Eyjólfur

Margir leggja á sig að ferðast með Eyjólfi, eða Herjólfi til eyja. Ég þekki það ekki.

Fyrir sléttum tuttugu árum fór ég á þjóðhátíð í eyjum, um verslunarmannahelgi. árin á undan hafði ég farið í Þjórsárdalinn, hvar voru tvö svið og alltaf eitthvað í gangi utan milli sjö og átta eða átta og níu, að morgni. man ekki hvort var.

Árið 1988 fór ég til eyja. Við vinur minn flugum á staðinn og allt leit vel út í fyrstu. Komum á föstudagskvöldi. Tjölduðum og fórum á röltið. Sounded good. Reyndar var kvöldið ágætt.

Síðan vöknuðum við daginn eftir. Allt dautt. Ekkert um að vera í dalnum. Vestmannaeyingarnir farnir heim til sín og engin starfsemi á staðnum. Við vorum tilneyddir að labba inn í bæinn ætluðum við að hitta fólk. Reyndar var bærinn jafn steindauður og dalurinn. Fórum í einhverja pulsusjoppu.

Frekar glatað.

Mig hefur ekki langað á þjóðhátíð síðan.


mbl.is Búist við 10.000 í Herjólfsdal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kisikisikis

Ég er kattavinur. Reyndar hef ég ekki haft kött í ca 15 ár, en kettir eru þau dýr sem ég kýs að hafa nálægt mér ef einhver eru.

Einn bloggvinur minn er mikill kattavinur. Hjá honum sá ég link inn á aðra síðu þar sem lýst er eftir týndum ketti.

Þeir sem haft hafa gæludýr vita hve sárt er að missa þau. Ekki síst fyrir börn. Sjálfur kynntist ég því að týna kisunni minni, fyrir 17 árum síðan. Þá gekk ég um allt hverfið til að leita hennar. Auglýsti svo í Mogganum og fékk svar Smile Hún var þá stödd í blokkaríbúð skammt frá. Konan þar hafði fundið hana á þvælingi og ákveðið að taka hana inn og fylgjast með auglýsingum í Mogganum. Hún var mjög hænd að mér, allt svo kisan. Hún var einungis hálfs árs gömul þá og er enn á lífi, orðin 17 ára. Gömul og guggin en alveg yndisleg sál. Yndisleg kisa. Hennar löggilta heiti er Viktoría (já, stórt nafn), en gekk undir ýmsum nöfnum, s.s. hliðarkisa og kvikindi. Hún varð eftir í húsinu eftir að ég og síðan pabbi, fluttumst burtu. Ég sakna hennar, en alltaf gott að heyra fréttir af henni og vita að hún lifir.


Hamingja?

Hvað er hamingja? Er hamingja manns/konu háð því hvernig makinn hegðar sér? Án þess að hafa lesið bók Þorgríms, hef ég á tilfinningunni að það sé hanns skoðun. Allavega miðað við titil bókarinnar. Æjæ.

Nei. Seinast þegar ég gáði kallaðist það ekki hamingja, að gera eigin tilfinninar að framlenginu á tilfinningum annarra. Það kallast á góðri íslensku, meðvirkni.

Fólk sem er meðvirkt, af ýmsum ástæðum, leitar sér gjarnan hjálpar við að komast úr meðvirknishlutverkinu. Já, losna undan meðvirkninni til að öðlast hamingjuna. Þannig er það nú. Það er nefnilega engin hamingja fólgin í að sveiflast tilfinningalega eftir tilfinningum, skapi eða gjörðum annarra. Ó nei.

Ég hef ekki lesið þessa bók og get því ekki vitnað í hana beint. Það eina sem ég hef séð vitnað í hana er hér. Þetta brot, að maðurinn skuli tipla á eftir konunni, tilbúinn með krítarkortið, segir mér að maðurinn skuli ekki síður vera meðvirkur. Kannski hann eigi líka að brosa á réttan hátt og á rétturm augnablikum og hlægja þegar það á við.

Ekki gæfulegt samband það. Samband gegnsýrt af meðvirkni, á báða bóga. Er það hamingja, Þorgrímur?


mbl.is Karlmenn læra um konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sultublogg

Nú hefur Moggabloggið verið í tómri sultu síðan einhverntímann í gær. Reyndar er nú orðið hægt að blogga og lesa blogg, en víða vantar myndir. Þær koma væntanlega inn aftur, eða hvað? Allavega var því haldið fram að engin gögn hefðu tapast. Ég mun fylgjast spenntur með hvort mitt blogg fái sitt rétta útlit á ný. Var með bláá paprikuþemað ásamt eigin hausmynd. Nú er það orðið að appelsínuþema án myndarinnar. Hafi engin gögn tapast ætti allt að lagast, er það ekki?

Annars verður rík ástæða til að fjasa almennilega Errm


Obbossí!

Var einhver að opinbera skítlegt eðli?

Hver var það aftur sem talaði svo mikið og oft um að hann starfaði ávallt af heilindum og....æ man ekki hitt orðið. Það er væntanlega hvort eð er jafn marklaust.

Ég hefði haldið að það þætti einmitt lýðræðislegt að ræða málin á þar til gerðum stöðum (skipulagsnefnd) og eðlilegt að vera ekki básúnandi einhverju þrugli fyrr en réttir aðilar hefðu tekið málið fyrir.

Nei, sumir hafa tekið sínar endanlegu og óhagganlegu fyrirfram-ákvarðanir, byggðar á tilfinningu og einhverri óskiljanlegri 19. aldar rómantík.

Sumir hafa misst svo margar skrautfjaðrir (ekki að þær hefðu verið of margar fyrir), að eru sem næst eins og reyttur kjúklingur. Kannski best að blörra þá bara.


mbl.is Borgarstjóri skiptir um varaformann skipulagsráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blætisblæti

Já. minns alveg að týna sér í blætinu. Klikkaði á einni klippu í breikdansblætinu. setti inn 'first battle' en klikkaði á 'second battle' Þar er sem fyrr Ice-T að jóðla. Glöggir athugendur heyra ef til vill í 'The art of noise' fyrstu sekúndurnar. engir andsotans sveittir og rifnir gítarar þar.

Annars ætlaði ég ekki að blæta svo mikið núna. Smá breikblæti on ðe sæd.

Klukkan er orðin allt of seint. Allavega, þá er hverjum manni hollt að taka Össurinn stöku sinnum. Nú hef ég Össurað talsvert og er sæll og glaður.


Meira blætisblogg

Eins og ég gat um í Kraftwerksblogginu, er ég á blætistrippi þessa dagana. Jafnframt hótaði ég sérstöku blætisbloggi um electro funk. Nú ætla ég að standa við þá hótun, en fara smá krókaleið. Lagt verður upp frá Kraftwerk, komið við í breikdans-blæti og þaðan í elektró fönk-blæti.

Þegar ég fór á youtube að leita að Kraftwerk myndböndum, rakst ég á atriði úr kvikmyndinni Breakdance. Kraftwerk leikur fyrir dansi.

Kallinn fékk heilmikið nostalgíukast við að rekast á þessa klippu og tók sig upp mikið nostalgíublæti. Best að henda inn öðru atriði úr sömu mynd.

Finna má heilmikið af breikdans efni á netinu, en það er sérstök ástæða fyrir að ég valdi klippuna að ofan, fyrir utan nostalgíuna. Tónlistin. Þeir sem nenntu að skoða klippuna hafa ef til vill tekið eftir að þarna var enginn annar en Ice-T gamli að fremja elektró fönk. Fáum aðra klippu frá sama tíma, en úr annarri mynd. Beat street.

Elektró fönkið allsráðandi á þessum tíma sem breikdanstónlist.

Ég ætla ekki að halda neinn lærðan pistil um elekró funk, heldur bara að hafa hér í frammi nostalgíurunk. Kannski samt smá útúrdúr í lokin.

Á sama tíma og sumir breikuðu úti á götu, við elekró fönk, dönsuðu aðrir við Italo disco, á skemmtistöðum evrópu. Í dag er mikil tíska að minnast níunda áratugarins með hæðnisglotti á vör og æluna í kokinu. Hér er ein klippa sem er skemmtilega hallærisleg. Á meðan þið lokið augunum og ælið yfir lyklaborðið, skuluð þið samt hlusta. Hér er ekta Ítaló diskó.

Þá er komið að uppskrift mánaðarins.

Takið nokkur afbrigði af Ítaló diskó og marinerið í elektró fönki í 25 ár.

Berið svo á borð fyrir almúgann, t.d. á Thorvaldsen og Nasa.

Verði ykkur að góðu.

Þetta lyktar langar leiðir af elekró fönki og Ítaló diskói.


Kraftwerksblæti

Meira blæti, meira blæti. Þetta eru orðin alger blætisblogg hjá mér núorðið og fleiri blæti bíða bloggunar. Nú er maður svo skrambi önnum kafinn alla daga að maður tekur bara Össurinn á þetta og bloggar síðla nætur.

Kraftwerk er blæti þessa pistils.

Ég klæddi mig í bol í morgun, merktum Kraftwerk.

„Pabbi, hvað er þetta með þig og Kraftwerk?" spurði sonurinn mig. „Kraftwerk eru guðir" svaraði ég.

Það var snemma árs 1982 sem ég kynntist Kraftwerk. Fram að þeim tíma var ég bara strákskratti sem hlustaði á Halla og Ladda meðfram því sem var meinstrím og spilað á Gufunni.

Þetta vor vildi svo til að fjögurra ára gamalt Kraftwerk-lag varð vinsælt í Evrópu. Lagið heitir The Model (Das Modell) og kom út árið 1978 á plötunni The Man Machine. Stóri bróðir minn keypti þá téða plötu. Ég stalst í hana og varð heillaður. Gersamlega heillaður. Ekki bara flottar melódíur. Líka flott sánd. Ekki þá bara upptökurnar, heldur heillaðist ég svo af hljóðgervlunum og öllu því gumsi.

Ég hafði fundið eitthvað sérstakt.

Ég man að um sumarið fór ég í sveit og hringdi, gegn um sveitasímann (tvær langar, tvær stuttar) til bróður míns og bað hann að taka plötuna upp, á kassettu og senda mér. Eftir að ég fékk kassettuna í hendur varð hún staðalbúnaður í bifreið heimilisins. Það voru allir að fíla tónlistina. Karlinn, kerlingin og sonur þeirra. Fyrir utan okkur öll, krakkana sem vorum þarna í sveit. Spólan var spiluð langt fram yfir heyskap.

Allavega. Þarna uppgötvaði ég tölvutónlist og komst að því að það þarf ekki endilega að heyrast í rifnum gítar til að geta notið.

Tónlistarlega, eru þetta tímamót í mínu lífi. Ég fílaði samt og fíla enn sumt af gamla pönkinu, eins og Clash, sem er hrein snilld.

Eftir þetta fór ég að gefa meiri gaum að annarskonar tónlist en einhverju meinstrím rokki og poppi. Árið 1984 kynntist ég svo electro funk tónlist, sem er bara snilld. Tek alveg sér blætispistil um það síðar.

Kannski varð þessi tímapunktur árið 1982 til að gera mig að þeim píkupoppara sem ég er í dag. Hú nós. Allavega...þá var þetta alveg dæmigert fyrir Kraftwerk. Lag sem þeir gáfu úr árið 1978 varð ekki vinsælt fyrr en fjórum árum seinna. Þeir voru alltaf of langt á undan sinni samtíð.

Svo auðvitað kom að því að það dró saman með Kraftwerk og öðrum. Tæknin gerði öðrum kleift að framkvæma svipaða hluti (án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir því). Kraftwerk verður þó ávallt feti framar í huga mér.

 

Ég setti í spilarann endurblandaða útgáfu af laginnu Autobahn. Lagið kom first út árið 1974. Við erum að tala um ári aður en diskóið varð til.

Skondið, að sum lögin þá (endurblönduð árið 1991) voru gersamlega endurgerð en Autobahn ekki. Það hljómar svo til eins og árið 1974 nema með nútíma tækni hafa þeir gert það eins og þeir hefðu viljað geta gert það árið 1974.

 


Þýskir sjá rándýr

Sú tíska, að sjá birni í hverju horni, virðist hafa náð útbreiðslu utan landsteinanna. Nú hafa þýskverjar tekið upp þann sið að sjá stokka, steina og hvað annað sem birni. Reyndar hafa þeir sinn afbrigði, þar sem þeir sjá skógarbirni í stað hvítabjarna. Stigsmunur en þó ekki eðlismunur.

Reyndar hafa þýskverjar lengi séð rándýr víða. Hingað til hefur það þó aðallega einskorðast við vöruverð í útlöndum. T.d. hefur mörg varan á Íslandi þótt rándýr.

En aftur að björnum.

Sú frétt barst í dag að sést hafi til nakins manns í Esjuhlíðum. Þrátt fyrir ítarlega leit lögreglu og björgunarsveita hefur hann ekki fundist. Líklega er rétt er sagt var í hádegisfréttum RÚV að hér hafi verið um hvítabjörn að ræða.


mbl.is Þýskir útivistarmenn sjá rándýr í hverju horni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsskortur á rofum

Ástandið í rafvörugeiranum hefur verið bagalegt undanfarið. Ljósarofar hafa t.d. verið illfáanlegir vegna gífurlegrar eftirspurnar.

Sigrún Karlsdóttir, innkaupastjóri Rafvöruverslunarinnar, segir þetta ekki hafa verið svo slæmt hérlendis. „Við höfum átt svo mikið á lager að ástandið hér hefur verið skaplegt“ segir Sigrún. „Nú er þó svo komið að allir rofar eru uppseldir, utan einstaka dyrabjöllurofa. Það seldist allt upp fyrir helgina, en sending er á leiðinni sem ætti að koma í hús síðdegis á morgun.“

Rafvirkjum landsins er því bent á að sleppa ölinu á morgun. Það verður nefnilega haldið áfram að vinna hinn daginn.


mbl.is „Rofar til síðdegis á morgun"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband