Færsluflokkur: Dægurmál

Halló! Einhver heima?

Ég er ekki djúpt sokkinn í fréttafíknina. Tek þó fréttafyllerí annað slagið. Dags daglega glugga ég annað slagið á mbl.is og visir.is og stundum á aðra vefi. Ég hef gjarnan tekið eftir að meðan fréttirnar rúlla inn á visir.is er mbl.is ansi statískur, svo ég sletti smá.

Hvað gerist svo í dag? Ég hélt að nóg gengi á í samfélaginu þessa dagana, sem mætti skrifa um. Til dæmis fréttin á visir.is um að menntamálaráðherra Sjálfstæðismanna hafi sent Seðlabankastjóra tóninn. Mér finnst það í raun stórfrétt, að Sjálfstæðismaður skyldi yfir höfuð dirfast að nefna Davíð Oddsson á nafn án þess að gera það í hallelújastíl.

Nei nei. Hvað gerist þá á mbl? Birtist frétt um það? Ó nei. Bara fyrsta forsíðufréttin um skrautdúfur í nágrenni álvers. Pinch

Döh! Woundering


mbl.is Skrautlegir nágrannar álvers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mál að laga bindin

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri, hittu Geir Haarde forsætisráðherra í stjórnarráðinu í gærkvöld.

Heimildir herma að Geir hafi viljað fá álit þeirra á því fárviðri sem ríkir í efnahagslífinu. Því hafi verið haldið fram að Kaupþing standi þokkalega og því sé ekki úr vegi að leita skýringu þess, sem gæti gagnast hinum bönkunum.

Bindunum hagrættÞeir félagar, Hreiðar og Sigurður, vildu lítið láta hafa eftir sér. Þó sagði Hreiðar við blaðamann „Í storminum fjúka bindin. Þá verða menn að hagræða þeim að nýju.“

 

Eins og allir vita er það lykilatriði, ætli menn að stunda ágóðasöm viðskipti, að klæðast bindum. Þau þurfa jafnframt að vera elegant.


mbl.is Kaupþingsstjórar í stjórnarráðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hleraðr var Snjólfr hinn ungi ok frilla hans

„Óyggjandi sönnun!“ segir Guðni Jónsson, sagnfræðingur og fornminjavörður, um kálfsskinn er fannst á hlöðuloftinu að Ytri Hamri, í Þingeyjasýslu. Á skinninu má óljóst greina setninguna „er ek hleraði Snjólf hinn unga ok frillu hans.“ Guðni telur að um frásögn af Sjólfi 'hinum unga' og heitkonu hans Jófríði, sé að ræða. Ritaða af frænda Sjólfs, Þorvaldi.

„Sagan segir að faðir Snjólfs, Sigfinnur 'öxl', hafði ákveðið aðra konu til handa syni sínum. Þegar grunur hans hafi vaknað um hið leynilega ástarsamband hafi hann fengið Þorvald bróður sinn til að fylgjast með og hlera samtöl þeirra“ segir Guðni.


mbl.is Átti að hlera Jón Baldvin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðfrystihúsið Íbó

„Íbúðalánasjóður leyfir viðskiptavinum sínum að frysta lán í allt að þrjú ár vegna greiðsluerfiðleika.“

Það minnir mig á nokkuð, fyrir nokkrum árum síðan. Þá var smá brekka hjá mér, fjárhagslega. Eitt af því sem þá var reynt var að biðja um frystingu láns hjá Íbó. Nokkrum dögum síðar barst mér bréf þar sem mér var tilkynnt að ekki væri hægt að verði við beiðninni þar sem ég hefði of lágar tekjur.

Aha, nákvæmlega.

Ég varð of kjaftstopp til að hringja og spyrja á hverju þau væru þarna niðurfrá. Verst þykir mér að hafa asnast til að henda umræddu bréfi, í stað þess að ramma það inn.


mbl.is Gæti bjargað fjölskyldum frá gjaldþroti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bláauglýsingar

Bergmálstíðindi brydda nú upp á enn einni nýjung. Blogg/Smá - auglýsingum, eða svokölluðum bláauglýsingum. Um leið og við birtum fyrstu auglýsinguna, viljum við hvetja bændur og búalið að nýta sér þjónustuna.


Einkamál

Ungur karlmaður óskar eftir að kynnast öðrum karlmanni með félagsskap í huga.
Er snyrtilegur og flottur. Ath. er 'bottom'

Svör berist afgreiðslu Bergmálstíðinda, mekt Bimbó 2008


mbl.is Jóhann er toppmaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skúbb dagsins: Sterling siglir undir fölsku flaggi!

Nú hefur það spurst út að flugfélagið Sterling hyggist draga saman seglin. Þó virðist það ekki hafa vakið upp neinar spurningar neinsstaðar. Eða hvað?

Rétt til getið. Bergmálstíðindi sofa ekki á verðinum. Fréttaritari okkar í Århus, Nils Jespersen, kannaði málið nánar. Við eftirgrennslan hans kom margt athyglisvert í ljós.

Fyrst skal nefna að Sterling er alls ekki flugfélag og hefur aldrei verið. Sterling er skipafélag sem lengst framan af stundaði fraktflutninga, en hefur hin síðari ár einnig tekið farþega um borð í skip sín. Sú er ástæða þess hve þeim hefur tekist að bjóða lág fargjöld. Ekki mikið mál að henda nokkrum stólum í gám og koma þar fyrir farþegum.

Það var ekki flókið fyrir Nils að leggja saman tvo og tvo. Félag sem dregur saman segl. „Say no more.“ Jafnframt hefur Sterling einnig orðað það svo að félagið muni leggja árar í bát.

„I rest my case“ segir Nils.


mbl.is Sterling dregur saman seglin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er ég....bergnuminn? Nei steinrunninn, eða glerunninn? Allavega er ég mikið hissa!

Status quo í þá 17 mánuði síðan bruninn varð. Ekki verið hreyft við neinu.

Á sama tíma og hugmyndir hafa verið uppi um að stinga niður gler- eða steinkumböldum á ólíklegustu stöðum, eins og á Laugavegi, hafa menn algerlega gleymt þessum reit. Menn hafa fundið sér ýmsa staði til að veita útrás sínum afbrigðilegu arkítektísku hvötum. Samanber hörmungina bak við Naustið.

Þarna er einn besti staður í bænum, til að fá almennilega úr'onum.......allt svo gler- og steinkumbaldaarkítektúrnum. Sjáið fyrir ykkur svona eins og átta hæða turn. Dökkgráa steinsteypuna og allt speglaglerið, í sinni einstöku andstöðu við bæði umhverfið og mannlegar tilfinningar. Hvílíka arkítektíska orgíu sem hér mætti koma í kring. Úfff. Nú bara verð ég að fara afsíðis......

 

 

......að fá mér kaffi og sígó.


mbl.is Lækjargata 2 tekin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar börnin mín fæddust...

...þá var múgur og margmenni á staðnum. Tja, kannski ekki alveg, en þar voru fæðingarlæknir og ljósmóðir. Læknirinn fylgdist með að allt væri í lagi, sem blessunarlega það var. Þegar börnin voru fædd tók ljósmóðirin við.

Það var ljósmóðirin sem var mér innan handar að klippa á naflastrenginn.

Það var ljósmóðirin sem tók utan um mig, grátandi föðurinn og óskaði hamingju.

Það var ljósmóðirin sem hjálpaði mér að baða barnið hið fyrsta sinn.

Það var ljósmóðirin sem hjálpaði mér að klæða barnið í sín fyrstu föt.

Það var ljósmóðirin sem gerði allt sitt til að gera þessa upplifun svo góða.

 

Ég vil ekki halla á aðra. Fæðingarlæknar eru ágætir líka. Gamall vinur minn, sem er læknir, tók á móti dóttur minni. Það var yndislegt.

Amma mín var ljósmóðir og ég er stoltur af að vera afkomandi hennar.

Ég styð ljósmæður 100%

Það er skömm að því hvernig fólki í umönnunarstörfum er launað.


mbl.is Læknar lýsa yfir stuðningi við ljósmæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Losun lorts

Ég verð að viðurkenna að það var hið fyrsta sem mér kom í hug við eð lesa fyrisögnina. Gróðurhús eru mér ekki svo hugleikin.

Hvar verður um allt gumsið í flugvélaklóurunum? Fer það í þar til gerða rotþró á flugvellinum, eða fær það bara að gossa yfir opnu hafi?

Hvert fer lorturinn?

Reyndar hef ég aldrei gert nr. 2 íflugvél, en hver veit? Ég þarf að fljúga innan fárra daga og hver veit nema þá verði eitthvað fyrst.


mbl.is Losunarheimildir vegna flugs: Sérstaða Íslands liggur í legu landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðlækkanir. Spennufall meðal erlendra olíukaupmanna, en ekki íslenskra.

Undanfarna daga hefur gífurleg spenna gripið um sig á olíumarkaði. Yfirvofandi eyðilegging fellibylsins Gustavs hefur valdið gífurlegum kvíða og andvökunóttum. Ekki meðal íbúa í New Orleans og nágrenni, heldur meðal olíukaupmanna, sem flestir búa í þúsunda kílómetra fjarlægð frá hættusvæðunum og ættu því að geta sofið rótt með bangsann sinn.

Fyrrnefnd áhyggju- og kvíðaköst hafa valdið olíuverðshækkunum undanfarna daga þrátt fyrir að talið sé að draga muni enn frekar úr eftirspurn eftir olíu í heiminum, enda vitað að framboð og eftirspurn hafa ekkert með málið að gera.

Nú hefur komið í ljós að Gustav olli ekki þeirri eyðileggingu sem óttast var. Hefur það valdið þvílíku spennufalli meðal olíukaupmanna, að leitun er að öðru eins. Sjúkrastofnanir í New York hafa verið yfirfullar í morgun vegna þessa. Einhverjar verðlækkanir urðu strax í morgun, en talið er að einhver bið verði eftir frekari verðbreytingum þar til menn hafi jafnað sig eftir spennufallið.

Hinsvegar hafa íslenskir olíusalar hafa sloppið að mestu við áhyggju- og kvíðaköst vegna Gustavs. Því munu landsmenn geta átt von á verðlækkunum hér heima.


mbl.is Heimsmarkaðsverð á olíu nálgast 106 dali tunnan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband