Færsluflokkur: Bloggar
Föstudagur, 17. október 2008
Styttur bæjarins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 16. október 2008
Fílabeinsturnar
Sumir bloggarar kjósa að lifa í fílabeinsturni. Vilja getað bullað og blaðrað án þess að fá gagnrýni. Sumir ritskoða kommentin áður en þau eru birt. Aðrir leifa ekki komment.
Ykkur að segja þá get ég flokkað bloggara í þrjá flokka.
1) Góða og gilda. Allt svo, leifa öllum skoðunum að koma fram.
2) Vafasama. Þeir sem vilja ritskoða. Ok, menn hafa kannski sérstakar ástæður til að vilja ritskoða, eins og stalkera og þannig.
3) Ómarktæka. Þeir sem gefa ekki færi á athugasemdum við sínar færslur. Punktur.
Ég fór inn á eitt slíkt blogg áðan. Ómarktækt. Sá fyrirsögnina hjá Jóni Bjarnasyni, sem er þingmaður Vinstri Grænna. Hann kýs að lifa í fílabeinsturni og geta blaðrað út í loftið án þess að kjósendur hans geti lagt orð í belg. Það var algjört slys að kíkja á bloggið hans. Ég hef þá reglu að lesa ekki blogg fílabeinsturnsbloggara, en fyrirsögnin var svo sexý að ég kíkti samt. Skrollaði niður og sá að ekki var hægt að kommenta. Lokaði því næst glugganum án þess að lesa bloggið.
Hví er þingmaður að blogga eins og kjaftakerling án ábyrgðar?
Er hann hræddur við að aðrir hafi aðra skoðun en hann?
Hvað er málið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 15. október 2008
Enn um Hannes Hólmstein
Ég skrifaði færslu fyrir stuttu síðan, þar sem ég kallaði eftir Hannesi Hólmsteini.
Nú á þessum samdráttartímum veitir oss ekki af honum, í sjónvarpið, að peppa upp landslýðinn og segja okkur hvað Dabbi er góður gæi.
Hvar er Hólmsteinninn þegar mest ríður á?
Alþýðan situr vonlítil og gónir í gaupnir sér. Hana vantar kraftaverkið.
Er það fugl? Nei.
Er það flugvél? Nei.
Er það Hólmsteinn? Já!
Þetta vantar okkur.
Foringi! Foringi!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 13. október 2008
Neytendahornið - Grillið hennar ömmu
Föðurömmu minni kynntist ég ekki mjög náið. Hún var 69 árum eldri en ég og því orðin gömul þegar ég var farinn að stálpast. Hún lést þegar ég var 18 ára.
Ég man að alltaf þegar farið var í heimsókn að Austurbrún 7, þar sem þau afi bjuggu, voru ávallt bornar á borð randalínur, ásamt fleiru sem ég man ekki. Randalínurnar bera af í minningunni.
Ég man líka að amma hellti upp á kaffi á gamla mátann. Ég var ekki farinn að þamba kaffi í þá tíð, svo ég get ekki dæmt um afraksturinn. Þó man ég að hún notaði ekki pappírssíur, heldur svona síu úr ebbni.
Hagsýn kona hún amma. Enda var hún í blóma lífsins í kreppunni miklu.
Amma lumaði á grilli. Mínútugrilli svokölluðu, eða samlokugrilli. Aldrei sá ég hana þó nota það. Reyndar vissi ég ekki af því fyrr en eftir hennar dag, þegar grillið lenti á heimili foreldra minna eftir hennar dag.
Ekki man ég hvort ég notaði grillið nokkurn tíma meðan ég bjó enn í foreldrahúsum, en eftir þeirra dag endaði grillið hjá mér.
Ekki veit ég hvenær grillið var keypt, en af útliti þess að dæma giska ég á ca 1970. Ytra byrði þess er krómað og á áttunda áratugnum var allt appelsínugult, brúnt, eða í öðrum ljótum litum. Því tel ég að grillið sé eldra en það.
Hvað er svona merkilegt við svona grill? Jú, fyrir nennulítinn mann en áhugasaman um samlokuristun, er grillið alveg stórmerkilegt. Ég hef komist í tæri við allskyns grill seinni tíma. Mörg þeirra eiga að vera svakalega fín, flott og tæknileg.
Öll eiga þau þó meira og minna eitt sameiginlegt. Þau eru allt of lengi að hitna. Maður kveikir á þeim til að rista samlokur í hádeginu en endar svo með samlokur í kvöldverð, svo ég ýki aðeins.
Fornaldargrill ömmu er sko ekki þannig. Það hitnar eins og skot og hitnar vel. Samlokan er tilbúin fáum mínútum eftir að stungið er í samband.
Því var það þegar grillið dó um daginn að ég taldi ekki vænlegan kost að afskrifa það og kaupa nýtt, sem hitnar á svo löngum tíma að brauðið er farið að mygla þegar það loks er orðið heitt.
Þar að auki er ég svo nytsamur andskoti að það hálfa væri nóg.
Nei! Grillið skyldi fá líknandi meðhöndlun. Því settist ég niður um helgina og reif það í sundur. Tók hvern bút og þreif með allskyns efnum, enda örugglega elstu skítaklessurnar síðan á Bítlatímanum.
Ég sá strax hvert meinið var og að auðvelt yrði að lagfæra það. Lítill hitavír sem glóir meðan grillið er í sambandi, var í sundur. Vírinn sá gegnir hlutverki gaumljóss. Þ.e. gegn um gler sést glóðin utanfrá til merkis um að grillið sé að hitna.
Vírinn góði var tengdur í postulínstengi, sem ég gerði mér ekki einu sinni vonir um að finna. Því skipti ég bara um involsi tengisins sem var ónýtt, mixað úr einhverju sem ég fann í Húsasmiðjunni. Upprunalega postulínshúsið látið halda sér.
Síðan hreinsaði ég upp allar tengingar og tengdi á ný. Setti grillið saman og setti í samband. Auðvitað virkar það sem aldrei fyrr.
Efniskostnaður: Enhver hundruð króna. Varð að kaupa stórt vélatengi í Húsó á fimmhundruð og eitthvað, þar sem ekkert minna var til. Annars bara nokkrar skrúfur og skinnur sem ég skipti um.
Vinna: ca fjórir tímar.
Munið, að kreppa er hugarástand!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 10. október 2008
Vona olíufélögin nú að enginn sé að hugsa um olíuverðið, í öllu efnahagsumrótinu?
Var nú bara að spökúlera, þar sem ekki hefur heyrst múkk um lækkanir hér heima, meðan heimsmarkaðsverðið hríðfellur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 9. október 2008
Hvað verður um Séð & Heyrt?
Undanfarin ár hefur ákveðinn hópur fólks stundað fjárhagslegt stóðlífi. Látið berast á um allar trissur. Haldið hverja stórveisluna af annarri, með eða án heimsfrægra stórstjarna. Mokað stjarnfræðilegum fjárupphæðum úr einum vasa í annan og makað með því krók sinn. Eitt er það sem einkennir þennan hóp fólks er að vera reglulegt umfjöllunarefni fjölmiðla. Sumir fjölmiðlar halda einungis úti einni síðu eða svo fyrir slíkt fréttaefni á meðan önnur byggja afkomu sína alfarið á innihaldslausum fréttum af ríka og fræga fólkinu. Fréttum fyrir okkur alþýðuna sem eigum okkur ekki líf og þurfum á slúðrinu að halda til að hafa einhvern tilgang í tilverunni.
Nú eru tímamót á Íslandi. Margt þessa ríka fólks er e.t.v. ekki ríkt lengur. Næstu afmælisveislur verða haldnar með kaffi og kleinum eingöngu, í Breiðfirðingabúð. Vitanlega eru þeir enn til, sem náð hafa frægð fyrir það eitt að vera frægir. Eru þeir nógu margir til að tryggja rekstur slúðurblaða? Hvað verður um slúðurblöðin þegar allir hinir nýríku eru orðir jafn óbreyttir plebbar og við hin? Hvað verður um Séð & Heyrt?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 6. október 2008
Hvað um Hannes Hólmstein?
Nú, í miðri fjármálakrísunni, verður mér hugsað til Hannesar Hólmsteins.
Þeir sem hafa staðið við dauðans dyr segjast hafa séð líf sitt eins og kvikmynd fyrir augum sér, á augnabliki. Eins og allt rifjist upp í þeirri andrá er dauðinn gerir sig líklegan að taka líf þeirra.
Ég er enn fullfrískur og dauðinn hefur hvorki sent mér SMS né póst. Samt hefur margt rifjast upp fyrir mér nú seinustu daga. Meðal annars pedíkanir Hannesar Hólmsteins.
Hann talaði fyrir einkavæðingu, fram í fingurgóma. Sölu bankanna sem og ömmu sinnar. Reyndar náðist ekki að einkavæða ömmu hans en bankarnir voru gefnir vinum og vandamönnum.
Síðar var hann svo til á hverjum degi í fjölmiðlum, fyrir forsettakosningarnar í BNA árið 2000, talandi um hvað George Bush væri miklu betri kostur fyrir allt og alla en óbermið Al Gore.
Flestir eru farnir að þekkja mannkosti herra Bush.
Því næst talaði hann um að Ísland ætti að stefna á að verða ríkasta land í heimi. Reyndar náði Ísland að verða fimmta eða sjöunda ríkasta land Evrópu, sem er ekki langt frá að vera ríkasta land í heimi. Ekki veit ég hins vegar hverju það skilaði íslendingum. Mér og þér.
Margt annað hefur sá ágæti maður Hannes Hólmsteinn sagt. Ekki ætla ég að setja út á hann, enda þekki ég manninn ekkert. Líklega hinn mætasti maður. Hinsvegar tel ég margar skoðanir hans afleitar. Eiginlega er það þannig fyrir mér að ef Hannes Hólmsteinn mælir einhverju bót, jafngildir það því að hið sama er afleitt. Þá miða ég einungis við orð hans í fortíðinni og því sem komið hefur fram.
En fátt er svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Hannes mælti hvað harðast manna fyrir skattalækkunum. Skattalækkunum á fyrirtæki, nota bene. Rökin góð og gild, að með lægri sköttum sé rekstrarumhverfi fyrirtækja betra. Það hefur sýnt sig að þetta er rétt. Svokölluð Laffer kúrfa. Fyrirbæri sem hefur sannað sig og ætti þar utan að vera hverjum manni augljós. Of mikiln skattabyrði dregur úr skatttekjum.
Hvað þá um rekstrarumhverfi hins vinnandi alþýðumanns? Það virðist ekki ástæða til að lækka skatta vinnandi fólks. Kannski vegna þess að hinn vinnandi maður er ekki að velta svo stórum upphæðum, hver um sig og því ekki eins líklegur til að freistast til að svíkja undan skatti. Þó eru það hinir vinnandi meðaljónar sem borga mest til ríkisins í formi skatta. Með tekjuskatti og útsvari er meðalmaðurinn að borga tæpan helming tekja sinna í skatta og útsvar. Vitanlega engin þörf á að lækka skatta á okkur aumingjana. Engin þörf á að bæta rekstraröryggi meginþorra fyrirtækja" landsins, heimilanna.
Heimilin þekkja svo vel að lepja dauðaskelina og engin þörf á að breyta því.
Hver aumingjans smá-Jón með titrandi tár
sem tilbiður guð sinn og deyr
Bloggar | Breytt 15.10.2008 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 6. október 2008
Vinir verðtryggingarinnar
Ég hlusta ekki oft á útvarp. Helst að það gerist þegar ég skrölti á skrjóð mínum milli A og B, eða milli B og C. Fyrir mörgum árum, ca 2002 - 2003, hlustaði ég oft á útvarp Sögu. Þá helst á Sigurð G. Tómasson. Mér þykir hann skemmtilegur útvarpsmaður. Þá fékk hann reglulega til sín gest, hagfræðinginn Guðmund Ólafsson. Þeir skröfuðu og skeggræddu. Gamlir og góðir kommar. Að minnsta kosti í orði.
Síðan eru liðin mörg ár.
Það hefur komið fyrir að ég hafi hlustað á þessa sömu stöð á þessu ári. Þá helst á sunnudagsmorgnum. Þá eru endurfluttir þættir frá vikunni áður. Ég hef heyrt þátt Sigurðar, sem enn fær Guðmund í heimsókn. Ég hef gaman af að hlusta á þá. Ég er ekki alltaf sammála þeim. Stundum þó. Þeir eru samt skemmtilegir kumpánar.
Einu hef ég tekið eftir. Þeir og þá sérstaklega Guðmundur, eru einarðir stuðningsmenn verðtryggingar. Mér hefur alltaf fundist það skondið, þegar þeir tala gegn íhaldinu fyrir auglýsingar og dásama verðtrygginguna eftir auglýsingar.
Rökin eru þau að verðtryggingin tryggi sparnað fólks. Okei, það er rétt að vissu leiti. Hvaða sparnað þá? Jú, kannski er enn til fólk sem sparar á gamla mátann. Þ.e. leggur inn á sparnaðarreikning í banka. Hvað lífeyrirssjóðina varðar, ávaxta þeir meira og minna peningana okkar á annan hátt.
Annað, sem Siggi og Gummi hafa líklega ekki leitt hugann að, er að þorri fólks á engan sparnað, annan en hinn lögbundna lífeyrissparnað, ávaxtaðan annarsstaðar en á bankabókum. Frekar í skulda- og hlutabréfum. Þorri fólks, alþýðan, á hinsvegar nóg af skuldum. Líklega eiga flestir þeirra sem tilheyra alþýðunni aðallega skuldir.
Er verðtryggingin góð fyrir þá sem skulda?
Ég spyr. Ég er auðvitað bara aumur forritari sem veit ekkert um peningamál
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Mánudagur, 6. október 2008
Landsbankinn verður þjóðnýttur í þágu ferðamála
Heimildir herma að ríkisstjórnin hafi gert samkomulag, við samtök aðila í ferðamannabransanum, þess efnis að Landsbankinn verði þjóðnýttur og honum breytt í einskonar krá fyrir ferðamenn, með blætisívafi.
Ríkisfyrirtækið mun heita Land-spank-inn. Þar munu áhugasamir erlendir aðilar eiga þess kost að fá væna ríkisflengingu, í sama dúr og íslensk alþýða hefur mátt þola. Telja menn þetta vænlegan kost til að auka gjaldeyrissteymi í landið til muna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 6. október 2008
Ein þjóð, eitt ríki, ein skuldsetning
Nú ætlar ríkisstjórnin að tryggja eigur okkar alþýðufólks.
Ég hef reyndar engin erlend lán að greiða af. Bara verðtryggð innlend lán hverra höfuðstólar vaxa bara en minnka ekki aftur þegar og ef gengið styrkist. Reyndar höfum við seðlabankastjóra á fullu kaupi við að kjafta niður verð fasteigna okkar og tryggja hækkun lána með háum stýrivöxtum.
Ég treysti ríkisstjórninni til að tryggja hinar neikvæðu eignir mínar, lánin, svo mér megi auðnast að fá að greiða af þeim hér eftir sem hingað til. Eins treysti ég á að aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni vernda mig gagnvart sífjölgandi afætum sem á mig herja, hvaðanæva að.
Það hefur verið fínt að nota Netið til að fylgjast með fréttum og slíku. Nú verð ég þó líklega að fjárfesta í sjónvarpi, fyrst RÚV er farið að rukka mig um afnotagjöld af slíkum grip. Þegar afæturnar eru annarsvegar er víst af nógu að taka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)