórn á sköpum sínum og í framhaldinu löðrungað Gretti Grapesson vörubílsstjóra. Ágústa mun verða kærð fyrir löðrunginn.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Við Grettir Grapesson hittumst á balli í bænum og fór strax vel á með okkur. Svo vel að við ákváðum að færa okkur um set og heim til Grettis. Þar sýndi Grettir, sem er áhugamaður um hestaíþróttir, mér pískinn sinn og við það æstust leikar og ég á ekki auðvelt með að muna öll smáatriði. Allavega virðist mér hafa hlaupið heldur mikið kapp í kinn og ég missti algerlega stjórn á sköpum mínum þarna. Gretti líkaði það svo sem ekki illa en eftir stutta stund var bara sem hann hefði misst allan áhuga, því hann stoppaði skyndilega. Ég spurði hann hví hann væri hættur. Þá sagði hann „ég sé rautt.“ Við þetta fauk svo í mig að ég veitti honum allfastan löðrung. Ég er mjög slegin og miður mín yfir viðbrögðum mínum.

Ég vil biðja Gretti afsökunar á hvernig fór en býð honum hér með í tesopa upp úr miðri vikunni.

Virðingarfyllst.

Ágústa Flygering

 

Blaðamaður Bergmálstíðinda náði tali af Gretti og spurði hver viðbrögð hans við yfirlýsingu Ágústu væru. „Hún kemst skemmtilega að orði, að segjast vera slegin. Ég var sleginn en ekki hún. Meira hef ég ekki um málið að segja að svo stöddu.“


mbl.is Missti stjórn á skapi sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinsanir í miðbænum

Hið árlega hreinsunarátak borgarinnar hófst í dag. Hin síðari ár hafa borgarbúar verið hvattir til að gera hreint fyrir sínum dyrum, ef svo má segja. Hreinsa til í sínum hverfum og þ.h.

Nú hafa borgaryfirvöld, með borgarstjórann í broddi fylkingar, ákveðið að fara nýja leið og gera hreint fyrir sínum eigin dyrum.

„Okkur þótti, eftir allt sem undangengið er í vetur, tímabært að gera hreint fyrir okkar dyrum“ segir borgarstjóri. „Við viljum hvetja alla borgarbúa, sem vettlingi geta valdið að koma í miðbæinn og leggja okkur lið. Þeir sem eiga kúbein mega gjarnan hafa slík meðferðis.“

Ólafur, ásamt öðrum í meirihluta borgarstjórnar, hefur ákveðið að ráðast skuli á garðinn sem hann er hæstur.

„Það er ljóst að stærstu ruslahaugar borgarinnar eru húsin að Laugavegi 4 - 6. Þar munum við byrja, vonandi með hjálp sem flestra. Eftir það getur fólk dundað sér við laufa- og plastpokatínslur.“

Ólafur hvetur borgarbúa til að mæta að Laugavegi 4 -6 um klukkan 15 í dag. Öllum verði boðið upp á kaffi og kleinur.


mbl.is Hreinsunarátak í höfuðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldfim matvæli eru varasöm

Það var ekki laust við að heimilisfólkið að Hagamel 5 hafi brugðið, snemma í morgun. Um það leiti er fólk var að rísa úr rekkju hvað við mikil sprenging í eldhúsinu. Er betur var að gáð sást hvar ísskápur heimilisins hafði sprungið í frumeindir sínar. Rannsóknardeild lögreglu og skoðunarmenn tryggingafélags fjölskyldunnar hafa verið að störfum í allan morgun, frá klukkan átta.

„Við höfum fundið vísbendingar sem verða að teljast nokkuð líkleg skýring sprengingarinnar“ segir Bergur Agnarsson, fulltrúi í rannsóknardeild lögreglunnar. „Svo virðist sem rúllupylsa og púðursykur hafi verið geymd hættulega nálægt hvoru öðru. Síðan var chillisósa þar fyrir ofan“ bætir Bergur við. „Saltpétursgufur frá rúllupylsunni virðast hafa náð að blandast púðursykrinum. Þá þarf ekki nema dropa af chillisósu til að kveikja.“

„Líklega nær tryggingin yfir tjónið“ segir Guðbrandur Guðbrandsson, skoðunarmaður tryggingafélagsins. „Smáa letur heimilistækjatryggingarinnar skilgreinir undantekninguna of þröngt. Undantekningin tekur einungis á Tabasco sósu, en umrædd chillisósa mun hafa verið af annari gerð.“


mbl.is Ísskápurinn sprakk í tætlur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frú Reykjavík valin

Keppninni um frú Reykjavík lauk í kvöld, með sigri frú Pálínu Hansen húsfreyju. Keppnin var mjög spennandi og tvísýn. Frú Matthildur Kúld, amtmannsfrú, veitti Pálínu harða keppni allt til yfir lauk.

Lovísa Löve, framkvæmdastjóri keppninnar, segir hana hafa heppnast vonum framar og að spennan í salnum hafi verið með eindæmum. „Öskrin og lætin voru slík að helst mátti halda að ljón og krókódílar léku lausum hala í salnum“ segir Lovísa. Hún segir Pálínu vel að titlinum komin. „Hún sýndi fádæma lipurð með prjónana og straujárnið og ekki voru randalínurnar hennar verri. Akkúrat rétt bakaðar“ bætir Lovísa við.

Pálína segist ekki vita enn hvað taki við nú. Til hennar streymi nú tilboð um allt mögulegt. „Ég hef þegar fengið tilboð um að halda matreiðslunámskeið, í Bristol á Englandi. Einnig barst mér beiðni, frá Tromsö í Noregi, um að gerast verndari hannyrðaráðstefnunnar þar í sumar. Ég er mjög spennt.“

Bergmálstíðindi spurðu Pálínu hver væru annars hennar helstu áhugamál. „Heimsfriður og hannyrðir. Ekki nokkur spurning.“ segir Pálína, sem geislar af gleði.

Bergmálstíðindi óska Pálínu og eiginmanni hennar, Hr. Knud Hansen stórkaupmanni, innilega til hamingju.


mbl.is Valin ungfrú Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stál og hnífa á Landspítala

„Ólíklegt er að þetta náist fyrir 1. maí og það mun hafa mikil áhrif á þjónustu við sjúklinga sem þurfa að leita aðstoðar á skurðdeildum spítalans“ segir SigÞór Gunnarsson, forstöðumaður verkfæralagers Landspítalans. „Það hafa ekki verið keyptir nýjir skurðhnífar í háa herrans tíð og ekki einu heldur stál svo lappa megi upp á bit þeirra sem þó eru til“ segir Sigþór ennfremur. „Ég skil gremju skurðlækna mæta vel.“

Anný Steinsdóttir, forstöðumaður innkaupasviðs Landspítalans, segir að keyptur hafi verið stór lager af hnífum, frá fyrrum Sovétríkjunum, í fyrra vor. „Við stöndum ekki í neinu bruðli“ segir Anný við blaðamann Bergmalstíðinda. „Við erum að reyna að reka bissniss hér.“ Anný segir að keyptir hafi verið sjö hundruð hnífar og fimm sagir fyrir um ári síðan „úr vel hertu eðal stáli“ og engin þörf sé á að brýna þá í bráð. Mótmæli skurðlækna séu fyrirsláttur. „Þeir vilja bara næla sér í auka sumarfrí. Eins og þriggja mánaða fríið, vegna sumarlokananna, sé ekki nóg?“ segir Anný.

Ekki náðist í Guðmar Grapeson, talsmann skurðlækna, í dag.


mbl.is Stál í stál á Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann eyddi allri símnúmeraskránni

Guðmar Magnasson steypubílstjóri hefur kært lögreglumann fyrir að hafa eytt gögnum úr síma sínum.

„Ég var bara þarna að tala við hann þegar hann rífur af mér símann og fer að fikta í honum. Ég reyndi að ná símanum aftur og rifnaði nýja LaCoste treyjan mín við þau átök. Að lokum, þegar ég fékk símann aftur, var símnúmeraskráin tóm“ segir Guðmar. „Þegar ég uppgötvaði þetta fór ég fram á að hann gæfi mér upp númerið sitt, en hann neitaði mér um það“ bætir Guðmar við og þykir heldur hart hafa verið gengið á rétt sinn. „Mér þykir ansi hart að vera búinn að glata öllum mínum númerum, hvort heldur er númerið hennar mömmu, hennar Lóló á Laufásveginum, eða á Goldfinger. Númer sem ég þarf oft að hringja í.“

Bergmálstíðindi leituðu svara hjá lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sem ekki vildi tjá sig um málið.

Heimildarmaður innan lögreglunnar, sem ekki vill láta nafn síns getið segir að málið sé persónulegt. Þeir, Guðmar og umræddur lögreglumaður, hafi verið að deita á laun um hríð, en lögreglumaðurinn hafi viljað slíta sambandinu. Hann hafi beðið Guðmar að eyða símanúmeri sínu úr síma sínum, en Guðmar hafi þvertekið fyrir það. Guðmar hafi verið að senda sms allar nætur og kona lögreglumannsins hafi verið hætt að lítast á blikuna. Því hafi lögreglumaðurinn viljað enda þetta. Þegar Guðmar hafi ekki viljað eyða út númerinu hafi lögreglumaðurinn ekki séð annan kost en að taka til sinna ráða og eyða númerinu út sjálfur. Það hafi verið fyrir slysni að allri símnúmeraskránni hafi verið eytt.

Er Bergmálstíðindi báru ofangreindar upplýsingar undir Guðmar vildi hann ekki tjá sig frekar um málið.


mbl.is Lögreglan eyddi gögnum af farsíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engum til framdráttar

Svona talsmáti er engum til framdráttar. Fyrir utan að lýsa mikilli heift og dónaskap, lýsir hann jafnframt kunnáttuleysi skrifara í stafsetningu. Mér sýnist annað hvert orð textans vera rangt stafsett. Þriðja atriðið er að þarna er farið með fleipur. Rögnvaldur Freymóðsson, niðursetningur á Ytri Brekku í Skútustaðahreppi, er stærsti hálfviti Íslands og hefur borið þann titil til margra ára.

 

Rögnvaldur Freymóðsson

 

 

 

 

 

 

 

Rögnvaldur ásamt lagskonu sinni, henni Jófríði Jörgensdóttur.


mbl.is „Gerðu þjóðini greiða og skjótu þig"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spáð er afleitu sumri

Veðurstofan hefur gefið út yfirlýsingu.

„Vor er í lofti, en hvorki á láði né legi. Því er ljóst að einungis þriðjungur vorsins er kominn og óvíst um hvort vori meira. Sú staðreynd að ekki frysti s.l. nótt eykur líkurnar á vor- og sumarleysi til muna.“

Spáfuglar Veðurstofunnar, þau Lóa Gunnarsdóttir og Þröstur Pétursson, segja yfirgnæfandi líkur á að líklega vori ekki frekar. Það megi best sjá á gæðum mjólkurafurða, sem væru svo að segja fitusnauðar um þessar mundir.

Árni Björnsson, veðurfræðingur, segir fostleysið í nótt vera lykilatriði varðandi hvort komi vor og sumar. „Þau eru ekki úr lausu lofti gripin, visindin með samhengi næturfrosts og tíðafars“ segir Árni. „Þau byggja á reynslu forfeðranna. Eins og allir vita frystir ekki á þessum tíma suður í löndum. Allir vita hve slæm sumurin eru þar, á Mallorca og á Florida.“ 


mbl.is Vor í lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband