Sunnudagur, 8. júní 2008
IRC
Ég man þá tíð, er IRC (Internet Relay Chat) var fullt af lífi. Þá er ég að tala um íslensku rásirnar. Erlendar rásir eru flestar enn lifandi.
Ég kynntist IRC fyrst árið 1994. Ég hef reyndar aldrei endst þar lengi í einu en hef litið þar inn öðru hvoru gegn um tíðina. Nú virðist IRC (íslenskar rásir) hinsvegar vera orðið samansafn fólks í þagnarbindindi. Ég hef reyndar sjaldan básúnað mikið þar, en fylgst með umræðunum og tekið þátt, finnist mér umræðurnar áhugaverðar.
Ég hef prófað nokkrum sinnum í vetur að tengjast og verið tengdur í nokkra tíma í senn. Ég sé stóra breytingu á. Nú er fólk ekki lengur að spjalla á opnum rásum. Líklega er allt spjall bara prívat spjall, milli tveggja einstaklinga.
Ég prófaði að tengjast fyrir ca 2 tímum og opnaði 8 spjallrásir. Á þessum tíma hefur ekki kjaftur sagt rassgat, á opinni rás.
En svona fyrir þá sem ekki þekkja til er IRC spjallkerfi, sem á uppruna sinn á finnsku BBS (Bulletin Board Service) sem voru algeng áður en internetið varð almennt. Síðan komu Billi (Gates) & Co og bjuggu til MSN spjallforritið, sem hefur í raun þann eina kost umfram IRC að þar getur maður stjórnað hverjir geta spjallað við þig og hverjir ekki (contact list) en vantar opnar spjallrásir (spjallherbegi með mörgum notendum), sem IRC hefur.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 8. júní 2008
Fullkomin eining
Bergmálstíðindi segja ekki bara fréttir, heldur er markmið þeirra ekki síst að skýra fréttir annarra miðla. Vöntun hefur verið á fréttaskýrendum á Íslandi, þar sem íslenskir háskólar hafa ekki boðið upp á BA nám í fréttaskýringafræðum.
Frétt dagsins eru oddvitaskipti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Fréttastofa Ríkissjónvarpsins flutti ítarlega frétt um málið, með tilheyrandi viðtölum. Þó láðist Sjónvarpinu að komast að kjarna málsins, eininguna innan borgarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna. Ljóst er að það er sitthvað, eining og eining. Bergmálstíðindi munu því skýra málið.
Laugardagur, 7. júní 2008
Saga oddvitanna
Oddvitar hafa fylgt mannkyninu í þúsundir ára. Talið er að allt að tíu þúsund ár séu síðan menn gerðu fyrstu oddvitana.
Oddvitum var upphaflega komið upp til leiðbeiningar ferðalöngum og elstu oddvitar sem varðveist hafa eru í eyðimerkum Afríku, nánar tiltekið í Egyptalandi. Þar reistu menn oddvita til að leiðbeina faranddöðlusölumönnum sem leið áttu um víðáttur eyðimerkanna. Þessir oddvitar eru gjarnan kallaðir Giza oddvitarnir.
Norðar í heiminum, t.a.m. hér á landi voru oddvitar mun smærri í sniðum, en reistir mun þéttar.
Þó munu hafa fundist vísbendingar um að tvö íslensk fjöll munu í raun vera oddvitar og þ.a.l. gerð af mannahöndum. Hér er átt við fjöllin Baulu í Borgarfirði og Keili á Reykjanesi. Séu vísbendingarnar réttar munu þær líklega kollvarpa öllum fyrri kenningum um fólksflutninga landa á milli í fyrndinni, þ.e. fjöllin tvö líkist mikið Giza oddvitunum.
Síðar fóru menn að byggja oddvita sambyggða húsbyggingum, eins og Tower of London er gott dæmi um.
Á tuttugustu öld hófu menn að sameina húsbyggingar og oddvita mun frekar. Þá var ekki bara um að ræða hús með sambyggðum oddvitum, heldur voru húsin jafnframt oddvitar.
Nú hafa Íslendingar farið nýjar leiðir í oddvitagerð. Leiðir sem mikla athygli hafa vakið erlendis. Um er að ræða oddvita sem um leið eru styttur af fólki. Það þykir gefa oddvitunum hlýjan og persónulegan blæ. Einn slíkur var vígður í dag. Um er að ræða oddvita í líki kvenkyns borgarfulltrúa.
Menning og listir | Breytt 8.6.2008 kl. 01:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. júní 2008
„Stór áfangi í náttúruvernd"
Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar fór fram við formlega athöfn í Skaftafelli í dag. Stofnun hans felur ekki einungis í sér yfirlýsingu um verndun hans, heldur hefur einnig verið ráðinn þjóðgarðsvörður, Þorlákur Snæhólm.
Þorlákur segir, í samtali við fréttaritara Bergmálstíðinda á Höfn, að með ráðningu sinni hafi ríkið sýnt fyrirhyggju. Ekki sé tryggt að jeppalið og annar lýður spæni ekki upp allt nema öflugt eftirlit verði á staðnum. Hann hafi áratuga reynslu af þjóðgarðavörslu, bæði í Þýskalandi og á Spáni. Enginn mun komast upp með neitt kjaftæði bætir Þorlákur við.
Umhverfisráðherra segir þetta heillaskref. Reyndar notist Þorlákur við Land Rover bifreið í starfi sínu, sem ekki geti talist umhverfisvæn, en að sé nú unnið að fá rafknúna gerð hingað til lands.
Ráðherra segir stofnun þjóðgarðsins vera mikilvæga fyrir náttúruvernd, sem og ferðamannaiðnaðinn. Þjóðgarðurinn mun hreinlega soga ferðamenn hingað til lands segir ráðherra. Það mun reyndar kosta aukna flugumferð, með tilheyrandi losun á kolefnis tvíoxíði og nitrat oxíði, en við munum bæta það upp með rafbílnum hans Láka Land Rover segir ráðherra að lokum.
![]() |
Stór áfangi í náttúruvernd" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. júní 2008
Hátt olíuverð er heilbrigðisvandamál
Olíuverð fer sífellt hækkandi. Í dag fór t.a.m. verð á norskri háfjallaolíu yfir 138 bandaríkjadali. Færustu hagfræði- og viðskiptamógúlar hafa leitað ástæðu þessa lengi. Ekki sé um að ræða verðhækkanir á aðföngum eða öðru slíku sem hafi áhrif á verðið. Olían sjálf muni ekki hafa breytt eðli sínu, heldur sé um sömu olíu að ræða og á árum áður er olían var ódýrari en mjólkin.
Rannsóknirnar eru mikið hagsmunamál fyrir Ísraela, enda helstu olíufurstar svarnir óvinir þeirra og því mikið hagsmunamál fyrir Ísraela að ná niður olíuverði. Shaul Mofaz, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, sagði t.d. í viðtali við blaðið Idiot Aharonot fyrir skemmstu, að ef Íranir lækki ekki verð á sinni olíu munu ísraelar láta þá finna til tevatnsins.
Það er því ekki furða að Ísraelskir fræðingar hafi stundað stífar rannsóknir á málinu. Niðurstaða þeirra er afar áhugaverð. Hún mun vera á þá leið að sálarflækjur og kvíðaköst jakkafataklæddra manna sé helst um að kenna. Í raun sé því um alþjóðlegt heilbrigðisvandamál að ræða, sem umbreytist á þennan hátt í alþjóðlegt hagfræðivandamál. Því munu Ísraelar hafa ákveðið að snúa vörn í sókn og efla framleiðslu geðlyfja, sem og að fjölga stórlega geðlæknum og sálfræðingum. Því næst fái leyniþjónustan Mossad það hlutverk að planta þeim leynilega fyrir á mörkuðum víða um heim. Þannig megi ná niður olíuverði, með að slá á kvíðaköst jakafatamanna og leysa úr sálarflækjum þeirra.
![]() |
Olíuverð í nýjum hæðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 6. júní 2008
Sandskatan gerist stjórnmálaafl
Sandskatan, Samtök hagsmunaaðila að hagsmunasamtökum, hafa ákveðið að gera samtökin að stjórnmálafli. Samtökin munu starfa undir heitinu Hagræðisflokkurinn.
Stulli Jóns, trukkakall og talsmaður Sandskötunnar, segir stefnuskrána ekki fullmótaða. Þó er ljóst að helstu stefnumál flokksins verða aukið frelsi í flautumálum, sérstakar akreinar fyrir trukka á vegum landsins og sérstakur mótmælendaafsláttur af eldsneyti segir Stulli jafnframt.
Stefnuskráin verður kynnt í næstu viku, á stofnfundi Hagræðisflokksins, sem haldinn verður á Olísstöðinni við Rauðavatn.
![]() |
Sturla stofnar nýjan stjórnmálaflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Bergmálstíðindi færa út kvíarnar
Eins og glöggum lesendum Bergmálstíðinda ætti að vera ljóst, hefur fjölmiðillinn þegar hafið úrtás sína, með útgáfu hins danska systurblaðs Bergmåletidende.
Bergmálstíðindi hafa ekki látið staðar numið þar, heldur hafa nú hafist tilraunaútsendingar myndfréttaefnis.
Þar sem einungis er um tilraunaútsendingar að ræða hafa engir fastir tímar verið ákveðnir, heldur verður sent út efni eftir efnum og aðstæðum hverju sinni. Mun hér verða fjallað um umræðu líðandi stundar í þjóðfélaginu.
Bergmálstíðindi hafa sett saman litla umfjöllun um eldhússstörf Hannesar Hólmsteins, sem farið hefur lítið fyrir hingað til. Það er stolt okkar og ánægja að vera fyrst til að sýna þessa skemmtilegu hlið þess þjóðþekkta manns. Þessi litla umfjöllun er jómfrúarefni nýstofnaðrar myndfréttadeildar samsteypunnar.
Njótið vel.
Dægurmál | Breytt 6.6.2008 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Semja við bréfdúfufélagið
Félag kaþólskra áhorfenda fordæmir auglýsingaherðferð Símans og mun félagið slíta öllum viðskiptum sínum við fyrirtækið. Félagið hefur um árabil keypt síma- og netþjónustu af Símanum.
Ástæðan fyrir umskiptunum er sögð vera sú að Síminn hafi með auglýsingum sínum, er vísa til réttarhaldanna yfir magister Galieo Galilei á 17. öld, varpað rýrð á kaþólsku kirkjuna, sem á sínum tíma fordæmdi fáránlegar hugmyndir hans um að jörðin væri ekki miðja alheimsins. Enda munu hugmyndir hafa stungið í stúf við hugmyndir kirkjunnar um sköpun heimsins (Sjá sköpunarsöguna í gamla testamentinu).
Eins og [elstu] mönnum er enn í fersku minni, var glæpahundurinn Galileo bannfærður fyrir vikið.
Því finnst félagi kaþólskra áhorfenda rétt að bannfæra Símann, alla þá er komu nálægt gerð auglýsingarinnar, sem og alla sem komu að fjármögnun hennar, viðskiptavini Símans. Reyndar er þar babb í bát einum, að sem viðskiptavinir Símans, hingað til, mun félagið bannfæra sjálft sig.
Reyndar mun Jóhannes Páll páfi annar hafa aflétt bannfæringunni, er hafði hrjáð Galileo í tæpar fjórar aldir. Félagið gefur lítið fyrir það og segist fordæma páfastól og mun slíta öll tengst við hann (þ.e. páfann. Ekki stólinn sjálfan).
Þar sem ljóst er að Síminn er innvinklaður í allt fjarskiptadreifikerfið hér, hvort heldur er í eigin nafni eða gegn um neðri skúffuna, Skipti, mun félagið hafa leitað til Bréfdúfufélags Íslands með sín fjarskipti.
Framkvæmdastjóri Bréfdúfufélagsins vildi ekki tjá sig efnislega um málið, en lét þó hafa eftir sér, Kurr kurr.
![]() |
Segja upp viðskiptum við Símann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 6.6.2008 kl. 00:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Klíkustríðinu lokið?
Þrír piltar; Tryggvi Jóhannsson, Jón Ásgeirsson og Jón Geraldsson, voru í dag fundnir sekir um ávísanafals og útgáfu falsaðs veikindavottorðs. Málið, sem hefur tekið allt of langan tíma og kostað allt of margar milljónir, hófst þegar stóðu sem hæst klíkustríð í Reykjavík milli Nýgræðingaklíkunnar og Eigendaklíkunnar.
Eins og fólki er enn í fersku minni hallaði á Eigendaklíkuna í þeirri styrjöld sem snerist til varnar með smjörklípum. Við rannsókn smörklípanna fannst fölsuð ávísun upp á 1.500 krónur í herbergi Tryggva og eins kom í ljós að veikindavottorð sem Jón Ásgeirsson hafði framvísað í skóla hafði hann skrifað sjálfur.
Öðrum liðum ákærunnar var vísað frá dómi, þ.m.t. ákæruliðnum um hnupl á kílói af gospillum.
Ekki náðist tal af þremenningunum, fyrir prentun. Þó hringdi piltur á ritsjórnarskrifstofu Bergmálstíðinda, eftir uppkvaðningu dómsins og vildi koma þeim skilaboðum til allra í Eigendaklíkunni að það yrði partí í vesturbænum í kvöld. Boðið verður upp á stýrivexti á línuna, eins og hver getur í sig látið sagði pilturinn, sem ekki vill láta nafns síns getið.
![]() |
Dómar staðfestir í Baugsmáli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 5. júní 2008
Furður Laugardalsins
Nú hefur verið staðfest að tveir af fremstu fulltrúum hinnar íslensku furðutónlistarstefnu munu halda sameiginlega tónleika í Laugardal, síðar í þessum mánuði.
Söngkonan Björk og hljómsveitin Sigur Rós munu hafa í hyggju að byggja á þema þvottalauganna gömlu. Leikin verður þvottabrettatónlist með tilheyrandi þvottabalaslætti, segir í fréttatilkynningu.
Einnig mun umhverfis- og náttúruvernd koma sterkt við sögu. Mun Sigur Rós af því tilefni flytja nokkur af sínum þekktustu hvalaskoðunarlögum.
![]() |
Tónleikar Bjarkar og Sigur Rósar verða í Laugardal |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)